27.04.1960
Sameinað þing: 43. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 322 í D-deild Alþingistíðinda. (2980)

109. mál, brú yfir Ölfusárós

Flm. (Unnar Stefánsson):

Herra forseti. Hafnargerð í Þorlákshöfn, sem nú er fyrirhuguð, er ein mikilvægasta fjárfestingarframkvæmd, sem nú er fram undan í okkar landi. En kostir þeirrar hafnar munu ekki njóta sín til fullnustu, fyrr en samgöngur að henni og frá hafa verið bættar með brú yfir Ölfusárós hjá Óseyrarnesi. Þess vegna hef ég á þskj. 254 lagt til, að Alþ. skori á ríkisstj. að láta undirbúa byggingu brúar yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi og lagningu vegar, sem tengi Þorlákshöfn við þorpin Eyrarbakka og Stokkseyri og nærsveitir.

Söguleg þróun atvinnuhátta og breyting á ytri aðstæðum leiða til þess, að till. þessi er komin fram einmitt nú og er fullkomlega tímabær, sérstaklega vegna fyrirhugaðra framkvæmda í hafnarmálum þessa staðar, og er reyndar í beinu framhaldi af og í samhengi við þá framkvæmd.

Þorlákshöfn var á sínum tíma ein kunnasta verstöð landsins. Þaðan gengu á síðari hluta 19. aldar 20–30 og allt að 40 bátar, þegar mest var, og útróðra þaðan sáttu sjómenn nálægra héraða og víðar að. Upp úr aldamótunum tekur útgerð hins vegar að hnigna með tilkomu vélbátanna, vegna þess að þar voru engin hafnarskilyrði fyrir þá og eins vegna aflaleysis, sem fylgdi í kjölfar þess, að ágangur erlendra togara jókst stórum á Selvogsbanka og nálægum miðum. Má því segja, að fiskurinn hafi gengið til þurrðar vegna ofveiði. Þegar leið að styrjaldarárum, beindist athygli manna á ný að þessari verstöð, en það var fyrst árið 1946, sem verulegur skriður kemst á útgerðina, eftir að sýslufélögin í Árnessýslu og Rangárvallasýslu hefjast handa um bryggjugerð þar og með stofnun útgerðarfélagsins Meitils h/t. Enn í dag hafa hafnarskilyrðin þó torveldað útgerð frá þessum stað, þó að mikilsverð reynsla sé nú fengin af þeim tilraunum, sem þar hafa verið gerðar.

Sunnlendingar hafa almennt haft mikinn og brennandi áhuga á þessu máli og oftar en einu sinni beint áskorunum og eindregnum tilmælum til Alþ. og ríkisstj. um að veita þessu máli brautargengi. Sýslunefnd Árnessýslu hefur hvað eftir annað samþ. um þetta ályktanir, t.d. síðast árið 1958, þar sem segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur sýslunefndar Árnessýslu skorar á ríkisstj. að veita hafnargerðinni í Þorlákshöfn nægilegan styrk til þess, að hægt sé að halda framkvæmdum áfram viðstöðulaust, unz hafnargerðinni er lokið.“

Áður, árið 1956, hafði sýslunefnd Árnessýslu á aðalfundi samþ. svo hljóðandi tillögu: „Sýslunefnd Árnessýslu telur, að brú á Ölfusá hjá Óseyrarnesi sé mjög aðkallandi nauðsynjamál fyrir héraðið, m.a. vegna vaxandi vörulöndunar og útgerðar í Þorlákshöfn. Sýslunefndin fagnar því, að brú á þessum stað skuli hafa verið tekin í brúalög og einnig að vegur að brúnni hefur verið tekinn í tölu þjóðvega og til hans veitt byrjunarframlag. Jafnframt því vill sýslunefndin leyfa sér að skora á hv. Alþ. að halda áfram með fjárveitingu til vegarins og taka á fjárlög framlag til brúarinnar, svo að hægt verði að hefja þessi verk sem allra fyrst. Það er tvímælalaust hagsmunamál fyrir héraðið, að styttra og betra vegarsamband komist á við Þorlákshöfn, og það þarf að koma jafnframt byggingu innflutnings- og útflutningshafnar þar. “

Þetta voru sýnishorn af ályktunum Sunnlendinga. En hvað snertir Alþ. hafa þessi málefni verið tekin fyrir árið 1953, er samþykkt var samkv. till. frá Jörundi Brynjólfssyni, þáverandi 1. þm. Árn., að taka brú á Ölfusárós hjá Óseyrarnesi inn á brúalög, og tveimur árum síðar, er vegurinn að brúnni var tekinn í tölu þjóðvega.

