20.11.1959
Sameinað þing: 1. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 8 í B-deild Alþingistíðinda. (3)

Stjórnarskipti

( Ólafur Thors ):

Herra forseti.

Forseti Íslands hefur í dag gefið út svo hljóðandi forsetaúrskurð:

„Forseti Íslands gerir kunnugt:

Eftir tillögu forsrh. og samkvæmt 15. gr. stjórnarskrárinnar eru hér með sett eftirfarandi ákvæði um skipun og skipting starfa ráðherra o.fl.:

1) Forsætisráðherra Ólafur Thors. Undir hann heyra eftirgreind mál: Stjórnarskráin, mál, er varða forsetaembættið, Alþingi, nema að því leyti sem öðruvísi er ákveðið, almenn ákvæði um framkvæmdastjórn ríkisins, skipun ráðherra og lausn, forsæti ráðuneytisins, skipting starfa ráðherranna, mál, er varða stjórnarráðið í heild, hin íslenzka fálkaorða og önnur heiðursmerki, Þingvallanefnd og mál varðandi meðferð Þingvalla. Ríkisbúið að Bessastöðum. Athuganir á efnahagsmálum í umboði ríkisstj. allrar.

2) Ráðherra Bjarni Benediktsson. Undir hann heyrir dómaskipan, dómsmál, þar undir framkvæmd refsidóma, hegningar- og fangahús, tillögur um náðun, veiting réttarfarslegra leyfisbréfa, málflutningsmenn, lögreglumálefni, þ. á m. gæzla landhelginnar og löggjöf um verndun fiskimiða landgrunnsins, áfengismál, strandmál, sifjaréttarmál, erfðaréttarmál, persónuréttarmál, eignarréttarmál, yfirfjárráðamál, lög um kosningar til Alþingis og kjördæmaskipting, umsjón með framkvæmd alþingiskosninga, ríkisborgararéttur, útgáfa Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs, húsameistari ríkisins, Ríkisprentsmiðjan Gutenberg. Kirkjumál. Heilbrigðismál, þar undir sjúkrahús og heilsuhæli. Iðju- og iðnaðarmál, þar undir Iðnaðarbankinn, Iðnaðarmálastofnun Íslands, útflutningur iðnaðarvara. Sementsverksmiðja ríkisins, Landssmiðjan, iðnfélög, öryggiseftirlit. Einkaleyfl.

3) Ráðherra Emil Jónsson. Undir hann heyra sjávarútvegsmál, nema að því leyti sem öðruvísi er ákveðið, þar undir Fiskifélagið, fiskimálasjóður og fiskveiðasjóður íslands, síldarútvegsmál (síldarverksmiðjur og síldarútvegsnefnd), sjávarvöruiðnaður og útflutningur sjávarafurða. Vita- og hafnamál, strandferðir. Almenn siglingamál, þar undir atvinna við siglingar. Skipaskoðun ríkisins, Eimskipafélag Íslands h/f. Félagsmál, almannatryggingar, atvinnubótamál, atvinnuleysistryggingar, Brunabótafélag Íslands, vinnudeilur, sveitastjórnarog framfærslumál, nema að því leyti sem öðruvísi er ákveðið. Barnaheimili. Félagsdómur. Almenn styrktarstarfsemi, þar undir styrkveitingar til berklasjúklinga og annarra sjúklinga, sem haldnir eru langvinnum sjúkdómum, sjúkrasjóðir, ellistyrktarsjóðir, öryrkjasjóðir, slysatryggingasjóðir, lífsábyrgðarsjóðir og aðrir tryggingasjóðir. Húsnæðismál, þar undir byggingarfélög. Mælitækja- og vogaráhaldamál. Veðurstofan.

4) Ráðherra Guðmundur Í. Guðmundsson. Undir hann heyra utanríkismál, framkvæmd varnarsamningsins, þ. á m. lögreglumál, dómsmál, tollamál, póst- og símamál, flugmál, radarstöðvarnar, heilbrigðismál, félagsmál og önnur þau mál, er leiðir af dvöl hins erlenda varnarliðs í landinu. Gildir þetta um varnarsvæðin og mörk þeirra.

5) Ráðherra Gunnar Thoroddsen. Undir hann heyra fjármál ríkisins, þar undir skattamál, tollamál og önnur mál, er varða tekjur ríkissjóðs, svo sem ef verzlun er rekin til að afla ríkissjóði tekna, undirskrift ríkisskuldabréfa, fjárlög, fjáraukalög og reikningsskil ríkissjóðs, hin umboðslega endurskoðun, embættisveð. Eftirlit með innheimtumönnum ríkisins, laun embættismanna, eftirlaun, lífeyrir embættismanna og ekkna þeirra, peningamál, þar undir peningaslátta. Yfirleitt fer þessi ráðherra með öll þau mál, er varða fjárhag ríkisins eða landsins í heild, nema þau eftir eðli sínu eða sérstöku ákvæði heyri undir annan ráðherra. Hagskýrslugerð ríkisins. Almannaskráning. Framkvæmdabanki Íslands. Tekjustofnar sveitar- og bæjarfélaga og gjaldskrár þeirra. Mæling og skrásetning skipa.

