19.03.1960
Neðri deild: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1390 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

88. mál, söluskattur

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla mér ekki að þessu sinni að fara hér langt út í deilur og sízt að fara að svara síðasta ræðumanni, því að ræða hans var svo mikið staðbundin, að mig brestur kunnugleik til þess að ræða þar um. En þó vil ég geta þess, að ég hef á Vopnafjörð komið og finnst sá staður mjög myndarlegur.

En ástæður til þess, að ég fór að kveðja mér hljóðs að þessu sinni, eru tvær fyrst og fremst. Í fyrsta lagi vil ég segja það, að fyrst þarf að halda hér fundi á laugardögum, þá kynni ég betur við það, að það yrði ekki hlutverk okkar stjórnarandstöðumanna að halda þeim uppi. Þegar fundir hófust hér í dag, vantaði einn af þm. Framsfl., en það voru t.d. tveir af þm. Alþfl., og ég vildi mælast til þess við hæstv. forseta þessarar deildar, sem hefur farið vel með sitt vald, að ef þarf að halda þeim siðum hér, að fundir séu á laugardögum, þá sé þess gætt, að menn mæti sæmilega, svo að það lendi ekki alltaf á sömu mönnunum að vera þar til kvaddir, þegar fundir eru á óvenjulegum tíma, hvort sem það er á nótt eða degi. Mér var sagt, að menn væru við sín störf, þegar ég spurði um þetta í dag. Ég hafði fullkomna þörf fyrir það að fara upp í Borgarnes og sinna þar mínum störfum um þessa helgi. Ég varð að vera hér um síðustu helgi og vinna bæði laugardag og sunnudag við afgreiðslu fjárlaga og gat þess vegna notað þessa helgi í mína þágu eins og þeir hv. þm., sem hér eru fjarverandi nú. Það má ekki minna vera, ef hæstv. ríkisstj. þarf að halda fundi á óvenjulegum tímum, en að hv. stjórnarsinnar séu mættir, a.m.k. á móts við okkur hina.

Þá ætla ég ekki að ræða frekar um það, en ég vildi svo spyrja um þetta: Það er gert ráð fyrir því samkv. þeim upplýsingum, sem við höfum fengið um þennan söluskatt, 3% söluskatt, að hann muni gefa 173 millj. kr., miðað við heilt ár. Nú er talað um, að fimmti hluti hans eigi að ganga til sveitarfélaganna. Nú vil ég spyrja hæstv. fjmrh. um það: Þegar niður fellur sá hluti af innflutningssöluskattinum, sem talað er um að eigi að vera til bráðabirgða, hver á þá að verða hlutur sveitarfélaganna? Á það að verða 1/5 af þessum 3% skatti, sem gefur 173 millj. kr., þ.e. 37.4 millj.? Í öðru lagi, ef söluskattur í ár reynist meiri en 280 millj. kr., fá þá sveitarfélögin 1/5 af honum í heild eða þær. 56 millj. kr., sem talað er um að þau eigi að fá? Það hefði verið mjög æskilegt, að hæstv. ríkisstj. hefði lofað hæstv. Alþingi að sjá framan í frv. um breytingar á jöfnunarsjóði og á öðrum þeim atriðum, sem að sveitarfélögunum snúa, áður en frá þessu máll yrði gengið hér á Alþingi. En fyrst það er nú ekki, vildi ég mega spyrja um þetta, hvort það sé sem sagt meiningin, að ef hinn skatturinn falli niður, þá verði 37.4 millj. kr., sem komi til sveitarfélaganna, og svo í öðru lagi, ef hann gefur meira en 280 millj. kr., fá þá sveitarfélögin 1/5 af því?

