03.12.1959
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 375 í D-deild Alþingistíðinda. (3078)

31. mál, lántaka vegna togarakaupa

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Eins og kunnugt er, var fyrir nokkru sett löggjöf um togarakaup ríkisins. Undanfarið hafa af og til verið gefnar upplýsingar eða sendar út fréttir um, að fest hafi verið kauþ á togurum erlendis, og man ég eftir því, að fyrir fyrri kosningarnar s.l. ár var sérstaklega gefin út tilkynning um, að búið væri að útvega lán fyrir átta skipum, sem ættu að koma til landsins á næstunni, skildist mönnum. En síðar kom í ljós, að þetta hafði verið eitthvað á sandi byggt og að kaup hefðu ekki verið fest. Var þá upplýst, að það hefðu verið gefin út innflutningsleyfi fyrir nokkrum skipum, en mjög var það á reiki, sem þá kom fram um, hvernig frá þeim málum væri gengið, hvort það væri ríkið, sem hefði gengið frá skipakaupunum og tæki lán til þeirra, eða hvort þetta væru einstaklingar eða félög, og þá hver fyrirgreiðsla ríkisins væri. Út af öllu þessu þótti mér rétt að reyna að fá mynd af því, hvernig þessi mál stæðu, með því að bera fram þessa fsp. Hún er orðuð svona: „Hver lán hafa verið tekin erlendis til togarakaupa samkv. lögunum um togarakaup ríkisins?“ Ég vænti þess, að sá hæstv. ráðh., sem þessu svarar, gefi yfirlit um það, sem gert hefur verið samkvæmt þessum lögum í togaramálum.