24.05.1960
Sameinað þing: 53. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í D-deild Alþingistíðinda. (3039)

146. mál, veiðitími og netjanotkun fiskiskipa

Flm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Till. sú til þál. á þskj. 371, sem hér er til umr., hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga, hvort ekki sé nauðsynlegt, að sett verði lög um takmörkun á veiðitíma og veiðarfæranotkun þeirra skipa, er fiskveiðar stunda með netjum. Að þeirri athugun lokinni verði undirbúin lagasetning um slíkar takmarkanir, og verði frv. um það efni lagt fyrir næsta reglulegt Alþ.“

Framleiðsla og útflutningur sjávarafurða er svo mikilvægur þáttur í þjóðarbúskap okkar, að oft er vitnað til þess, að hér á landi mundi ekki vera hægt að lifa nútíma menningarlífi, ef sjávarafurðirnar stæðu ekki undir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar, eins og þær gera. Sú staðreynd, að 98% af útflutningi okkar eru dregin úr greipum Ægis, er orðin kunn víða um heim, og mun það vera einsdæmi, að nokkur þjóð byggi afkomu sína svo einhliða á sjávarfangi. Það er þess vegna mikilvægara fyrir okkur en flest annað, að við höfum örugga markaði fyrir fiskafurðir og að við fáum gott verð fyrir afurðirnar. Eitt bezta ráðið til þess að tryggja hvort tveggja er vöruvöndun og aftur vöruvöndun frá fyrstu hendi til hinnar síðustu, sem að framleiðslunni vinnur.

Við skulum í þessu sambandi gera okkur ljóst, að við eigum hættulega keppinauta á mörkuðunum, og eftir því sem framboð eykst, reynir meira á vörugæðin. Við höfum betri aðstöðu en flestar aðrar fiskveiðiþjóðir til að framleiða fyrsta flokks vöru vegna þess, hversu mikið af aflanum við sækjum á heimamiðin umhverfis landið, en sú hætta vofir yfir, að í þessu efni fari keppinautar okkar um markaðina fram úr okkur, þegar þeir hafa komið sér upp heilum flotum af úthafstogurum, sem hraðfrysta aflann glænýjan úti á miðunum, auk þess sem þeir gera aðrar róttækar ráðstafanir til að bæta söluvörur sínar.

Við megum þess vegna ekki vera andvaralausir í þessu efni. Það er ekki nóg, að við getum sagt, að við séum mesta fiskveiðiþjóð í heimi að tiltölu við fólksfjölda, heldur eigum við líka að setja stolt okkar í það að verða sú þjóð heimsins, sem framleiðir beztan fisk.

Þáltill. á þskj. 371 er fram borin vegna þess, „að almennt er talið, að meðalgæðum framleiðsluvaranna hafi í mörgum greinum hrakað undanfarin ár“, eins og komizt er að orði í grg. með frv. til laga um ferskfiskmat, sem nú liggur fyrir hv. Alþ., og er þessi afturför í vöruvöndun einkum rakin til þess fisks, sem veiðist í net. En hin síðari ár hefur netjaúthaldið stöðugt verið að lengjast á kostnað línuveiðanna, eins og vikið er að í grg. með þáltill. Þetta hefur þá höfuðbreytingu í för með sér. að í stað þess að línuaflinn er færður í land til vinnslu daglega, þá er netjafiskurinn oft 2 til 4 nátta, sjódauður fiskur, sem engin skilyrði hefur til þess að verða að góðri vöru, en spillir aftur á móti þeim hluta netjaaflans, sem gæti orðið góð vara, þ.e.a.s. þeim fiski, sem síðast kemur í netin, áður en þau eru dregin, því að alltaf vill blandast saman í bátunum nýjasti aflinn og sá elzti, þegar um margra nátta fisk er að ræða.

Í grg. með frv. til 1. um ferskfiskmat, sem ég vék að áðan, er á það bent, að nauðsyn beri til að skapa línuútgerð betri skilyrði, þannig að hún verði samkeppnisfærari við netjaveiðarnar en nú. Bendir nefndin, sem samið hefur þessa grg., m.a. á það, að athugandi sé að aflétta róðrarbanni á sunnudögum, sem nú nær til línuveiða, en ekki til netjaveiða. Einnig er bent á, að til greina komi að friða ákveðin svæði fyrir netjaveiðum og láta línubáta eina hafa aðgang að þeim svæðum.

Ég hygg, að síðara atriðið sé orðið aðkallandi, því að netjaslagurinn á vertíðinni er orðinn svo mikill, að erfitt er fyrir línubátana að koma veiðarfærum sínum í sjó.

Hitt atriðið, að upphefja róðrabann línubáta á sunnudögum, tel ég aftur á móti vafasamara. Slíkt mundi að vísu jafna nokkuð samkeppnisaðstöðu línuútgerðar gagnvart netjaveiðunum og þannig óbeint stuðla að vöruvöndun með því að auka hluta línuaflans í heildaraflanum, en að öðru leyti hefði sú ráðstöfun ekki áhrif til bóta á vörugæðin. Auk þess er það að athuga, að róðrabannið á línuveiðum á sunnudögum er víðast hvar bundið í kjarasamningum.