Um það, sem hér hefur verið drepið á, að þetta muni allt reynast hagnaður fyrir sveitarfélögin, ætla ég ekki mikið að fara að ræða að þessu sinni, enda þarf ekki að ræða það mál lengi við þá menn, sem eru jafnkunnugir málefnum sveitarfélaga og t.d. hæstv. fjmrh., hvort honum er það ekki fullkomlega ljóst, að það fylgir þeim aðgerðum, sem hér hafa verið gerðar í efnahagmálum og er verið að gera í efnahagsmálum, allmikill baggi til sveitarfélaganna, svo að dæmið er ekki uppgert. Hins vegar er það nú svo með þennan söluskatt og þær aðrar aðgerðir í efnahagsmálum, sem hér hafa verið á ferðinni, að mér sýnist, að það sé alltaf verið að gera það upp tekjumegin við almenning með sömu tölunum.

Þetta frv. um söluskatt er að því leyti merkilegt, að mér hafa sagt menn, sem hafa komið utan af landsbyggðinni, að það sé búið að senda þeim frv., svo að þeir geti kynnt sér það, því að það verði að lögum, áður en langur tími líði, og þess vegna sé gott, að þeir hafi það í sínum höndum. Það munu sennilega vera fá dæmi um það, að frv. sé sent frá Alþingi eða sent út um landsbyggðina eins og lög væru orðin.

Gunnar á Hlíðarenda svaraði Hallgerði, er hún neitaði um hárlokkinn forðum, með þessum orðum: Allir hafa sér til ágætis nokkuð. — Mér komu þessi orð í hug, þegar ég sá þetta frv. hæstv. ríkisstjórnar. Hún er eins og Hallgerður, sjálfri sér samkvæm.

Í haust, í kosningunum, var talað um verðstöðvun. Framkvæmdin er óðaverðbólga. Það var talað um, að þetta skyldi gert án þess að leggja á nýja skatta. Framkvæmdin er daglegar álögur. Það var talað um, að ekki skyldi taka erlend lán, allra sízt til stutts tíma. Framkvæmdin: meiri lántökur en nokkru sinni fyrr til styttri tíma. Það var sagt: ekki er áformað að breyta núv. söluskatti af innflutningi. Framkvæmdin: söluskatturinn er meira en tvöfaldaður. Það var sagt: bætt lífskjör. Framkvæmdin: meiri kjaraskerðing en nokkru sinni fyrr.

Og þessu er haldið áfram, þó að það liggi fyrir, að ekki hafi verið þörf á þessum álögum, sem á almenning eru lagðar, heldur eru þær miðaðar við hina nýju stefnu í efnahagsmálum, sem nú er verið að koma á. Meðferð málsins er svo þannig, að málin eru tínd hér inn í hv. Alþingi, eitt og eitt mál í senn. Fyrst komu fjárlögin, þar næst efnahagsmálin, þau voru afgreidd, án þess að vitað væri þá um, hvernig söluskatturinn yrði, nú kemur söluskatturinn, þá er ekkert vitað um tekjuskattinn, hann verður auðvitað næst. Svo er talað um að breyta innflutningsverzluninni, það kemur svo eitt út af fyrir sig, og svo koma síðar breytingar á lögum um jöfnunarsjóð og annað viðvíkjandi þeim málum. Sem sé: það er verið að tina þetta, en það miðar allt í sömu áttina. Í hinni nýju stefnu ríkisstj. í efnahagsmálum er þverbrotið allt, sem áður var fram tekið að hún mundi beita sér fyrir. Og svo þegar þeir hæstv. stjórnarliðar ræða um það, hvaða áhrif þetta hafi á almenning í landinu, þá á að bera það saman við það, sem hv. frsm. fjhn. ræddi hér um í ræðu sinni, þegar hann talaði fyrir efnahagsmálunum, — það átti að bera lífskjörin, sem nú yrðu eftir þessa breytingu, ekki saman við þau fölsku lífskjör, sem þjóðin býr við í dag og eru fengin að láni, eins og hann orðaði það, heldur þau lífskjör, ef ekkert væri hér að gert og hér væri óðaverðbólga, alger gjaldeyrisskortur og fjárhagslegt hrun. Þegar þetta er haft til samanburðar, þá er stefna ríkisstj. e.t.v. betri að dómi þeirra stjórnarliða, og þarf svo ekki fleira um það að ræða, hvernig hún er.