19.03.1960
Neðri deild: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1356 í B-deild Alþingistíðinda. (299)

88. mál, söluskattur

Frsm:

meiri hl. (Birgir Kjaran): Fjhn. hv. d. hefur haft frv. það, sem hér er til umræðu, frv. um söluskatt, til athugunar og kynnt sér efni þess og rætt og aflað sér upplýsinga frá n. þeirri, er hæstv. fjmrh. hafði falið samningu þess.

Nefndin hefur ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins, og hefur mér verið falið að gera d. grein fyrir skoðunum og rökum meiri hl. n., sem mælir með því, að frv. verði samþ., að gerðum þeim breyt., sem bornar eru fram á þskj. 211 og n. í heild stendur óskipt að.

Hæstv. fjmrh. gerði svo ýtarlega grein fyrir frv. þessu í framsöguræðu sinni, er hann fylgdi frv. úr hlaði, að nákvæmrar rakningar á efni þess ætti nú ekki að teljast þörf, og mun ég því frekar ræða máliðalmennt, auk þess sem þau rök verða greind, sem talin eru hníga undir þær brtt., sem n. flytur.

Tvennt ber að hafa í huga, þegar frv. þetta er rætt: Í fyrsta lagi, að það er byggt á bráðabirgðaathugun n. þeirrar, er hæstv. fjmrh. fól málið, og eru sumir þættir þess og aðeins hugsaðir til bráðabirgða, eins og fram kemur í grg. frv. Er því gert ráð fyrir, að fyllri og varanlegri löggjöf verði síðar samin um þetta fjárhagsmál, og ætti þá að gefast kostur á að sníða af þá vankanta, sem reynslan kann að leiða í ljós að á þessari löggjöf væru. Í öðru lagi verður jafnan að hafa hugfast, að skattakerfið er ein heild. Hæstv. fjmrh. undirstrikaði og mjög í sinni framsöguræðu, að þetta frv. væri aðeins hluti af þeirri heildarendurskoðun skattalöggjafarinnar, sem nú færi fram á vegum ráðuneytis hans. Skattapólitíkin er snar þáttur í efnahagsmálapólitíkinni, og hún verður að laga sig eftir kröfum tímans og mótast af breyttum aðstæðum, en má ekki daga uppi sem stirðnað kennisetningakerfi. Sú skattapólitík, sem hæstv. fjmrh. boðaði og er í fullu samræmi við þær stefnuskrár, er núv. stjórnarflokkar gengu til kosninga undir, og þá yfirlýsingu, er hæstv. ríkisstj. gaf alþjóð, er hún tók við, hnígur að því, að í vaxandi mæli verði horfið frá beinum sköttum til óbeinna, þó að vafalaust megi telja, að lengi muni enn verða stuðzt við báðar tegundir skatta og skattakerfið því verða blandað.

Það er og alveg rétt, sem fram kom hjá hv: 3. þm. Reykv. (EOl) og hv. 1. þm. Austf. (EystJ) við 1. umr., að þetta frv: og stefna ríkisstj. í skattamálum er hluti af stærri heild, þ.e.a.s. stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum, því að núv. hæstv. ríkisstj. er að móta ákveðna og aðra og víðsýnni efnahagsmálapólitík en að undanförnu hefur verið rekin.

Það er hins vegar alrangt, sem haldið hefur verið fram af stjórnarandstöðunni við þessar umræður, að stuðningsmenn ríkisstj. þyrðu ekki að viðurkenna, að efnahagsmálaaðgerðum hennar gæti fylgt einhver kjaraskerðing fyrir þjóðina um stund. Þessi möguleiki hefur vissulega verið viðurkenndur af hæstv. ríkisstjórn og okkur stuðningsmönnum hennar, og var þjóðin þar engu dulin. Við höfum hins vegar bent á þær staðreyndir, að í fyrsta lagi verði kjaraskerðingin með þessum hætti minni en ella hefði orðið, ef allt hefði veríð látíð reka á reiðanum, og í öðru lagi, að þessi kjaraskerðing eigi aðeins að þurfa að vera tímabundin, því að ef aðgerðir ríkisstj. takist, sé skapaður grundvöllur fyrir eðlilegum vexti þjóðarbúskaparins, framleiðsluaukningu og vaxandi velgengni. Í stuttu máli sagt, að ef ekki hefði verið gripið til úrræða ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum, hefði beðið þjóðarinnar geysileg, varanleg kjaraskerðing, en fyrir atbeina viðreisnarstefnunnar má takast að koma í veg fyrir þessa þróun með aðgerðum, sem að vísu kosta nokkra tímabundna kjaraskerðingu, en hins vegar leggja hornstein að aukinni almennri velmegun í landinu, þegar frá líður.

