03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 398 í D-deild Alþingistíðinda. (3100)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Mér finnst nú leggjast heldur lítið fyrir hæstv. forsrh. og hæstv. viðskmrh., þegar þeir eru að rugla saman starfi eins ráðunauts og heils ráðuneytis, sem að hafa bæði ráðuneytisstjóra, deildarstjóra, fulltrúa og bókara, og telja, að það sé eitthvað svipað. Vitanlega er þar um allt annað og ólíkt að ræða. Það er allt annað, að ríkisstj. ráði sér ráðunaut til einhvers takmarkaðs tíma eða þann tíma, sem hún er að völdum, ellegar hvort er sett á stofn heilt ráðuneyti með fjölda starfsmanna.

Varðandi það, sem hér hefur verið sagt um efnahagsmrn. og hagstofuna, vildi ég segja þetta:

Hagstofan á að geta gefið allar þær upplýsingar og útreikninga um efnahagsmál, sem ríkisstj. þarfnast. Það á að búa hana þannig úr garði, að hún geti alveg fullnægt allri þeirri upplýsingastarfsemi, sem þarf með í þessu sambandi. Þar af leiðandi þarf ekki sérstakt efnahagsmálaráðuneyti til að vinna að slíku.

Hvað er það þá, sem efnahagsmrn. er ætlað að gera eftir kenningum hæstv. ríkisstj.? Ja, það á að vera til þess að leggja á ráð um stjórnarstefnuna. Ég held, að það sé alveg útilokað, að það sé hægt að hafa ráðuneyti, sem eigi að leggja á ráð um sjálfa efnahagsmálastefnuna. Hver ríkisstjórn ákveður það sjálf, hvaða stefnu hún fylgir í efnahagsmálum, og hún velur sína sérstöku ráðunauta til þess að undirbúa tillögur um það. Það eru vitanlega ekki alltaf sömu ráðunautarnir. Það liggur t.d. ljóst fyrir, að yrðu stjórnarskipti í Bandaríkjunum á næsta ári og þar kæmi forseti úr öðrum flokki, þá mundi hann styðjast við allt aðra ráðunauta í efnahagsmálum en núv. forseti hefur gert. Ef það yrðu stjórnarskipti í Þýzkalandi og jafnaðarmenn kæmu þar til valda, mundu þeir styðjast við allt aðra ráðunauta í efnahagsmálum en núv. ríkisstj. hefur gert. Sama mundi eiga sér stað í Bretlandi. Ef jafnaðarmenn kæmust til valda þar, mundu þeir styðjast við allt aðra ráðunauta í efnahagsmálum en ríkisstjórn Macmillans. Sennilega er það nú hvergi í heiminum nema hér, sem íhaldsflokkur og jafnaðarmannaflokkur geta stuðzt við sömu ráðunauta í efnahagsmálum,

Þess vegna má búast við því, að starfslið hins svokallaða efnahagsmálaráðuneytis verði gagnslaust, ef verða stjórnarskipti, vegna þess að þá koma menn til valda, sem kjósa að fylgja ráðum annarra og hafa aðra menn í ráðum en þá, sem eru fyrir í ráðuneytinu. og þar með er verkefni þess þrotið.

Það er þess vegna nákvæmlega sama, hvernig á þetta málefni er litið. Stofnun þessa rn. er óeðlileg. Það á að leggja þetta rn. niður. Ef það er nokkur vilji fyrir því að koma á sparnaði í ríkisrekstrinum, þá er þetta rn. eitt af því fyrsta, sem á að leggja niður.