Áhrifaríkasta leiðin til þess að ná skjótum og góðum árangri í þessu efni er sú að fá settar reglur um takmörkun á veiðitíma og veiðarfæranotkun þeirra skipa, sem fiskveiðar stunda með netjum. Þær reglur ættu m.a. að ná yfir eftir farandi atriði:

1. Hvenær leyfilegt sé að hefja netjaveiðar á aðalvertíðinni. Er í grg. með till. bent á 15. marz eða 15. apríl, og mun síðari dagsetningin tryggja hrygningarfiskinum meiri grið, en verði horfið að því að miða við 15. marz, ætti jafnframt að friða aðalhrygningarsvæðin yfir hrygningartímann. Það háttalag að veiða hrygningarfiskinn í netin jafngegndarlaust og gert er er jafnvel skaðlegra en dragnótin og botnvarpan fyrir fiskstofnana, og hefur því stundum verið jafnað til þess, að bændur tækju upp þann ósið að slátra sauðkindum um meðgöngutímann.

2. Netjafjöldinn, sem hver bátur leggur í sjó, má ekki vera meiri en svo, að áhafnirnar komist yfir að draga netin daglega. Telja kunnugir, að hæfilegur netjafjöldi sé 5 trossur á bát, og er þá reiknað með 15 netjum í trossu, eða alls 75 net. Nú mun vera algengt, að höfð séu allt að 20 net í trossu, og dæmi munu vera til um það, að einstakir bátar hafi allt að 10 trossur undir í einu. Við beztu skilyrði er ekki hægt að draga slíkan netjasæg daglega, og verður veiðin þess vegna óhjákvæmilega margra nátta sjódauður fiskur. Á þessu er hægt að gera verulegar breytingar til bóta með því að setja reglur um hæfilegan netjafjölda hvers skips.

3. Takmarka þarf sem mest þann tíma, sem leyfilegt er að láta netin liggja í sjó, og banna þarf alveg að láta þau liggja yfir helgidaga, eins og tíðkazt hefur. Róttækasta ráðstöfunin í þessu efni, ef framkvæmanleg reyndist, væri sú að taka upp þá reglu, að skipin lægju yfir netjunum og drægju þau daglega, eins og nú á sér stað um línuna. Ef það væri gert, mundi gæðamunur á línufiski og netjafiski minnka stórlega, og enn fremur mundi draga úr veiðarfæratjóni við það, að netin væru þá aldrei yfirgefin eins og hvert annað rekald á sjónum.

4. Gera á meiri verðmismun á fiski eftir gæðum en nú á sér stað, þannig að þeir, sem sízt vanda sína vöru, finni fyrir því, að slíkt borgar sig ekki. Þetta á ekki einungis við um netjafisk, heldur allan fisk, hvernig sem hann er veiddur,

Ég er þeirrar skoðunar, að nauðsynlegt sé að gera ráðstafanir í þá átt, sem ég hef drepið hér á að framan. Aðrir geta e.t.v. bent á betri leiðir, en engum getur blandazt hugur um, að aðgerða sé þörf, og skiptir því mestu máli, að hafizt sé handa til úrbóta. Að því er stefnt með því að bera umrædda þáltill. fram hér á hæstv. Alþ. Þjóðarbúið getur beðið stórfellt tjón, ef ekkert raunhæft er gert til að hindra þá óheillaþróun, að framleiðsluvörum okkar fari hrakandi að gæðum. Ástandið er orðið svo alvarlegt, að nauðsyn hefur verið talin til bera að setja lög um mat á ferskfiski, og bendir allt til þess, að frv. til l. um það efni verði afgreitt án verulegs ágreinings af þessu þingi, og meiri áróður hefur verið hafður í frammi á nýliðnum vetri fyrir vöruvöndun í útflutningsframleiðslunni en oft áður. Þetta hvort tveggja er gott og gagnlegt, svo langt sem það nær, en hvorugt nægir þó til að fyrirbyggja eyðileggingu fisksins í netjunum. Till. miðar að því að leysa þann vanda, og ef vel tekst til, getur svo farið, að gæðamunur milli netjafisks og línufisks verði stórum minni en nú er, og mundi það vera miklu jákvæðari árangur en hægt er að ná með ferskfiskmatinu einu, án þess að ég vilji á nokkurn hátt vefengja gagnsemi þess,

Í þáltill. er ekki gert ráð fyrir sérstakri nefndarskipun til að undirbúa þetta mál, þó að oft hafi verið skipuð nefnd af minna tilefni, heldur er á það bent, að verði frv. um ferskfiskmat samþ., þá mætti fela fiskmatsráði nauðsynlegan undirbúning í samráði við Fiskifélag Íslands og samtök útvegsmanna og sjómanna.

Ég vil bæta því við, að ef fiskmatsráði tækist að leysa þann vanda, sem þáltill. fjallar um, þá mundi sú niðurstaða stuðla betur að aukinni vöruvöndun en flest annað, sem ráðinu er ætlað að gera.

Ég legg svo til, herra forseti. að umr. um till. verði frestað, en málinu vísað til hv. allshn.