Þær munu vera legið, kenningarnar, sem settar hafa verið fram um mismunandi skatta, allt frá dögum Williams Pitts til Eysteins Jónssonar. Það hefur vissulega lengi verið leitað að fyrirmyndarskattakerfinu, og þess mun sjálfsagt lengi enn verða leitað og trúlega seint finnast. Það útilokar hins vegar ekki nauðsyn á endurskoðun skattalaga og aðhæfingu skattakerfisins að nýjum aðstæðum, breyttum framleiðsluháttum, stækkandi þjóðfélagsbyggingu og þeim efnahagsviðfangsefnum, sem af því leiðir og við er að etja hverju sinni.

Skattur, hverju nafni svo sem hann kann að nefnast, er skyldugreiðsla þegnanna til þess opinbera, til þess að gera því mögulegt að standa straum af vissum sameiginlegum útgjöldum borgaranna, án þess að hver og einn skattgreiðandi fái beint endurgjald þar í staðinn. Ríkið og sveitarfélögin þarfnast fjármuna til sinna framkvæmda, hvort sem einstaklingarnir hver fyrir sig kunna að telja þessar framkvæmdir æskilegar eða ekki. Skattar eru því eðlilega sú tegund útgjalda, sem öllum þegnum er misjafnlega vel við, ekki sízt vegna þess, að mönnum er oft og tíðum alls ekki ljós sú þjónusta, sem ríki og bæjarfélög láta af hendi fyrir þetta endurgjald. Og enda þótt mönnum væri þetta fullkunnugt, þá eru því takmörk sett, hversu mikið borgarinn vill ótilneyddur láta af hendi rakna fyrir hina opinberu þjónustu, hvort honum blátt áfram finnst ekki sumt af þessari opinberu þjónustu minna virði en önnur lífsins gæði, sem hann telur sig sjálfan einfæran um að afla fyrir sömu fjármuni. Þetta er auðvitað ærið mismunandi eftir hugarfari manna og efnahag. En eitt er þó víst, að einstaklingar sætta sig ekki til lengdar við, að það opinbera taki til sín meira en vissan hluta af tekjum þeirra. Og jafnljóst ætti það og að vera, að við erum í okkar þjóðfélagi komnir mjög nálægt því að ganga of nærri ráðstöfunarrétti einstaklinganna á tekjum þeirra og erum meira að segja í sumum tilfeilum komnir langt yfir þau takmörk, svo að það hefur verið þrengt um of að persónufrelsi einstaklinganna og atvinnurekstrinum verið sniðinn of þröngur stakkur. Slík ofsköttun er ekki aðeins einstaklingunum böl, heldur er hún þjóðfélaginu meinsemd, ef hún dregur úr þjóðarframleiðslunni og beint þrýstir þjóðartekjunum niður.

Dragi skattakerfið úr þjóðarframleiðslunni, þá er það rangt og skaðlegt og verður aldrei réttlætt með því, að það stuðli að tekjujöfnun, réttlátari dreifingu byrðanna, eða öðrum viðlíka slagorðum. Íslenzka skattakerfið hefur sýnt sig að fela í sér þessa meinsemd og raunar fleiri.

Sænskur skattafræðingur, dr. Nils Västhagen, prófessor við viðskiptaháskólann í Stokkhólmi, kom hingað til lands vorið 1958 og rannsakaði áhrif núverandi skatta og útsvara á íslenzk fyrirtæki og atvinnurekstur og komst m.a. að eftirfarandi niðurstöðu, með leyfi hæstv. forseta:

„Varðandi Ísland hef ég komizt á þá skoðun, að atvinnuvegirnir hafi ekki nægilegt fjármagn til umráða, til þess að unnt sé að ráðast í þá fjármunamyndun, sem nauðsynleg er til bættrar framleiðslu. Endurskipulagning á íslenzkum skattareglum virðist vera nauðsynleg til þess í fyrsta lagi að gera fyrirtækjunum kleift að halda eftir sanngjörnum hluta af eigin tekjum til nauðsynlegra endurnýjana og aukninga og í öðru lagi að tryggja að: streymi nýs fjármagns til atvinnuveganna.“

Þetta voru ummæli hins sænska skattafræðings.

