27.04.1960
Sameinað þing: 43. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 334 í D-deild Alþingistíðinda. (2999)

117. mál, flugsamgöngur á Vestfjarðasvæðinu

Einar Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við þessa þáltill. á þskj. 279 um að leysa flugsamgöngur innanhéraðs á Vestfjörðum með þyrilvængju. Breytingarnar eru ekki aðrar en þær, sem leiðir af því, að þetta nái einnig til Austurlands.

Þegar ferðazt er um Austurland, fer ekki hjá því, að maður brjóti heilann um þá erfiðleika, sem eru hjá íbúum Austfjarða á að komast þar á milli staða, bæði vegna slæmra vega og hinna miklu fjarlægða. Íbúar Vopnafjarðar þurfa t.d. að fara alla leið upp á Möðrudalsöræfi til þess að komast niður á Egilsstaði. Einnig er mjög langt að fara hjá þeim, sem búa í Breiðdalnum og einnig á Fáskrúðsfirði, til að komast að eða frá flugvellinum á Egilsstöðum. En þegar sunnar dregur, fara að verða áhöld um, hvort ekki sé betra að fara til Hornafjarðar.

Sérstaklega er þetta erfitt að vetrarlagi, þegar vegir eru lokaðir, því að þarna eru mjög víða erfiðir fjallvegir, og er þetta ekki sízt bagalegt, þegar t.d. þarf að koma sjúklingum skyndilega til læknis. Í brtt. minni er því lagt til, að þessir fyrirhuguðu flutningar um Austurland á þyrilvængju verði einnig látnir ná til sjúkraflugs. Sjúkrahúsmál eru víða mikil vandamál og ekki sízt á Austurlandi. Þar er komið eitt myndarlegt sjúkrahús, sem er fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað, en það er skiljanlega miklum erfiðleikum bundið að komast á það vegna hinna miklu vegalengda og erfiðu samgangna. Frá ýmsum stöðum getur því stundum verið auðveldara að komast til Reykjavíkur en miklu skemmri leið til Norðfjarðar. Það mundi verða dýrt fyrir hið opinbera að byggja sæmilega fullkomin sjúkrahús á hinum ýmsu stöðum, og ég gæti haldið, að leysa ætti það mál með því að hafa aðeins sjúkraskýli, þar sem unnt væri að taka nokkra sjúklinga, en treysta svo á, að hægt væri að flytja þá, sem þess þyrftu, einmitt með þyrilvængju annaðhvort til Neskaupstaðar eða til flugvallarins á Egilsstöðum, þaðan sem þeir yrðu þá aftur fluttir til Reykjavíkur. Auðvitað ætti hið sama við hvað Vestfirðina snertir.

Það er mjög mikilvægt í strjálbýlinu, að póstsamgöngur séu góðar, en það er nú svo, að blöð og póstur berst víða mjög seint, t.d. á Austfjörðum. Algengt er, að það sé vikugamalt, þegar fólkið fær það, blöðin og pósturinn, og er þetta náttúrlega mjög bagalegt. Úr þessu mundi mjög vera bætt einmitt með starfrækslu þyrilvængju. Það er mjög eðlilegt, að hið opinbera reyni að bæta úr þeim aðstöðumun, sem er á að búa í dreifbýlinu eða í þéttbýlinu, og þetta væri einmitt spor í þá átt að jafna þennan aðstöðumun. Það er auðvitað ekki aðeins á þessu sviði, það er á svo mörgum sviðum aðstöðumunur og ekki kannske sízt í sambandi við vegamálin, sem maður heyrir hér að er eitthvert allra mesta áhugamál hv. þm, að jafna, Það má líka benda á, að yrði þyrilvængja starfrækt á Egilsstöðum, mundi Norðausturland einnig njóta góðs af henni, en eins og kunnugt er, er um mjög langan veg að sækja fyrir þá, sem búa á Norðausturlandi, til Akureyrar til þess að komast þar á flugvöll.

Þyrilvængjur eru mjög algengar erlendis, þó að þær séu ekki þekktar hér nema kannske eitthvað hjá hernum, og mér þætti ekki ótrúlegt, að þyrilvængjur yrðu almennur farkostur hér á landi, þegar fram líða stundir, þar sem er strjálbýlt. Ég vona því, að hv. þm. ljái þessu máli fylgi sitt og afgreiði þessa till., áður en þingi lýkur, til þess að þessi athugun megi fara sem allra fyrst fram.