03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í D-deild Alþingistíðinda. (3088)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ráðuneytin í stjórnarráðinu eru 9 að tölu, og eru 4 þeirra stofnuð með lögum, en 5 án lagasetningar. Þau, sem eru stofnuð með lögum, eru þessi: utanrrn., dóms- og kirkjumrn., fjmrn. og atvmrn. Þau, sem stofnuð eru án sérstakrar lagasetningar, eru: forsrn., viðskmrn., menntmrn., félmrn. og samgmrn.

Það hefur, að ég ætla, ekki verið talið hingað til ólöglegt að setja rn. á stofn án sérstakrar lagasetningar. Og þegar hinn ágæti fyrirspyrjandi ritaði sína ágætu bók um stjórnarfarsrétt, komst hann þar ekki svo að orði, að ólöglegt væri að setja á stofn ráðuneyti með ráðherraúrskurði, heldur mun hann hafa komizt svo að orði um þessi 5 ráðuneyti, að þau hafi verið stofnuð með heldur óformlegum hætti. Lengra var ekki gengið þá, þegar hann sem vísindamaður og fræðimaður skrifaði sína ágætu bók. Hann tekur nú hér sem þingmaður nokkru dýpra í árinni og gerir það að ádeiluefni á fyrrv. hæstv. ríkisstj., að hún hafi stofnað til efnahagsmrn. án sérstakrar lagasetningar. Hér hefur verið bent á nokkur fordæmi, og ég verð að segja, að ef hér á að deila á einhverja, þá hitta ádeilur hv. fyrirspyrjanda, — það vill nú svo einkennilega til, að þær hitta fyrst og fremst formann hans eigin þingflokks og formann flokksins. Það hefur hitzt svo á í hinum langa ráðherradómi hv. 1. þm. Austf., formanns Framsfl., að hann hefur a.m.k. tvísvar sinnum setzt í rn., sem var stofnað um leið og hann tók við og án lagaheimildar. Eins og hér var getið um, var það bæði viðskmrn. 1939 og auk þess menntmrn. 1947. Það eru ekki mín orð eða mín skoðun, að það sé ólöglegt að stofna rn. með ráðherraúrskurði, en hitt vil ég taka skýrt fram, að ég tel það sjálfsagt og óhjákvæmilegt að setja löggjöf um stjórnarráðið.

Í sambandi við athugun á starfsemi, skipulagi og meiri hagsýni og bættum vinnubrögðum í rekstri ríkisins kemur m.a. strax fram, hversu skortir mjög á skipulag í stjórnarráðinu. Eins og hæstv. forsrh. tók fram, kemur það fyrir, jafnvel oftast, þegar ríkisstj. er mynduð, að rn. eru bútuð sundur, og hefur jafnvel komið fyrir, að einn og sami ráðuneytisstjóri heyrir kannske undir þrjá eða jafnvel fjóra ráðh., hvern með sinn málaflokkinn. Það er nauðsynlegt að koma hér miklu betri og fastari skipan á, og allsherjar endurskoðun verður að sjálfsögðu að fara fram í þessu efni og setja um það löggjöf, þegar nægur undirbúningur hefur farið fram.