19.04.1960
Sameinað þing: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í D-deild Alþingistíðinda. (2956)

95. mál, utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúar þess erlendis

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langa framsögu fyrir þessari till. Eins og hún ber með sér, fjallar hún um það, að Alþ. feli ríkisstj. að láta endurskoða löggjöfina um utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis, að endurskoðunin skuli beinast að því að gera utanríkisþjónustuna ódýrari en nú og að hún verði gerð í samráði við þingflokkana og niðurstöður hennar verði lagðar fyrir næsta þing.

Eins og fram kemur í grg., eru núgildandi lög um utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis orðin nær 20 ára gömul. Þau voru sett hér rétt á eftir, að sambandið rofnaði á milli Íslands og Danmerkur á stríðsárunum, og að sjálfsögðu þá miðuð við talsvert aðrar aðstæður en þær, sem nú eru fyrir hendi, og nægir það eitt til þess að gera þá endurskoðun nauðsynlega, er till. fjallar um.

Í þessum lögum, sem eru frá 1941, er ríkisstj. sett það í sjálfsvald að ákveða, hvar Ísland skuli hafa sendiráð erlendis, og hefur þetta leitt til þess m.a., að sendiráðin eru nú óeðlilega mörg að margra dómi.

Það hefur komið oft fram í umr. hér á þingi og seinast í sambandi við umr. um fjárlagafrv., að í öllum flokkum eru uppi raddir um það, að nauðsynlegt sé að fækka sendiráðum og færa þau saman, í þessari till. er þess vegna lagt til, að endurskoðun fari fram með það fyrir augum að gera kostnaðinn við utanríkisþjónustuna, sérstaklega sendiráðin, minni en nú er. Það er enn fremur lögð á það áherzla og lagt til í till., að þessi athugun eða endurskoðun fari fram í samráði við alla þingflokkana. Er þetta byggt á því, sem öllum má ljóst vera, að utanríkismálin eru nokkuð sérstaks eðlis og þess vegna eðlilegt, að reynt sé að hafa samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu um þau, þó að því verði kannske síður við komið um ýmis önnur mál.

Ég vil í þessu sambandi minna á það, að þegar fyrir nokkru var rætt hér á Alþingi um stjórnarráð Íslands og hugsanlega endurskoðun á löggjöf um það efni, kom sú skoðun fram hjá hæstv. dómsmrh., að eðlilegt mundi vera, að slík endurskoðun færi fram á breiðum grundvelli, og gildir það að sjálfsögðu ekki síður um utanríkisþjónustuna.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri, en geri það að till. minni, að umr. verði frestað og málinu vísað til utanrmn.