03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 386 í D-deild Alþingistíðinda. (3093)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Eysteinn Jónsson:

Það eru fáein orð út af aðallega blænum á þessum umr., sem er að mínu viti nokkuð furðulegur. Hér er fsp. í tveimur liðum. Annar er um það, hvort það hafi verið stofnuð tiltekin rn. Hinn er um það, hvort staða ráðuneytisstjóra í efnahagsmrn. hafi ekki verið auglýst.

Síðara atriðinu hefur engu verið svarað, sem hægt er að taka nokkurt mark á. Það er þó augljóst mál, að aðfinnsla fyrirspyrjanda í því efni er fullkomlega réttmæt. En varðandi hitt atriðið, að rn. hafi verið stofnað án lagasetningar, þá er þessu atriði svarað skætingi, einvörðungu skætingi af hendi hæstv. ríkisstj., því að auðvitað er það ekkert annað en skætingur að svara hv. fyrirspyrjanda því, að honum væri sæmst að hreyfa ekki þessu máli, vegna þess að þm. úr sama flokki og hann hefðu einhvern tíma — fyrir 20 árum staðið að því að stofna rn., án þess að sérstök lög væru um það sett. Það var byrjað á því að tala um það hér fyrst, að ég hefði staðið að því fyrir 20 árum að stofna viðskmrn., og var nú ekki fleira tínt fram í því sambandi, en síðan hefur verið upplýst hér, að hv. þm. eða ráðh. úr a.m.k. þremur flokkum þingsins hafa staðið að því að setja á fót rn., án þess að löggjöf hafi verið sett um þau mál.

Þannig liggur þetta fyrir. En hugsunarháttur þeirra hæstv. ráðh., sem hér hafa talað, er sá, að vegna þess að þetta hafi verið þannig, sé það í raun og veru ósæmilegt og alveg ótilhlýðilegt at nýjum þm., manni, sem er nýkosinn á þing, að finna að þessu. Manni skilst, að það sé nærri því ósæmilegt af nýjum þm. að finna að þessu, vegna þess að þetta hafi verið svona áður og einhvern tíma hafi þm. úr sama flokki og hann er í átt þátt í þessu. Þetta gefur ofur litla hugmynd um hugsunarhátt þeirra hæstv. ráðh., sem að þessu standa. Ef mönnum finnst eitthvað athugavert, eiga þeir að þegja um það samkv. þeirra skilningi, ef einhver úr þeirra eigin flokki hefur komið nærri því, — þá er ósæmilegt af þeim að hreyfa því. Ef þeir vilja koma einhverjum endurbótum fram, nýir menn í þinginu, þá er það ósæmilegt af þeim að hreyfa því máli, ef einhver maður úr þeirra eigin flokki hefur einhvern tíma komið nálægt því að hafa á þá skipun, sem þeir vilja gagnrýna. Þessum hugsunarhætti er full ástæða til að mótmæla gersamlega, því að hann er ósæmilegur. Það er ósæmilegt — fullkomlega ósæmilegt — að setja ofan í við þm. fyrir að vilja koma á endurbótum í einhverju efni og svara þeim skætingi einum af þessu tagi.

Það er í raun og veru þetta, sem sagt er við hv. þm.: Þér er bezt að hafa þig hægan, því að framsóknarmenn gerðu þetta. — Og svo er annar hugsunarháttur líka, sem kemur hér fram, grátbroslegur, og hann er þessi: Ef framsóknarmenn hafa gert eitthvað, þá er alveg sjálfsagt, að aðrir geri það líka. (Gripið fram í: Þetta er nú hroðalegur hugsunarháttur.) Já, hann er hroðalegur. Þetta er hroðalegur hugsunarháttur að ætla að afsaka sig með því einu, að einhver annar hafi áður farið eins að. — Nú er ekki svo sem hér sé um eitthvert ódæði að ræða. Hér hafa verið stofnuð rn., eins og ég segi, af fulltrúum úr öllum flokkum án lagasetningar.

Ég gat ekki stillt mig um að vekja athygli á þessari sérstöku framkomu hæstv. ráðh. í sambandi við þessi mál, sem þar að auki ber, að því er mér virðist, vott um of mikinn taugaóstyrk, og framkoma þeirra er fullkomlega ósæmileg í garð þess þm., sem hefur hreyft þessu máli. Hann telur, að hér þurfi endurbóta við, og þá á að ræða það málefnalega, hvort hann hafi rétt fyrir sér eða rangt í því efni, en ekki svara skætingi, eins og hæstv. ráðh. hafa gert.

Hæstv. dómsmrh. var að tala um það hér áðan, að fyrrv. ríkisstj. og sérstaklega ég hefði ekki viljað hafa samvinnu við stjórnarandstöðuna um að koma á nýrri skipan í stjórnarráðinu, og deildi á mig fyrir það. Ég býst við því, að hann snúi sér til okkar nú í stjórnarandstöðunni næstu daga til þess að taka upp við okkur samvinnu um þetta mál. því að væntanlega ætlar hann ekki að hafa þann hátt á að fara þá eins að og hann gagnrýndi hjá okkur og afsaka sig bara með því, að þannig hafi framsóknarmenn farið að og þess vegna sé sjálfsagt fyrir hann að gera það líka. En það væri alveg í samræmi við það, sem fram kom hjá hæstv. dómsmrh. áðan. En ef hann vill ekki haga því þannig, þá býst ég við því, að hann muni snúa sér til stjórnarandstæðinga nú til þess að hafa samvinnu um að endurskipuleggja stjórnarráðið.