27.04.1960
Sameinað þing: 43. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 341 í D-deild Alþingistíðinda. (3016)

130. mál, strandferðaskip fyrir Vestfirði

Flm. (Bjarni Guðbjörnsson):

Herra forseti. Till. til þál. um sérstakt skip til strandferða milli Vestfjarða og Reykjavíkur þarfnast ekki mikilla skýringa. Strandferðaskipin Hekla og Esja hafa að mestu annazt þessar ferðir. Hefur verið oftast nær um hringferðir að ræða, annað skipið farið austur um og hitt vestur. Skipin hafa þá venjulega mætzt á Vestfjörðum og oftast á Ísafirði á sama sólarhringnum. Hefur að þessum ferðum verið nokkurt óhagræði íbúanna, sérstaklega á syðri fjörðum Vestfjarða, sem erindi hafa átt til Ísafjarðar, þannig að ef þeir hafa farið með skipinu norður, þá hafa þeir venjulega orðið að bíða dögum saman til þess að komast suður aftur. Þar sem svo háttar eins og á Vestfjörðum um samgöngur á landi, að þær liggja niðri nema um hásumarið, veldur þetta allmiklu óhagræði, auk þess sem ferðir frá Reykjavík sjóleiðis hafa oftlega verið mjög strjálar, og er þess skemmst að minnast, að nú í vetur hefur keyrt alveg um þverbak með allar samgöngur á sjó við Vestfirði, og það er vegna þess, að annað skipið, Esjan, var tekið úr áætlun vegna flokkunarviðgerðar, En það sama hendir raunar á sumrin, þegar Hekla er tekin í Norðurlandaferðirnar út úr áætlun.

Með vaxandi kröfum íbúanna á Vestfjörðum um bættar samgöngur verður ekki komizt hjá því að taka til endurskoðunar, hvort ekki sé unnt að bæta samgöngur á sjó við Vestfirði á þann hátt, sem hér er bent á, að sérstakt skip verði byggt í þessu skyni. Kæmi þá mjög til álita, hvort ekki mætti selja eitthvert af þeim gömlu skipum, sem skipaútgerðin nú hefur yfir að ráða, því að ekkert þeirra mundi þá í rauninni henta þeim ferðum, sem hér væri stefnt að að yrðu hafnar. Skjaldbreið, sem annazt hefur ferðir til Húnaflóahafna, hefur ekki farþegarými, sem mundi hæfa í Vestfjarðaferðunum. Það eru aðeins 12 farþegar, sem geta farið með því skipi. Esja og Hekla eru aftur á móti stærri en slíkt skip mundi væntanlega verða. Það er ekki gott að segja, en mér þætti trúlegt, að skip, sem hentaði í þessar ferðir, ætti að rúma um 50 farþega, en þó með möguleikum til þess að auka svefnrými í sölum.

Íbúar Vestfjarða allra munu vera um 11 þús. talsins, bæði til sjávar og sveita. Að vísu mundi nokkur hluti þeirra ekki nota slíkan farkost, en þó má ætla, að skip, sem mundi verða byggt í þessar ferðir, mundi hafa nægu verkefni að sinna. Sú reynsla, sem þegar hefur fengizt, t.d. af Vestmannaeyjaskipinu, mun nú þegar hafa gefið mun betri raun en bjartsýnustu menn þorðu að vona, bæði hvað fjárhagsafkomu snertir og flutningamagn eða vörumagn. Auk þess má segja, að það sé bókstaflega allt annað líf, þegar um öruggar ferðir er að ræða með ákveðinna daga millibili. Þetta er sagt hér, alveg án þess að gera lítið úr því, að flugsamgöngur hljóta að verða eftir sem áður við Vestfirði, sem auðvitað eru bæði nauðsynlegar og sjálfsagðar. Ég hef ekki í höndum tölur um farþegafjölda til Vestfjarða í heild með skipum Ríkisskips og ekki heldur um heildarmagn vöruflutninga til allra Vestfjarða, en á s.l. ári flutti Ríkisskip rúm 2 þús. tonn af vörum beint til Ísafjarðar auk annarra hafna á Vestfjörðum. og Særún, sem hefur haft sem næst vikulegar ferðir milli Reykjavíkur og Ísafjarðar, mun hafa flutt a.m.k. sama magn, ef ekki heldur meira.

Með vaxandi samgöngum og viðskiptum innbyrðis á Vestfjörðum verður þörfin brýnni fyrir slíkar ferðir milli Reykjavíkur og Vestfjarða, ferðir, sem einnig yrði þá hagað svo, að full not yrðu að milli fjarða á Vestfjörðum. Á Ísafirði mun myndast og hefur þegar myndazt viðskipta- og menningarmiðstöð Vestfjarða. Þangað munu menn þurfa að sækja fjölmargt og í vaxandi mæli, eftir því sem tímar líða, og verður því ókleift að sinna öllum þeim verkefnum með þeim samgöngum, eins og þeim er nú háttað.

Um það, hvort kostnaður yrði meiri af því, að lagt yrði í að byggja nýtt skip, eins og hér er bent á, eða áfram yrði haldið með gamla laginu, skal ég ekkert fullyrða, en ég hef þá trú, að hið sama mundi verða upp á teningnum með þetta skip sem Vestmannaeyjaskipið, að afkoma þess muni verða miklu betri fjárhagslega en bjartsýnustu menn þora að vona nú.

Sú leið, sem hér er bent á, virðist vera þannig, að unnt ætti að vera að fara hana til þess að bæta samgöngur þeirra byggðarlaga, sem einna lakastar hafa samgöngur hér á landi.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, að þessari till. verði vísað til hv. fjvn.