03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í D-deild Alþingistíðinda. (3098)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Eysteinn Jónsson:

Það er varla hægt annað en undrast þessi Maraþonræðuhöld hæstv. ráðh. út af þessari fsp., og get ég ekki mikið farið út í þau á þeim örstutta tíma, sem ég hef til umráða samkv. þingsköpunum. En síðasti hæstv. ráðh., sem talaði, viðskmrh., sagðist álita það lítið smekklegt af fyrirspyrjanda að nota þetta tækifæri, stofnun efnahagsmrn., til þess að taka upp umræður um stofnun ráðuneyta án lagaheimildar vegna þess, hve sá maður væri vel fær, sem hefði verið veitt embætti ráðuneytisstjóra.

Þetta er mjög einkennilegur hugsunarháttur. Það kemur auðvitað því ekkert við, hvaða maður á þar hlut að máli sem embættismaður, hvort hyggilegt eða óhyggilegt sé að stofna ráðuneyti án laga. En það hefur ekkert farið dult, að fyrirspyrjandi hefur eingöngu komið með þetta mál hér á Alþingi til þess að koma þeirri skoðun sinni kröftuglega á framfæri, að það ætti ekki að stofna ráðuneyti án lagaheimildar.

Enn fremur segir hæstv. viðskmrh., að það hafi verið mörg tækifæri á undanförnum árum til þess að gera athugasemdir um þetta. En hvernig átti sá hv. þm., sem hér á hlut að máli, að gera slíkar athugasemdir eða koma fram sjónarmiði sínu á Alþingi við þau tækifæri, þegar hann átti þar ekki sæti? Ég verð að segja, að þetta kalla ég ósmekklegan málflutning af hendi hæstv. viðskmrh.

Þá kom hér áðan hæstv. dómsmrh. í annað eða þriðja sinn og flutti hér nokkur ávarpsorð til mín sérstaklega. Hann sagði, að ég hefði ekki viljað samvinnu við stjórnarandstæðinga um endur skipulagningu stjórnarráðsins. En ég gerði ráð fyrir því í mínu máli, að hann hlyti að taka upp slíka samvinnu við mig nú og aðra stjórnarandstæðinga vegna þess, hve hann lýsti því kröftuglega yfir, að slík samvinna ætti að eiga sér stað. Og hann spurði: Ætlar hv. 1. þm. Austf, að óska eftir slíkri samvinnu við mig? Ég ætla að bíða þangað til hann tekur hana upp, því að það verður víst ekki langt að bíða þess. Það verður hægt að þreyja þorrann og góuna, ef hann ætlar að verða sjálfum sér samkvæmur, og ég býst við því, að það verði fleiri mál, sem hann kemur með til mín, en þetta eitt, þó að byrjunin spái að vísu ekki góðu, þar sem eitt afrek núv. ríkisstj. hefur verið það að neita mér um allar upplýsingar um efnahagsmálin. En kannske það lagist, þetta eigi eftir að breytast og þessar umræður hér í dag verði til þess, að hæstv. dómsmrh. taki alveg sinnaskiptum og muni nú allt í einu eftir því, hver afstaða hans var, áður en hann settist í ráðherrastólinn nú síðast. Ég bíð sem sagt eftir því, að hann taki upp þessa samvinnu.

Þá sagði hæstv. ráðh., að ég hefði sagt, að menn skyldu sízt taka til fyrirmyndar það, sem framsóknarmenn hefðu gert. Eitthvað hefur þetta nú skolazt hjá hæstv. ráðherra. Þetta sagði ég aldrei, eins og allir hv. þm. vita. Það er náttúrlega hægt að hafa það sér til skemmtunar að snúa hlutunum svona við. Það er kannske hægt að hafa gaman af því, ef það er laglega gert, en annað gildi hefur það ekki. Ég sagði ekkert um það. En af þessu tilefni vil ég þvert á móti segja hitt, að ég teldi, að það væri mjög gott fyrir hæstv. dómsmrh. og aðra hans menn að taka sér framsóknarmenn sem oftast til fyrirmyndar. Það væri mjög heppilegt, vegna þess að þó að hann kunni þá að gera ýmsar smávægilegar yfirsjónir og endurtaka þær, sem framsóknarmenn hafa gert, þá verður það aldrei stórfellt, sem hann brýtur af sér með þessu móti, það er alveg öruggt. Það verða þá aldrei stórfelldar skekkjur, sem hann gerir. Hann getur kannske gert einstaka skekkjur, því að auðvitað hafa framsóknarmenn gert einhverjar skekkjur, og ég t.d. mundi gjarnan samþykkja, að það hefði verið eðlilegra að hafa löggjöf í hvert skipti, sem ráðuneyti var sett á fót, — en stórfelldar villur gerir hann aldrei, ef hann fer þannig að, og meginstefna hans verður þá ekki röng. Hann ætti því að taka sér framsóknarmenn sem oftast til fyrirmyndar. Hitt er svo annað mál að það, sem ég vildi benda á með mínum orðum, var það, hve hæstv. dómsmrh. er orðinn flaumósa og miður sín, þegar hann grípur til þess í umræðum að afsaka sig með því, að hann fari eins að og framsóknarmenn. Þá er hann kominn út á undarlegar leiðir í málflutningi sínum. Það hlýtur hæstv. ráðherra að sjá.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að það væri auðséð, hve ég léti mér annt um fyrirspyrjandann, Ja, það var ljótt, að þeir skyldu ekki fá að vera í friði hér allan fundartímann við að ausa sér yfir hv. fyrirspyrjanda, eftir að hann var búinn að missa allan rétt til þess að taka til máls, það var leiðinlegt, að einhver skyldi koma og grípa í sama streng og hæstv. fyrirspyrjandi. En þetta hygg ég að hæstv. ráðherrar verði að þola, að þótt einn hafi talað sig dauðann, sem kallað er á þingmáli, þá kunni að vera einhver annar, sem hafi aðstöðu til þess að taka upp hanzkann fyrir hann, ef ósæmilega er að honum sneitt í umræðunum, eins og hæstv. ráðherrar hafa gert.

Loks sagði hæstv. dómsmrh. eitthvað á þá lund, að blærinn á þessum umræðum væri ekki ánægjulegur. Hann viðurkenndi það. En hann sagði, að það væri frummælanda að kenna. Þetta er alveg rangt hjá hæstv, ráðh. Frummælandi gaf ekkert tilefni til þess, að umr. færu út á það svið, sem orðið hefur hér í dag, eða sá skætingur tekinn upp, sem varð aðalatriði umræðnanna af hendi hæstv. ríkisstj. Það kom fyrst til í svörum hæstv. ríkisstj., að sá tónn kæmi í umræðurnar.