Af þessum og öðrum ástæðum er sú heildarendurskoðun, sem nú fer fram á íslenzkri skattalöggjöf, bráð nauðsyn og þarft verk. Þetta frv. er einn hluti þeirrar heildarlöggjafar, sem í smíðum er, og verður því fyrst og fremst að skoðast í ljósi þeirrar meginstefnu, sem sú löggjöf á að mótast af, en ekki að gagnrýnast sem einangrað fyrirbæri.

Það er alveg rétt, sem stjórnarandstaðan hefur haldið fram, að í þessu frv. eru nýir skattar. Það er sömuleiðis gamalkunn staðreynd, að skattborgararnir telja alla nýja skatta vonda skatta, en gamla skatta nokkuð lengi bærilega. Nú er hins vegar svo komið hér á landi, að mörgum finnast hinir gömlu skattar lítt bærilegir lengur, bæði sökum þunga þeirra og þess misréttis, er þeir skapa. Þótt í frv. þessu felist nýir skattar, þá ber þess að gæta, að þeir eru hvorki meiri né annarrar tegundar en áður hafa verið lagðir á og innheimtir af öðrum ríkisstj. og af ríkisstjórnum, sem einmitt andstöðuflokkar núv. ríkisstjórnar stóðu að. Það nýja í málinu er frekast það, að samtímis þessum nýju sköttum á að lækka aðra eldri skatta, þannig að skattþunginn aukist ekki á almenningi, heldur beint léttist að einhverju leyti, a.m.k. á láglaunafólkinu. Þessi löggjöf í heild kemur því fyrst og fremst til með að verða skattatilfærsla lágtekjufólkinu í hag. Nýjung er það og við þessi skattalög, að sveitarfélögum er þar séð fyrir nýjum tekjustofni.

1. þm. Austf. gat þess við 1. umr., að margir skattar hefðu verið reyndir á Íslandi á liðnum árum, enda má hann það gerst vita. Virðist hann og horfa til þess nokkrum öfundaraugum, að löggjafinn hafi nú eygt einhverja þá skattstofna, sem honum hefði á aldarfjórðungs skattlagningartímabili sézt yfir. Það má þó vera honum til huggunar, að sú öfund er vafalaust án ástæðu.

Gagnrýni stjórnarandstöðunnar í þessu máll hefur verið næsta fátæk að rökum. Hefur að vísu verið bent á ýmsa galla, sem eru á söluskatti, og það hefur líka verið bent á ókosti beinna skatta. Það getur vissulega verið stefna að vera á móti söluskatti, og það getur vissulega líka verið stefna að vera á móti tekjuskatti, en það getur a.m.k. ekki verið rökstudd eða heiðarleg stefna að vilja hvorki söluskatt né tekjuskatt og þó miklar opinberar framkvæmdir, eins og sumir stjórnarandstæðingar túlka málstað sinn.

Það má þó annar stjórnarandstöðuflokkurinn, Framsfl., eiga, að hann hefur fram til þessa átt stefnu í skattamálum, stefnu, sem hv. 1. þm. Austf. hefur stytzt og bezt orðað í bæklingi, sem hann eitt sinn gaf út og bar nafnið „Fjármál“. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Framsóknarmenn vilja háa beina skatta og verzlunargróða handa ríkinu.“

Um þessa stefnu ætla ég hér ekki að ræða. Framsóknarmenn hafa verið henni trúir og sjaldan brugðizt málstað hinna háu beinu skatta. Hins vegar er mér nær að halda, að almenningi í landinu sé ekkert sárt um, þó að nú verði horfið frá framkvæmd þessa boðskapar að sinni.

