19.04.1960
Sameinað þing: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (2949)

92. mál, radíóstefnuviti í Hafnarfirði

Matthías Á. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vildi aðeins mega taka undir þau orð, sem hv. flm., 7. landsk., flutti hér áðan í sambandi við radíóstefnuvita í Hafnarfirði. Þetta mál hefur lengi verið brýnt nauðsynjamál, þótt af óskiljanlegum ástæðum hafi ekki fengizt á því lausn. Mér er kunnugt um, að slysavarnasamtökin hafa um nokkur ár reynt að vinna að lausn þessa máls og komið þessari hugmynd á framfæri við þá aðila, sem með þetta mál fara.

Eins og hv. flm. gat um, þá vonaðist hann til þess, að þetta mál fengi nú afgreiðslu á hv. Alþ., og vildi ég mega taka undir það og vonast til þess, að svo verði.