Sunnlendingar hafa í ræðu og riti á undanförnum árum fært rök að mikilvægi hafnargerðarinnar í Þorlákshöfn, og ég vil leyfa mér að nefna nöfn tveggja manna, sem þar hafa verið í fylkingarbrjósti, þá Egil Thorarensen kaupfélagsstjóra á Selfossi og Vigfús Jónsson oddvita á Eyrarbakka, sem báðir eru málum þessum vel kunnugir.

Sýslufélögin tvö, Árnessýsla og Rangárvallasýsla, hafa byggt eina bryggju í Þorlákshöfn, sem er grundvöllur þeirrar útgerðar, sem þar hefur verið rekin hin síðari ár. Bryggja þessi var byggð á árunum 1946–55 og hefur kostað til þessa samtals 11 millj. og 655 þús. kr. Sýslufélögin hafa staðið undir þessum framkvæmdum með lánsfé að mestu leyti, en ríkissjóður hefur greitt sinn lögboðna hluta, eftir því sem ákveðið hefur verið í fjárlögum hverju sinni. Hins vegar var frá öndverðu ljóst, að svo mikilvægt verkefni yrði ekki unnið í smááföngum, þó að þetta sjónarmið hefði ekki fengizt viðurkennt af ríkisvaldinu né Alþ., fyrr en ráðuneyti Emils Jónssonar á s.l. ári ákvað að fela seðlabankanum að útvega til þessara framkvæmda erlent lánsfé að upphæð 1.2 millj. dollara eða sem svarar 45 millj. íslenzkra kr. á núverandi gengi, og undirbúningi hafnargerðarinnar er nú svo vel á veg komið, að telja má lokið að mestu.

Það þarf ekki að geta þess, hve mikilvægt er fyrir atvinnuhætti á Suðurlandsundirlendi og fólkið, sem þar býr í stóru héraði í örum vexti, að geta haft aðgang að hafi með öll sín viðskipti, bæði innflutning og útflutning. Með tilkomu hafnarinnar opnast hlið að sjó fyrir 15 þús. íbúa á hinu stóra landssvæði. Eftir að bryggjan var lengd fyrir 3 árum, hafa að meðaltali komið til Þorlákshafnar

40 hafskip á hverju ári, allt upp í 3200 lestir að stærð. Öllum fiskafurðum hefur verið skipað þaðan út frá bryggjunni. Inn hafa verið fluttar árlega 5000 lestir af blönduðum fóðurbæti, 1000 lestir af óblönduðum fóðurbæti. 2500–3000 lestir af áburði. 2000 lestir af sementi. 5000 lestir af olíu og ýmiss konar þungavörur aðrar, og í Þorlákshöfn hefur verið byggð 1600 m2 vöruskemma, ein hin stærsta á landinu. Er af þessu ljóst, að Þorlákshöfn á mikilvægu hlutverki að gegna sem hafskipahöfn.

En mestur hluti þess vörumagns, sem þar er fluttur á land, er fluttur í bifreiðum til Selfoss og þaðan um hinar ýmsu byggðir austan Ölfusár. Leiðin á milli Þorlákshafnar og Selfoss mundi við byggingu brúar yfir Ölfusárós styttast um 12 km, úr 36 í 24, og samsvarandi til allra annarra byggðarlaga austan árinnar. Til Eyrarbakka mundi leiðin verða 12 km, en er nú 50 km. Með tilliti til betri hafnarskilyrða, vaxandi innflutnings og ört vaxandi útflutnings frá Þorlákshöfn með aukinni framleiðslu er ljóst af nefndum tölum, hversu geysilegan sparnað á flutningskostnaði mundi leiða af tilkomu nefndrar brúar.

Í öðru lagi á hafnargerð og brú mikilvægu hlutverki að gegna í sambandi við útgerð. Hin síðari ár hafa verið gerðir út frá Þorlákshöfn 8 bátar, og hefur afkoma þeirra farið sífellt batnandi frá ári til árs. Á þessari vertíð hafa verið gerðir út frá Þorlákshöfn 6–8 bátar og hafa haft jafnbeztan afla á öllum verstöðvum landsins. Hæsti báturinn í Þorlákshöfn hefur t.d. fengið frá miðjum janúar til 22. apríl 957 lestir, eða ámóta mikið og hæsti bátur frá öðrum verstöðvum landsins, t.d. í Vestmannaeyjum, hefur fengið, sem er þó meira en tvöfalt stærri en þessi bátur, sem er milli 30 og 40 tonn. Annar báturinn hefur fengið 875 lestir, sá þriðji 725, fjórði 625, fimmti 610 og sjötti 601. Ég nefni þessar tölur til þess að sýna fram á, hversu jafn afli Þorlákshafnarbáta er. Afkoma þessara báta mun vera betri að jafnaði en báta nokkurs annars staðar á landinu, m.a. vegna þess, að þessir bátar eru af stærðinni 20–45 lestir eða miklu minni en þeir bátar, sem að jafnaði eru gerðir út frá öðrum verstöðvum, en einmitt eru til í landinu fjölmargir bátar af þessari stærð, sem eru ekki nýttir til fulls, en mundu verða arðvænlegastir frá Þorlákshöfn. Aflahlutur Þorlákshafnarbáta er einnig jafnari en báta frá nokkurri annarri verstöð. Hæsti hásetahluturinn núna mun vera nálægt 70 þús. kr. og aðrir hlutir litlu lægri. Vegna þess að bátar frá Þorlákshöfn eru þetta miklu minni en þeir, sem ganga frá Vestmannaeyjum og Grindavík eða öðrum nálægum verstöðvum, er ástæða til þess að ætla, að aukin útgerð í Þorlákshöfn muni ekki draga úr útgerð frá öðrum verstöðvum eins og Vestmannaeyjum, heldur verða hrein aukning útgerðar og framleiðslu og á heildartekjum þjóðarbúsins.

