03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í D-deild Alþingistíðinda. (3083)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Fyrirspyrjandi (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. í tveimur liðum til hæstv. ríkisstj. varðandi stofnun nýrra ráðuneyta. Hinn fyrri liður fsp. hljóðar svo:

„Samkv. hvaða heimild hefur verið sett á stofn sérstakt efnahagsmálaráðuneyti og þar skipaður ráðuneytisstjóri ?“

Skömmu áður en núv. ríkisstj. var mynduð, lét þáv. ríkisstj., stjórn Alþfl., svo hljóðandi fréttatilkynningu frá sér fara, og var hún birt bæði í blöðum og útvarpi:

„Ríkisstjórnin hefur ákveðið að koma á fót efnahagsmálaráðuneyti er framkvæmi athuganir í efnahagsmálum og sé ríkisstj. til ráðuneytis í þeim málum. Er ætlunin að koma með þessu móti í fastara og hagkvæmara form þeim athugunum efnahagsmála, sem undanfarin ár hafa verið unnar á vegum ríkisstj. Jónas H. Haralz hagfræðingur verður ráðuneytisstjóri hins nýja ráðuneytis.“

Hér er því lýst yfir af hálfu hæstv. ríkisstj., að stofnað sé sérstakt rn., efnahagsmálaráðuneyti, og ákveðið, að tilgreindur maður verði þar ráðuneytisstjóri.

Ég held, að það sé grundvallarregla í íslenzkum rétti, að ný embætti og nýjar stjórnarstofnanir verði að byggjast á heimild í lögum. Það er að mínu viti eðlileg og sjálfsögð regla, að til nýrra embætta sé ekki stofnað án lagaheimildar. Engum mundi t.d. detta í hug að fjölga hæstaréttardómurum, sýslumönnum, prófessorum við háskólann eða héraðslæknum án heimildar í lögum. En er þessi regla þá ekki jafnsjálfsögð og eðlileg um önnur embætti, svo sem um embætti biskups, ráðuneytisstjóra, þjóðkirkjupresta o.s.frv.? Jú, að sjálfsögðu. Það á alls ekki að vera á valdi ríkisstj. né einstakra ráðh. að setja upp ný embætti eða stjórnarstofnanir án atbeina Alþ.

En hvar er að finna lagaheimild til stofnunar þessa efnahagsmálaráðuneytis? Um það er spurt. Og við þeirri spurningu er það vitaskuld ekkert svar að segja, að það hafi átt sér stað áður í vissum tilfellum, að stofnað hafi verið til ráðuneytisstjóraembætta með næsta óformlegum hætti og án fyrir fram fenginnar lagaheimildar. Embætti þessu er ráðstafað án þess, að það sé auglýst laust til umsóknar, svo sem skýlaust er skylt að gera samkv. 5. gr. l. nr. 38 1954. Hverju sætir þvílík lögleysa? Hvers vegna er hér vikið frá skýrum fyrirmælum laga og það einmitt af þeim aðilanum, sem hefur það hlutverk í þjóðfélaginu að halda lögunum uppi? Ég vil taka skýrt fram, að orð mín ber ekki að skilja svo, að ég telji með öllu efnislega óréttlætanlegt að setja þetta nýja ráðuneyti á stofn. En ég tel nauðsynlegt, að til þess sé stofnað með formlegum hætti. Því síður ber að skilja orð mín þannig, að ég gagnrýni þann mann, sem útnefndur hefur verið ráðuneytisstjóri. Enginn efast um hans mikla lærdóm, og á honum hef ég mikið álit. En allt að einu þarf lagaheimild til hans embættis.

Síðari liður fsp. er svo hljóðandi:

„Hefur verið sett á stofn sérstakt iðnaðarmálaráðuneyti og ef svo er, eftir hvaða heimild?“

Það munu nú vera um tvö eða á þriðja ár, síðan ég las í dagblöðunum hér í Reykjavík frásögn at ræðu, er ráðh. sá, sem þá fór með iðnaðarmál, hélt á fundi í Félagi íslenzkra iðnrekenda, en sú frásögn vakti athygli mína. Þar var svo frá sagt:

„Að lokum skýrði ráðh. frá því, að á döfinni væru skipulagsbreytingar varðandi meðferð iðnaðarmála í stjórnarráðinu. Væri ákveðið, að alveg á næstunni yrði sett á stofn iðnaðarmálaráðuneyti og mundi til þess fenginn sérstakur trúnaðarmaður. “

Vel má vera, að ummæli ráðh. hafi brenglazt í meðferð blaðamanns, Hafi ráðh. aðeins sagt það, að í undirbúningi væri frv. til l. um stofnun iðnmrn. og að hann mundi leggja slíkt frv. fyrir Alþ. á næstunni, þá er vitaskuld ekkert við það að athuga. En hafi ráðh. raunverulega heitið því að setja á stofn þetta ráðuneyti án atbeina Alþingis, þá verð ég að segja, að það er of flott skálaræða að mínum dómi.

Á því tímabili, sem liðið er, síðan umgetin ræða var haldin, er mér ekki kunnugt um, að fram hafi komið frv. um stofnun sérstaks iðnmrn. Ekki er mér heldur kunnugt um, að um það efni hafi verið gefin út nein fréttatilkynning af hálfu ríkisstj. Nú nýlega hef ég hins vegar orðið þess áskynja, að farið er að skrifa stjórnarráðsbréf í nafni iðnmrn., þ.e.a.s. á bréfhausnum stendur „Iðnaðarmálaráðuneytið“ og undir er skrifað fyrir hönd iðnmrn. eða í nafni þess. Sömuleiðis hef ég veitt því athygli, að á fjárlagafrv., 10. gr. f-lið, stendur: Samgöngu- og iðnaðarmálaráðuneyti. — Að gefnum þessum tilefnum er fyrirspurnin fram borin.

Það má vel vera, að það sé ekki út af fyrir sig óskynsamlegt að fela sérstakri ráðuneytisskrifstofu iðnaðarmálin til meðferðar. Um það skal ég ekki ræða hér. En mér virðist margt benda til þess, að hér sé verið að setja á laggirnar sérstakt iðnmrn. án nauðsynlegrar lagaheimildar og án samráðs við Alþingi fyrr en þá eftir á. Það má sannarlega ekki minna vera en að Alþingi sé skýrt frá stofnun nýrra ráðuneyta.