27.04.1960
Sameinað þing: 43. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 336 í D-deild Alþingistíðinda. (3003)

119. mál, hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag í atvinnurekstri Íslendinga

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Eitt mest aðkallandi verkefni á sviði efnahagsmála er að finna leið til þess að sætta vinnu og fjármagn. Till. þessi fjallar um eina þessara hugsanlegu leiða. Í henni er lagt til, að ríkisstj. verði falið að láta rannsaka og gera till. um, hvað og hvernig megi bezt koma á hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulagi í atvinnurekstri Íslendinga og á hvern hátt þing og stjórn geti stuðlað að eflingu slíks fyrirkomulags. Skal ríkisstj. hafa samráð við fulltrúa frá samtökum atvinnurekenda og launþega um þetta undirbúningsstarf, er skal lokið eins fljótt og möguleikar eru á.

Mál þetta hefur verið flutt alloft á undanförnum árum, en eigi náð afgreiðslu á hv. Alþingi. Ég tel því ekki bera þörf til þess að ræða það ýtarlega, vil aðeins minna á það, að aðalatriði og grundvallarsetningar þessa fyrirkomulags eru í fyrsta lagi, að verkamennirnir fái auk sinna föstu launa einhvern hluta í arði fyrirtækjanna, í öðru lagi, að þeim gefist kostur á að safna arðhluta sínum eða einhverjum hluta hans til þess með honum að eignast hluta í atvinnufyrirtækjunum, í þriðja lagi, að þeir fái hlutdeild í stjórn fyrirtækjanna, annaðhvort með því að eignast hlutafé og verða á þann hátt aðnjótandi réttinda venjulegra hluthafa eða með því, að nefnd verkamanna hvers fyrirtækis hafi íhlutun um rekstur þess. Þetta eru þær grundvallarsetningar, sem sérstaklega hefur verið byggt á í þessu efni.

Aðra leið, sem til greina hefur komið og sums staðar annars staðar hefur verið farin, vil ég aðeins nefna. Það eru hin svokölluðu opnu hlutafélög, og má raunar segja, að þau séu okkur Íslendingum ekki með öllu ókunnug, þar sem við fyrir 35 eða 36 árum stofnuðum einmitt slíkt hlutafélag með almennri þátttöku þjóðarinnar, þ.e.a.s. Eimskipafélag Íslands, sem þúsundir af landsmönnum byggðu upp, hver með sínu litla framlagi.

Ég hygg, að reynslan af þessu eina verulega stóra opna hlutafélagi hér á landi, Eimskipafélagi Íslands, hafi sannað það, að hér sé um mjög athyglisverða leið að ræða, en hvort tveggja þetta fyrirkomulag, hlutdeildar- og arðskiptifyrirkomulag annars vegar og opin hlutafélög hins vegar, hefur verið reynt víða um lönd og gefizt mjög vel og er talið vera merkilegt spor í þá átt að sætta vinnu og fjármagn. Má í því sambandi nefna, að þetta fyrirkomulag er mjög algengt í Vestur-Þýzkalandi, Bretlandi, Ástralíu og Bandaríkjunum.

Ég hygg, að okkur Íslendingum beri brýna nauðsyn til þess að reyna einhverjar nýjar leiðir í þessum efnum. Við vitum, að hér hafa átt sér stað mikil og óheillavænleg átök milli verkalýðs og vinnuveitenda á undanförnum áratugum, og það á áreiðanlega sinn ríka þátt í þeim vandkvæðum á sviði efnahagsmála, sem þessi þjóð stendur nú frammi fyrir.

Að svo mæltu leyfi ég mér að vænta þess, að þetta mál fái nú skjóta og góða afgreiðslu hér á hv. Alþingi, og legg til, herra forseti, að umræðunni verði frestað og málinu vísað til hv. allshn.