02.12.1959
Sameinað þing: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 374 í D-deild Alþingistíðinda. (3072)

11. mál, lántaka í Bandaríkjunum

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir upplýsingarnar, og þótt erfitt væri að greina, eins og gengur, svo margar tölur í skyndi, þá hefur þetta sama gildi, vegna þess að hægt er að fá aðgang að þessu skriflega, og mun ég notfæra mér það.

Ég vil aðeins í framhaldi af þessu skora á hæstv. ríkisstj. að gera gangskör að því að fá sem fyrst síðari hluta lánsins, eða hinar 3 millj. Ég er þeirrar skoðunar, að það hafi verið heilbrigt á undanförnum árum að taka löng lán erlendis og verja til þess, sem þeim hefur verið varið, og ég er sömu skoðunar enn. Ég álít, að það mundi hreinlega búa hér til kreppu, ef það ætti skyndilega að breyta um stefnu í þessu og hætta að taka löng lán til nauðsynlegra framkvæmda. Það er óhugsandi, að uppbygging geti orðið hér eins og hún þarf að vera, nema með einhverju erlendu fjármagni, og ég álít, að það eigi að leita að lánum í því skyni til langs tíma, eins og gert hefur verið.

Í sambandi við það, hvað komið er inn af þessu láni nú þegar, vil ég beina því til ríkisstj., að þess væri brýn þörf, að ræktunarsjóður fengi fyrir áramótin einnig síðari 12½ millj. krónurnar, sem hann á að fá út úr þessu láni eftir alþingissamþykktinni í fyrra, því að það er augljóst og var fyrir fram augljóst, að sjóðurinn muni alls ekki geta lánað eins og undanfarin ár, nema hann fái þetta fé fyrir áramót.

Ég vil leggja áherzlu á þetta. Þetta hefur verið ljóst og er enn ljósara, að því er mér virðist, í dag en áður. Þegar lánaáætlun og fjáröflunaráætlun fyrir ræktunarsjóð var gerð í ársbyrjun, var einnig gert ráð fyrir um það bil 25 millj. af erlenda láninu. Það verður þess vegna stöðvun í þessum málum, ef ekki kemur nema þessi 12½ millj., sem hæstv. ráðh. upplýsti um.

Ég hefði að vísu talið það betri upplýsingar, ef hæstv. ráðh. hefði sundurliðað, hvað af PL 480 láninu hefur gengið til Sogsvirkjunarinnar og hvað til annars, en ekki er hægt að kalla það neinn megingalla á þeim upplýsingum, sem hann gaf.