03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í D-deild Alþingistíðinda. (3090)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Forsrh. (Ólafur Thors):

Ég verð að hryggja hv. fyrirspyrjanda og þann, sem var nú að svara mér, með því, að ég tek mér ekkert nærri, þó að ég væri staðinn að því að þekkja lög landsins ekki eins vel og prófessorinn. Og ég tek mér ekki heldur nærri, heldur þykir mér sómi að játa, að það, að ég gat gripið fram í fyrir honum, sýndi, að við hliðina á mér sat maður, sem kunni þau ekki síður en hann, það er hæstv. núv. dómsmrh. Og mér þótti meira að segja mikið til koma að koma því sem fyrst á framfæri, að ég hefði ekki kunnað lögin eins vel. Það hefur komið fyrir mig fyrr að kunna ekki fögin eins vel og kennarinn minn. Það er bezt, að menn viti það.

Ég vil svo aðeins út af því, sem hv. fyrirspyrjandi gat um í sambandi við veitingu ráðuneytisstjóraembættisins í efnahagsmrn., segja það, ef það væri honum til hugarléttis, að það skeði ekki annað þá en breyt. á því embætti, sem formaður hans flokks, hv. 2. þm. Vestf., hafði stofnað, væntanlega með einhverri lagaheimild, þótt ég, eins og vant er, þekki ekki þau lög, — embætti, sem hét efnahagsmálaráðunautur, og borgaði, eftir því sem ég er búinn að rannsaka, ekki sjálfur launin hans, en lét borga þau úr ríkissjóði. Það er svo eins og vant er, að þeir, sem höfðu starfað í stjórn með þeim virðulega manni, skömmuðust sín ekkert fyrir hans verk og þótti ágætt fordæmi að stíga aðeins hálfu skrefi lengra en hann hafði stigið í lögleysunni þá, ef allt er löglaust. Þeir leyfðu sér að gera þá breytingu á þessu embætti, sem hæstv. þáv. forsrh., Hermann Jónasson, hafði stofnað, að kalla manninn ráðuneytisstjóra í staðinn fyrir efnahagsmálaráðunaut. — Ja, ég er tilbúinn til að láta kalla fram í fyrir mér, því að hv. fyrirspyrjandi má ekki tala aftur. Ég er tilbúinn til þess, ef hann vill koma einhverju að, að þegja á meðan. Mér finnst sanngjarnt, að hann fái að segja eitthvað. — Ja, ef hann ekki óskar þess, þá þarf ég heldur ekki að segja meira. Við erum alveg sáttir og höfum báðir lært hvor af öðrum, ég auðvitað meira af honum í lögum, en hann kannske meira af mér í einhverju öðru, t.d. sannleiksást.