03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í D-deild Alþingistíðinda. (3089)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Fyrirspyrjandi (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú haft hér á vinnubrögð hinna leiknu stjórnmálamanna. Í stað þess að ég var að spyrja hann, hefur hann farið að spyrja mig. Ég verð að sýna ofur lítinn lit á því að svara þeim fsp., sem hann bar hér fram.

Hann spurði, hvernig hefði verið háttað auglýsingu 1939 og auglýsingu 1946 á tilteknum embættum. (Gripið fram í.) Já, þingheimur þarf að vita þetta líka, þó að hæstv. forsrh. hafi fengið þessar upplýsingar frá sessunaut sínum. Því er til að svara, að það voru engin lög þá í gildi, sem buðu það almennt, að embætti skyldu auglýst til umsóknar. En þau lög komu 1954, og það vantar alla skýringu á því, hvers vegna lögin hafa verið brotin að þessu leyti til.

Í annan stað var hann að spyrja um stofnun vissra ráðuneytisskrifstofa. Og hann spurði, hvaða lög hefðu gilt, þegar menntmrn. var stofnað, hvaða lög hefðu gilt, þegar félmrn. var stofnað. Ég vil minna hann á, að bæði þessi ráðuneyti voru stofnuð í hans forsætisráðherratíð. Og út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði, þá er það rétt, að ég hef sagt um þessi eldri embætti, að til þeirra hafi verið stofnað með óformlegum hætti. Það er hið rétta orðalag um þetta, því að það dettur engum í hug að halda því fram núna, að þessi fjögur ráðuneytisstjóraembætti í stjórnarráðinu, sem stofnað hefur verið til með þeim hætti, séu ólögleg, vegna þess að þau hafa margsinnis á þeim árum, sem síðan eru liðin, verið samþykkt og hlotið staðfestingu óbeinlínis hér á Alþingi. Það hefur hins vegar ekki legið fyrir, að stofnun ráðuneytisstjóraembættisins eða iðnmrn. hafi hlotið slíka staðfestingu enn hér á Alþingi. Það verður sjálfsagt, en það hefur ekki verið gert. Og þess vegna var ástæða til þess að spyrja einmitt um þessi embætti, og það liggur svo ljóst fyrir sem verða má, að ríkisstj. hefur — ekki núv. hæstv. ríkisstj., heldur fyrrv. hæstv. ríkisstj. — stofnað til efnahagsmrn. án nokkurrar lagaheimildar og hún hefur þverbrotið 5. gr. l. nr. 38 1954 um auglýsingu embætta, þegar þau á að veita.