Stefna hins stjórnarandstöðuflokksins er í skattamálum töluvert óljósari og nokkuð mikið á reiki, eftir því hvort setíð er í stjórn eða ekki. T.d. er söluskattur alveg óbærilegur, þegar Sósfl. er utan stjórnar, en laus við að vera frágangssök, ef sami flokkur á sæti í þeirri stjórn, sem aflar sér tekna með söluskatti. Það skiptir að vísu ekki miklu máll fyrir okkur hér úti á Íslandi, hvernig þeir vísu feður í Sovét-Rússlandi skattleggja sína borgara, en af því að 3. þm. Reykv. var víð 1. umr. þessa frv. að fræða okkur á því og var ekki alls kostar nákvæmur í þeim útiistunum, ætla ég að skjóta hér inn í smáleiðréttingu í því máli. Þar sem ég veit, að 3. þm. Reykv. ber vægast sagt takmarkað traust til íslenzkra hagfræðinga og sérstaklega þó ungra íslenzkra hagfræðinga, aflaði ég mér bókar um þetta efni eftir rússneska hagfræðinga, sem vonandi eru líka gamlir hagfræðingar. Þessi bók ber nafnið „Politische Ökonomie, Lehrbuch“, samin á vegum Akademie der Wissenschaften der U.S.S.R., Institut für Ökonomie, og um þessa þýzku útgáfu hefur séð, eftir því sem titilblaðið upplýsir, Marx-Engels-Lenin-Stalin Institut, sem þýzki sósíalistíski einingarflokkurinn rekur, svo að heimildin ætti að vera að öllu pottþétt. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Tekna aflar ríkið sér með söluskatti, hreinum hagnaði af ríkisfyrirtækjum, gjöldum vegna almannatrygginga, tekjuskatti af samyrkjubúskap og samvinnufélögum o. Fl.

Þar í landi er því ekki aðeins söluskattur, heldur eru samvinnufélögin líka látin borga skatta rétt eins og aðrir. Og bókin góða heldur áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðaltekjur ríkisins í Rússlandi eru af tveim fyrstnefndu liðunum“ — m.ö.o. af söluskattinum og af gróða ríkiseinkasalanna.

Ríkið aflar sér í Rússlandi meiri hluta af tekjum sínum með þeim hætti, sem greint er frá í þessari bók, en til viðbótar eru svo nokkrir beinir skattar á einstaklinga. Um þá er dálítinn fróðleik að finna í öðru gagnmerku riti, sem einnig er gefið út af kommúnistum í Austur-Þýzkalandi og ber nafnið „Sovét-Union von A bis Z.“ Þar segir, að persónufrádráttur verkamanna og launþega sé 260 rúblur á mánuði. Tekjuskatturinn sé svo stighækkandi upp í 1000 rúblur, sem munu vera meðalembættismannslaun í því landi. „En úr því tekjurnar eru komnar upp í 1000 rúblur,“ segir bókin orðrétt, með leyfi hæstv. forseta, „er tekjuskatturinn óbreyttur án tillits til þess, hversu tekjurnar eru háar.“ Þannig er skattafyrirkomulagið í landi jafnaðarins, og þykir mönnum það hér í landi ójafnaðarins að sumu leyti dálítið furðulegt, þótt eitthvað megi e.t.v. af því læra.

Það er ekkert launungarmál, að á söluskatti eru bæði kostir og gallar, eins og á öðrum sköttum, og hefur stjórnarandstaðan í gagnrýni sinni á þessu frv. reynt að gera gallana sem ferlegasta í augum almennings, auk þess sem hún hefur gert sér grýlur þar, sem enginn fótur var fyrir þeim. Varðandi skattheimtuna er það rétt, að það er lagt á smásöluverzlunina í landinu mjög vanþakklátt verk. Þeir hafa mikið til síns máls, sem halda því fram, að einhver takmörk verði að vera fyrir því, hvað ríkið geti skyldað einstaklinga og stéttir til þess að vinna án þess að fá fyrir það endurgjald. Það gefur auga leið, að þessu nýja kerfi fylgir töluverð vinna fyrir þá, sem skattheimtuna eiga að annast, smásalana, — vinna, sem kemur til viðbótar ýmiss konar annarri skylduvinnu, sem ríkið hefur lagt á atvinnurekendur í landinu að inna af hendi og það án endurgjalds. Hér verður sannarlega einhvers staðar að staldra við, og sýnist ekki ósanngjarnt, þegar fullnaðarlöggjöf verður samin um þetta efni, að þá sé tekið til athugunar, að þeim, sem skattheimtuna annast, verði a.m.k. greidd fyrir það hæfileg þóknun.

Þá hefur það orðíð stjórnarandstæðingum mikið ásteytingarefni, að fjmrh. væri með frv. þessu afhent óhæfilega mikið vald, og hefur þar einkum verið vitnað til 25. gr. frv. Því er til að svara, að ef hér er um óhæfilega eða óeðlilega mikið vald að ræða, þá hefur Alþingi sjálft fyrir löngu afhent ráðh. sömu og jafnmikil völd í skattamálum, því um áratugi hefur fjmrh. haft slík völd samkv. tekjuskattslögunum.

