19.03.1960
Neðri deild: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

88. mál, söluskattur

Einar Sigurðsson:

Ég skal aðeins víkja fáeinum orðum að hv. 4. þm. Reykn. (JSk), síðasta ræðumanni hér, þar sem hann minntist á mig og afstöðu mína til skattamálanna og á, að Sjálfstfl. ætti mikinn þátt í þeim sköttum, sem nú væru. Ég vil segja það í þessu sambandi, að það er langt frá því, að ég álíti Sjálfstfl. nokkurn engil í skattamálum undanfarið. Hann átti þátt í því að leggja á fyrri stóreignaskattinn, og hann hefur fylgt hinum flokkunum í því að leggja á þunga skatta. En honum til afsökunar má segja, að hann hefur unnið með mönnum, sem hafa haft mjög slæmt hugarfar í skattamálum, og ég fullvissa hv. 4. þm. Reykn. um það, að ef hann hefði ekki oft og einatt þurft að taka upp samninga við þessa menn einmitt í skattamálum, þá væri þessum málum ekki jafnilla komið á Íslandi og raun ber vitni undanfarin ár, þó að nú sjái fyrir nokkurn bata.

Hann gerði mér þann heiður, hv. 4. þm. Reykn., að titla míg hér sem ríkasta mann landsins. Meðframþjóðandi minn á Austurlandi, hv. 4. þm. Austf. (LJós), gerði mér þann greiða og heiður að koma þessu á framfæri í Þjóðviljanum, og síðan hefur það gengið aftur í Þjóðviljanum og Tímanum á víxl, og nú er hv. 4. þm. Reykn. kominn með það inn í Alþingi. Það var sú tíð, að gaman þótti að vera ríkasti maður landsins eða vera ríkur, og því var iðulega skeytt við nafn manna hér áður fyrr, eins og Guðmundur ríki. En ræða eins og hjá hv. 4, þm. Reykn. og það, sem Þjóðviljinn og Tíminn hafa verið að segja í sambandi við þetta, lýsir vel hugarfari þeirra til eignarréttarins og borgaralegs þjóðfélags. Þeir eru að reyna að gera það að skammaryrði að vera ríkur. Það ætti þó að bera vott um, að sá maður, sem hefði komizt í álnir, kynni þó kannske að fara með fjármuni. Ég er ekki að segja, að ég kunni það, síður en svo. Og ég verð kannske að rifa það niður á eftir. En það er eins og sá, sem ekkert getur festst við, sé virðingarverðastur í þessu kommúnistíska hugarfari, sem birtist hjá þessum hv. 4. þm. Reykn. og kommúnistum í Þjóðviljanum.

Það var svo með þennan stóreignaskatt, sem hv. 4. þm. Reykn. byggir þessar fullyrðingar sinar á, að þar hefur ekki staðið steinn yfir steini. Því hefur verið svo gersamlega kollvarpað, að annað eins hefur ekki átt sér stað um nokkra lagasetningu á Íslandi. Þeim tókst í skattanefnd á sínum tíma að koma mér upp fyrir alla með stóreignaskattinn, — ég held það hafi verið á 5. millj., — en það voru falskar tölur. Það hrundi. Það hrundi að vísu ekki alveg til grunna, en það hrundi þó það, að skatturinn er nú víst ekki nema rúmlega fjórði hluti af því, sem þarna var. Að vísu voru þetta ekki allt saman leiðréttingar hjá skattanefnd, nokkru af því varð hæstiréttur landsins að hrinda. Svo vel var staðið að þessari löggjöf, sem ég hef haldið að hv. 1. þm. Austf. (EystJ) hafi fyrst og fremst verið faðir að til þess að ofsækja einkaframtakið í landinu. Og það er þá ekki það fyrsta, þó að hv. 4. þm. Reykn. vilji láta liggja að öðru. Og þótt okkur hafi tekizt að byggja upp eitt og annað, er það ekki fyrir það, að ekki hafi verið reynt að bregða fyrir okkur fæti, fyrst og fremst af framsóknarmönnum, þessum mönnum, sem hafa viljað einkaframtakið feigt. Þeir ganga jafnvel lengra í þeim efnum en sjálfir kommúnistarnir, sem vilja fá annað þjóðskipulag. En það má vel vera, að framsóknarmenn hugsi sér líka annað þjóðskipulag, þegar allt væri orðið eintómur samvinnurekstur.

