03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í D-deild Alþingistíðinda. (3087)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Það væri sjálfsagt ekki neitt við að amast, ef þessar umr. hér yrðu til þess að flýta fyrir framgangi þeirrar till., sem hæstv. núv. dómsmrh. bar fram fyrir nokkru um það, að skipan væri gerð á málefnum stjórnarráðs Íslands. Löggjöf um það er öll í brotum, og ég geri ráð fyrir, að þessi hv. fyrirspyrjandi hafi hugboð um það, jatnvel þó að hann hefði enga aðstoð fengið í þeim efnum við yfirlestur á þeim till., sem hæstv. núv. dómsmrh. hefur um þetta flutt.

Hins vegar er það, finnst mér, meira fyrir blaðamennsku en þingumræður, — og ég heyrði nú, að hv. fyrirspyrjandi hafði skriflega bæði frumræðu og svarræðu hér, í hvaða tilgangi sem það er gert, — að deila nú fast á hæstv. fyrrv. ríkisstj. fyrir að hafa fylgt fordæmi, sem hefur verið talið gott og gilt í tvo áratugi og er stofnað til, ef ég veit rétt, af hv. 2. þm. Vestf. (HermJ), sem í fyrsta slíkt embætti eða fyrsta slíkt rn. skipaði sjálfan formann þingflokks Framsfl., hv. 1. þm. Austf.

Hv. fyrirspyrjandi gerir hér mjög mikið úr því, að menn skuli leyfa sér að brjóta hér lög og auglýsa ekki einu sinni embættið. Ég hefði gaman af, ef hann vildi spyrja formann síns eigin flokks, hvað hann gerði, þegar viðskmrn. var stofnað undir hans forustu, hvar þær auglýsingar séu, sem öfluðu honum ráðuneytisstjóra. Ég hefði líka gaman af að vita, hvar þær auglýsingar eru, sem gerðu núv. ráðuneytisstjóra í félmrn. að ráðuneytisstjóra þar, eða t.d. eftir hvaða lögum það rn. var stofnað eða samgmrn. Ég man ekki, hvort nokkurn tíma hefur verið stofnað landbrn. Þetta er nú sannast sagna þannig, að það er fullkomin þörf, að farið sé eftir þeim tilmælum, sem hæstv. núv. dómsmrh. með tillöguflutningi sínum beindi til Alþingis, þó að það næði þá ekki fram að ganga. Það er fullkomin þörf, því að eins og ég segi, þegar nýtt rn. er stofnað, þá ræður hending, hvernig málum er skipt á milli ráðh., það ræður líka hending, hve margir eru ráðh. og jafnvel bílstjórar. Þeir eru víst færri núna en þeir voru, þegar vinstri stjórnin var, — ég veit það ekki. — en ég held, að það keyri samt fleiri ráðh. núna í bílum, sem þeir leggja sér til sjálfir. En það er nú mál fyrir utan þetta, það er meira blaðamatur, eins og þar stendur.

En sem sagt, það er ástæða fyrir þennan hv. fyrirspyrjanda að minnast þess, að hvert rn. á fætur öðru hefur verið stofnað, án þess að lagaheimildir hafi verið, í 20 ár eða meira. Ég man ekki, hvenær hv. þm. kom á þing, ég hef séð hann hér fyrr, en hvort það eru tvö eða þrjú ár, síðan hann kom, man ég ekki, en það er nú af því, að maður kannast svo vel við andlitið, án þess að hafa séð hann á þingbekkjunum. En ekki hefur þetta kvalið hann mikið, úr því að fsp. kemur fyrst fram núna. Iðnmrn. sagðist hann hafa heyrt um fyrir tveimur árum. Það var víst einhver annar stjórnarformaður þá en nú, enda gerir það honum enga andlega kvöl, iðnmrn., fyrr en núna. Og öll þau fordæmi, sem þarna voru og eru að hans mati ólögleg, hafa ekki heldur valdið honum neinum óþægindum, fyrr en fyrrv. hæstv. ríkisstj. stofnar það rn., sem kannske er einna mest þörf fyrir.

Ég hefði ekki óskað eftir að þurfa að svara sérstaklega í neinum ádeilutón þessari fsp., en hún er flutt í svarræðunni meira sem blaðagrein en sem þingleg fsp. Þess vegna hef ég leyft mér að biðja hv. fyrirspyrjanda að rifja upp dálítið aftur í tímann, hvað hefur gerzt í þessum efnum, hverjir valda og hvar fordæmin eru, t.d. hverjir auglýstu og hvenær embætti ráðuneytisstjóra í samgmrn., í félmrn., í viðskmrn. Ég hefði gaman af að heyra, hvar þau fordæmi eru og eftir hvaða lögum, og líka, af hverju það hefur aldrei hvarflað að hv. fyrirspyrjanda að segja okkur frá þessu mikla leyndarmáli, sem hann hefur búið yfir, að þetta væri tóm lögleysa allt saman.