Eftir að komin er bátakví í Þorlákshöfn fyrir 50 eða jafnvel 100 báta og skilyrði sköpuð til aflavinnslu, þá er augljóst, hvílík aukning útflutningsverðmæta væri samfara því. En betri skilyrði til aflavinnslu eru nauðsynleg. Ég vil þó geta þess, að einmitt fyrir hádegi í morgun tók til starfa í Þorlákshöfn 1900 m2 hraðfrystihús með 100 tonna vinnslugetu á 10 stunda vinnudegi. Það hefur verið 15 mánuði í smíðum, hefur þó flökunarvél af nýjustu gerð og aðstöðu til flökunar fyrir 40 manns, skilyrði til ísframleiðslu og mun fullgert verða eitt afkastamesta hraðfrystihús landsins. Eftir tilkomu þessa húss fá Þorlákshafnarbátar grundvöll til þess að stunda sjó ekki aðeins á vetrarvertíð, heldur einnig allan ársins hring.

Bætt útgerðarskilyrði í Þorlákshöfn gera kröfu til mikillar fjárfestingar í fleiri framleiðslutækjum og íbúðarhúsum vegna skorts á vinnuafli. En í þorpum tveimur á strandlengjunni handan Ölfusár, Eyrarbakka og Stokkseyri, eru fyrir hendi óhagnýtt frystihús með 80 tonna vinnslugetu, geymslurými fyrir 500 tonn fisks, hjallarými, þurrkhús og önnur framleiðslutæki, sem vantar í Þorlákshöfn, og síðast, en ekki sízt, mikið vinnuafl og ónotað íbúðarhúsnæði, sem mun aukast, vegna þess að fyrirsjáanlegt er, að með betri útgerðarskilyrðum í Þorlákshöfn án brúar yfir nefndan ós muni útvegur frá þessum þorpum leggjast með öllu niður.

Af þessum alvarlegu viðhorfum er ljóst, að þjóðhagslega hagkvæmt muni vera að tengja hina nýju og vaxandi verstöð í Þorlákshöfn við þorpin tvö og hina þéttu byggð nærsveita þeirra. Beint vegasamband þarna á milli mundi hvort tveggja í senn endurskapa skilyrði til áframhaldandi útgerðar frá Eyrarbakka og Stokkseyri vegna lendingaröryggis og minnka verulega eða fresta fjárfestingarþörf í Þorlákshöfn, bæði vegna möguleika á hagnýtingu framleiðslutækja þessara staða og vegna aukinnar þátttöku íbúanna þar í framleiðslustörfum í Þorlákshöfn, og skapa þannig þjóðhagslega hagkvæmari nýtingu vinnuafls og annarra framleiðsluþátta en ella gæti orðið.

Þorpin Eyrarbakki og Stokkseyri hafa vegna breyttra atvinnuhátta í héraði og erfiðra hafnarskilyrða búið við ónóga atvinnu heima fyrir undanfarin ár og sjá nú fram á vaxandi erfiðleika. Eftir að þessi þróun er fyrirsjáanleg, er frá sjónarmiði íbúa þessara þorpa óumflýjanlegt, að gerð verði á því nú þegar fullnaðarrannsókn, hvort tiltækilegt þyki í nánustu framtíð að ráðast í byggingu brúar yfir Ölfusárós eða ekki. Íbúum þessara byggðarlaga er nauðsynlegt að fá að vita afdráttarlaust, hvort horfur séu á byggingu slíkrar brúar, til þess að þeir geti tekið tillit til þess í sínum framtíðaráætlunum. Frá sjónarhóli Eyrbekkinga t.d. getur þetta dæmi litið þannig út, að spurt sé, hvort hagkvæmara sé að byggja brú yfir þennan ós eða að byggja yfir íbúa þessa þorps í Þorlákshöfn og að þeir flytjist þangað.