Nei, ef leggja ætti til grundvallar það, sem endanlega hefur verið ákveðið í sambandi við stóreignaskattinn og mig, mætti frekar deila á mig fyrir að vera með jafnmikið í veltunni og ég er án þess að eiga meira, en fyrir því hefur skattaokið og veltuútsvarið séð. Það hefur ekki verið hægt fyrir atvinnurekendur að byggja upp varasjóði. Það er e.t.v. að vakna einhver skilningur á því nú, og það var einmitt framsóknarmaður, sem hélt alveg prýðilega ræðu hér fyrir nokkrum dögum um þetta. Það var framsóknarþingmaðurinn hér í Reykjavík, og talaði hann alveg eins og úr mínu hjarta um þessi mál og veltuútsvarið. Það er sannarlega gleðiefni, að um hugarfarsbreytingu er að ræða, og ég vildi, að það næði til höfuðforingjans, að hann yrði fyrir hinum góðu straumum, því að ég vil segja, að þetta séu góðir straumar, það sé gott fyrir Íslendinga að geta byggt upp sterk atvinnufyrirtæki. En ef þessi skattur, svo að ég komi að því aftur, stóreignaskattur væri lagður til grundvallar fyrir eignum mínum, mundi ég ekki eiga nema sem svarar eins og skuldlausum mótorbát, eins og þeir kosta núna. Það er allt og sumt. Svona hefur verið búíð að þeim mönnum, sem verið er að kalla ríkustu menn landsins. Nei, það þarf heldur áreiðanlega ekki að leita að ríkustu mönnum landsins í stétt útgerðarmanna, því hef ég ekki neina trú á. Ég skal svo ekki fara frekar út í að svara þessum hv. þm.

Ég vil ekki heldur lengja þennan fundartíma eða fundarsetu hv. þm. á laugardegi með óþarfamælgi í sambandi við hinn ræðumanninn, sem ég ætlaði að svara, hv. 2. þm. Austf. (HÁ). En ég get ekki komizt hjá að víkja að honum nokkrum orðum, þar sem hann vék að mér persónulega og brá mér um, að ég færi með ósannindi.

Honum hefur sviðið undan dæminu frá Hornafirði, sem ég nefndi hér um daginn. Auðvitað var það jafnsatt eins og ég stend hér í þessum ræðustól, og mér þykir furða, að hv. þm. skuli lýsa það ósannindi. Maðurinn, sem varð fyrir þessu, sagði mér þetta í öngum sínum, ekki af því að hann væri neitt að ráðast á kaupfélagið í sambandi við það, heldur bara að bera upp vandræði sín við mig. Það gæti verið, að hann yrði að leggja árar í bát með útgerð sína eða verkun á afla sínum og fiskkaup, eins og hann hefði stundað áður. Mér dettur ekki í hug, að hann hafi verið að ljúga því upp. En það er náttúrlega ósköp skiljanlegt, að hv. þm. reyni að bera þetta af kaupfélaginu. Ég sagði frá þessu á framboðsfundi fyrir austan í haustkosningunum, og það má vel vera, að það hafi komið góðu til leiðar, sem gæti komið fram í því, sem hv. þm. sagði um saltíð. Hann átti ekki nógu sterk orð til þess að lýsa aðdáun sinni á því, að þessi blessaður maður skyldi nú fá salt hjá kaupfélaginu, en það lýsir samt sem áður viðhorfi hans til slíkra mála. Ég vildi óska þess í sambandi við Hornafjörð og Vopnafjörð, sem hér hefur borið á góma, að það megi verða sem mest samkeppni, því að ég trúi á, að það sé fólkinu fyrir beztu. En kaupfélagsveldið er víða mikið á Austurlandi, meira en nokkurs staðar annars staðar á landinu. Ef til vill er ekki unnt fyrir hv. þm. að setja sig inn í, hversu geysilegt veldi þetta er og hversu einráð kaupfélögin eru á mörgum stöðum. Og því er ekki að leyna, að fólkið þar er hálfhrætt, það er hrætt við að missa atvinnu sína, ef það er ekki hæfilega hæverskt við hin voldugu fyrirtæki. Já, þetta er ekkert grín. En það koma kannske breyttir tímar og breytt viðhorf með því, að aðrir menn reyna að skapa einhverja samkeppni þarna. Það yrði þeim mönnum til góðs, sem standa fyrir þessum voldugu fyrirtækjum.