6) Ráðherra dr. Gylfi Þ. Gíslason. Undir hann heyra menntamál, þar undir skólar, sem ekki eru sérstaklega undanteknir, útvarpsmál og viðtækjaverzlun. Menntamálaráð Íslands, þjóðleikhús og önnur leiklistarmál, tónlistarmál, kvikmyndamál, söfn og aðrar menningarstofnanir, sem reknar eru eða styrktar af ríkinu. Atvinnudeild háskólans. Rannsóknaráð ríkisins. Önnur mál, er varða vísindi og listir.

Barnaverndarmál. Skemmtanaskattur. Félagsheimilasjóður. Íþróttamál. Bókasöfn og lestrarfélög. Iðnaðarnám. Viðskiptamál, þar undir innflutningsverzlun, gjaldeyrismál og verðlagsmál. Bankamál, að svo miklu leyti sem einstakir bankar eru ekki undanteknir. Efnahagssamvinnan (OEEC), alþjóðafjármálastofnanir og erlend tækniaðstoð. Innkaupastofnun ríkisins. Ferðaskrifstofa ríkisins.

7) Ráðherra Ingólfur Jónsson. Undir hann heyra landbúnaðarmál, þ. á m. útflutningur landbúnaðarafurða, ræktunarmál, þ. á m. skógræktarmál og sandgræðslumál, búnaðarfélög, búnaðarskólar, þjóðjarðamál. Búnaðarbanki Íslands. Áburðarverksmiðjan h/f. Vega- og brúamál. Flugmál, þ. á m. flugvallarekstur. Póst-, síma- og loftskeytamál. Kaupfélög og samvinnufélög. Rafmagnsmál, þ. á m. rafmagnsveitur ríkisins og rafmagnseftirlit, vatnamál, þar undir sérleyfi til vatnsorkunotkunar, jarðboranir eftir heitu vatni og gufu. Námurekstur.

Ráðherrafundi skal halda um nýmæli í lögum og mikilvæg stjórnarmálefni. Svo skal og ráðherrafundi halda, ef einhver ráðherra æskir að bera þar upp mál.

Með úrskurði þessum er úr gildi felldur forsetaúrskurður frá 23. desember 1958, um skipun og skipting starfa ráðherra o.fl.

Gert í Reykjavík, 20. nóvember 1959.

Ásgeir Ásgeirsson.

Ólafur Thors.

Forsetaúrskurður um skipun og skipting starfa ráðherra o.fl.“

Herra forseti. Þá vil ég leyfa mér að gefa svo hljóðandi yfirlýsingu af hálfu stjórnarinnar:

Að undanförnu hafa sérfræðingar unnið að ýtarlegri rannsókn á efnahagsmálum þjóðarinnar. Skjótlega eftir að þeirri rannsókn er lokið, mun ríkisstj. leggja fyrir Alþ. tillögur um lögfestingu þeirra úrræða, er hún telur þörf á. Athuganir hafa þó þegar leitt í ljós, að þjóðin hefur um langt skeið lifað um efni fram, að hættulega mikill halli hefur verið á viðskiptum þjóðarinnar við útlönd, tekin hafa verið lán erlendis til að greiða þennan halla og að erlend lán til stutts tíma eru orðin hærri en heilbrigt verður talið. Munu tillögur ríkisstj. miðast við að ráðast að þessum kjarna vandamálanna, þar eð það er meginstefna ríkisstjórnarinnar að vinna að því, að efnahagslíf þjóðarinnar komist á traustan og heilbrigðan grundvöli, þannig að skilyrði skapist fyrir sem örastri framleiðsluaukningu, allir hafi áfram stöðuga atvinnu og lífskjör þjóðarinnar geti í framtíðinni enn farið batnandi. Í því sambandi leggur ríkisstj. áherzlu á, að kapphlaup hefjist ekki á nýjan leik milli verðlags og kaupgjalds og að þannig sé haldið á efnahagsmálum þjóðarinnar, að ekki leiði til verðbólgu.

Til þess að tryggja, að þær heildarráðstafanir, sem gera þarf, verði sem réttlátastar gagnvart öllum almenningi, hefur ríkisstjórnin ákveðið:

1) að hækka verulega bætur almannatrygginganna einkum fjölskyldubætur, ellilífeyri og örorkulífeyri,

2) að afla aukins lánsfjár til íbúðabygginga almennings,

3) að koma lánasjóðum atvinnuveganna á traustan grundvöll,

4) að endurskoða skattakerfið með það fyrir augum fyrst og fremst að afnema tekjuskatt á almennar launatekjur.

Varðandi verðlag landbúnaðarafurða mun reynt að fá aðila til að semja sín á milli um málið. Ella verður skipuð nefnd sérfræðinga og óhlutdrægra manna, er ráði fram úr því.

Ríkisstj. mun taka upp samningu þjóðhagsáætlana, er verði leiðarvísir stjórnarvalda og banka um markvíssa stefnu í efnahagsmá]um þjóðarinnar, beita sér fyrir áframhaldandi uppbyggingu atvinnuveganna um land allt og undirbúa nýjar framkvæmdir til hagnýtingar á náttúruauðlindum landsins.

Þá þykir ríkisstj. rétt að taka fram, að stefna hennar í landhelgismálinu er óbreytt, eins og hún kemur fram í samþykkt Alþingis hinn 5. maí 1959.