Eyrarbakki var á sínum tíma viðskipta- og menningarmiðstöð í héraðinu, og er það eðlilega tilfinningamál fyrir íbúa viðkomandi byggðarlaga að standa frammi fyrir slíkum vanda. En ég vil leggja áherzlu á, að með flutningi þessarar till. er stefnt að því, að hið allra fyrsta fari fram tæknileg rannsókn á brúarstæðinu og að gerðir verði útreikningar á vísindalegan hátt, hvort hagkvæmni þeirrar brúar verði frá efnahagslegu sjónarmiði talin fullnægjandi eða ekki, til þess að skynsamlegt og réttlætanlegt sé að hefjast handa.

Vegamálaskrifstofan hefur látið gera lauslegar athuganir á brúarstæði á þessum stað. Þær athuganir hafa leitt í ljós, að undirstaða undir brúarbyggingu sé ákjósanleg, 3 m niður á harða klöpp, brúin þurfi að vera 440 m á lengd, eða eins og 5 Þjórsárbrýr, og að hún muni kosta allt að 40 millj. kr. með núverandi verðlagi. Ef ekki koma fram við rannsókn sérstakir annmarkar á framkvæmd þessarar hugmyndar, virðist frá leikmannssjónarmiði einhlítt, að brú verði byggð yfir Ölfusárós, en á hinn bóginn aðeins álitamál og spurning um nokkur ár, hvenær kleift verði talið að hefjast handa.

Ég hef hér að framan aðeins miðað við þær aðstæður, sem þegar eru fyrir hendi. Veigamestu rökin fyrir brúargerð á þessum stað eru þó fólgin í þeim fyrirheitum, sem framtíðin ber í skauti sínu. Hafnarstæðið í Þorlákshöfn er betur í sveit sett en nokkurt annað hafnarstæði og bæjarstæði landsins. Á aðra hönd eru fengsælustu fiskimiðin, þar er óunnið salt í sjó og silfur hafsins allan ársins hring, en á hina höndina eru kostaríkustu sveitir, ekki aðeins búsældarleg landbúnaðarhéruð, heldur auðlindir milli fjöru og fjalla. Þar bíður ómalað gull í þangi og þara við fjörusteina, víkurgjall, sem gæti orðið að dýrmætum steinum, gras, sem gæti orðið að kjarnmiklu mjöli, óbeizluð orka í hverum og fljótum allt upp að jökulrótum. Á því er ekki vafi, að lausn þessara verkefna er ekki lengur framtíðardraumsýn ein, heldur kallar á okkar kynslóð og er eitt mikilvægasta efnahagsmál þjóðarinnar. En til þess að komast að þessum orkulindum og til þess að flytja út afurðirnar á erlendan markað þarf umfram allt höfn og brú yfir Ölfusárós. Þess vegna fjallar hér um grundvallarframkvæmdir, sem allar stórvirkjanir og öll stóriðja á Suðurlandi byggist á.

Áður en ég lýk máli mínu, er rétt að geta um það vandamál, að Þorlákshöfn og nærsveitir vantar nú umfram annað meira vinnuafl, en ekkert svæði landsins virðist nú geta boðið íbúum sínum upp á öruggari afkomuskilyrði og árvissari tekjur en þessar sveitir vegna mikilla náttúruauðlinda.

Skilyrðin í Þorlákshöfn og á hafnarsvæði hennar bjóða fólki upp á frelsi frá skorti og fátækt með því að flytja sig til í landinu, burt frá kotbýlishætti fortíðarinnar til nútíma atvinnuhátta og stóriðju. Íslendingar eru ekki fleiri en svo, að efnahagsleg velmegun okkar er fólgin í því, að sérhver þegn geti leitað til þeirra staða á landinu. sem eftirsóknarverðastir eru og bjóða upp á lífvænlegustu afkomuskilyrðin.

Sunnlendingar mundu fagna hverri starfsfúsri hönd, sem vildi leggja sitt afl í þessi átök. Engar aðgerðir ríkisvaldsins, neins konar átthagafjötrar mega stöðva framfarasókn fólksins, því að það væri að rýra lífskjör þjóðarinnar í heild.

Þorlákshöfn er sá staður, sem getur boðið upp á glæsilegustu framtíðarmöguleika, eins og nú horfir. Að minni hyggju á ríkisvaldið með aðgerðum sínum að stuðla að sem skjótustum framförum á slíkum stöðum, sem gefa þjóðarbúinu í heild mest í aðra hönd.

Herra forseti. Allir þræðir í minni ræðu hníga að lokum að þeirri ályktun, að till. á þskj. 254 sé tímabær og svo aðkallandi. að ég leyfi mér að óska þess, að hún fái skjóta afgreiðslu.

Að svo mæltu leyfi ég mér að óska þess, að umr. verði frestað og tillögunni vísað til allsherjarnefndar.