Ég ætla aðeins að nefna eitt lítið dæmi úr heimabyggð hv. þm., 2. þm. Austf., af því að það talar líka sínu máli. Hann sagði mér frá því, þegar hann sýndi okkur allt sitt veldi þarna á Vopnafirði, sem er mikið og á margan hátt myndarlega upp byggt, — þó að þar sé kannske ýmislegt, sem mætti deila á hann fyrir, t.d. eins og það, að hann hefur ekki starfrækt frystihúsið neitt undanfarin ár og öll útgerð farin þar í kaldakol undir hans handleiðslu, — hann sagði mér frá því, að allar útistandandi skuldir um áramót hefðu verið 30 þús. kr. Þið hv. þm. munduð ef til vill segja, að þetta bæri aðeins vott um, hversu mikill fjármálasnillingur hv. þm. er. En ég segi: Þetta ber vott um, hversu hart hefur verið gengið að þarna og hversu litlum skilningi hefur verið að mæta á uppbyggingu manna þarna. Þetta er nokkuð stórt verzlunarhérað. Ef ég man rétt, eru eitthvað um 1000 íbúar á kaupfélagssvæðinu, þó að ekki séu nema tæpir 400 á Vopnafirði. Það getur þó verið, að ég fari ekki alveg rétt með þessar tölur. En þetta sýnir, hversu kaupfélagið hefur lánað lítið til þess að hjálpa mönnum áfram. Og þó er þetta á stað, þar sem megnasta atvinnuleysi ríkir allan veturinn, þar sem engin útgerð er, og má nærri geta, hvort ekki má halda fast á til þess að sýna jafngott ástand hvað útistandandi skuldir snertir og þetta. Ég er viss um, að þetta er einsdæmi. Hv. þm. þarf ekki að hafa neinar áhyggjur af fylgi Sjálfstfl. í Vopnafirði, það get ég sagt honum. Ég efast um, að flokkurinn hafi nokkurs staðar bætt meira við sig í síðustu kosningum en þar.

Framsfl. hefur verið alveg einráður í Norður-Múlasýslunni, og það hafa hvergi nokkurs staðar á landinu verið jafnlitlar framfarir eins og í Norður-Múlasýslu og kyrrstaða.

Almenningur hittir oft naglann vel á höfuðið. Í haust var nýbúið að segja brauðinu að Hofi í Vopnafirði lausu. Þetta var lengi talið bezta brauð landsins. Enginn prestur sótti um Hof. Og það voru að verða þarna læknaskipti. Héraðslæknirinn, sem var búinn að vera þarna í ein 20–30 ár, fullorðinn maður, gegn og góður, var að fara, og hann hafði sagt embættinu lausu. Enginn sótti. Þá sagði almenningur: Ætli kaupfélagið taki þetta ekki að sér hvort tveggja eins og allt annað.