En svo ljósir sem nokkrir gallar á kerfi söluskattsins kunna að vera, ættu kostirnir þó ekki siður að vera auðséðir, bæði frá sjónarhóli ríkis og þegna. Sú hliðin, sem að ríkinu snýr, er þessi: Söluskattar hafa löngum þótt stöðugri tekjustofn en tekjuskattur, verið taldir ódýrir í innheimtu og gefa fljótt tekjur í ríkissjóðinn. Fyrir einstaklinginn hefur söluskatturinn verið talinn hafa þann kost fram yfir tekjuskatt, að hann gerir mönnum jafnara undir höfði. Tekjuskattur gerir mönnum misjafnlega mögulegt að víkja sér undan skattgreiðslunni, sem söluskattur aftur á móti útilokar. Einnig hefur það verið talið nokkurs virði, að með söluskatti sé skattgjaldandanum veitt meira sjálfdæmi en við aðra skattlagningu. Þegar t.d. söluskattur leggst á lúxusvörur, verður skattgreiðandinn sjálfur að meta greiðslugetu sína, gera upp við sig, hvort hann vill greiða tiltekinn skatt til að eignast hlut eða lífsþægindi, sem hann þó gæti verið án.

Tryggve Bratteli, fjmrh. Noregs, svaraði mjög skemmtilega þeirri gagnrýni, sem söluskattskerfið hefur sætt, í erindi, er hann hélt hér í Reykjavík á fundi norræna þingmannasambandsins árið 1956. Hann benti á, að í Noregi væri 10% söluskattur, sem á sínum tíma hefði sætt töluverðri gagnrýni og verið kallaður skattur á hina fátæku. En hann upplýsti, að lífskjör manna hefðu batnað í Noregi frá þeim tíma, er skatturinn var upp tekinn, vöruvalið hefði aukizt og lífskjörin almennt orðið betri og jafnari en áður var. Hann bætir að vísu við, með leyfi hæstv. forseta:

„Af þessu leiðir að sjálfsögðu ekki, að hægt sé að halda því fram, að veltuskatturinn út af fyrir sig hafi stuðlað að því, að vöruúrval sé meira og betra, né heldur hinu, að hann út af fyrir sig hafi gert lífskjörin jafnari. Hitt er annað, að veituskatturinn hefur verið þáttur í framkvæmd stjórnarstefnu, sem leitt hefur til meira vöruúrvals og jafnari lífskjara.“

Og þannig er einmitt tilætlunin, að þessu verði einnig háttað hér á Íslandi.

Ég mun þá að lokum víkja fáeinum orðum að þeim brtt., sem n. flytur í heild og eru á þskj. 211.

Í 4. gr., II. kafla, er lagt til, að grein sé felld niður, sem óþörf er talin, og að ekki verði innheimtur söluskattur af sölu happdrættismiða eða af líftryggingu. Þar sem happdrætti eru oft aðal- og stundum eini tekjustofn félagasamtaka, sem vinna að margs konar mannúðar- og menningarstarfsemi í landinu, sem ríkið og bæjarfélög yrðu ella að standa straum af, þótti ekki forsvaranlegt að skattleggja þessa starfsemi. Varðandi líftryggingar er það sjónarmið nefndarinnar, að kaup á líftryggingu sé ein tegund sparifjármyndunar, og þar sem annað sparifé landsmanna er skattfrjálst að lögum, þótti ekki eðlilegt að skattleggja þessa sérstöku tegund sparifjár með söluskatti.

Þá eru lagðar til breyt. á 6. og 7. gr., II, kafla, og 17. gr., III. kafla, sem miða að því að láta flugvélaviðgerðir innanlands verða aðnjótandi svipaðrar aðstöðu og gert er ráð fyrir að skipaviðgerðir hafi samkv. frv. þessu og að stuðla að því, að sú starfsemi megi haldast áfram í landinu. Um þessi atriði þarf þó að kveða nánar á í reglugerð, m.a. afmarka skýrt, hvað til flugvélavarahluta teljist, svo að ekki verði um misnotkun á þessari undanþágu frá söluskatti að ræða.

Að þessum brtt. stendur fjhn. öll. Meiri hl. n. vill að þeim framgengnum mæla með því, að frv, verði samþykkt í heild.