03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í D-deild Alþingistíðinda. (3103)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að blanda mér mikið inn í þessar umræður, ekki sízt á þeim grundvelli, sem þær voru upphaflega lagðar, en vegna þess að þær hafa farið nokkuð út á annað svið og sérstaklega út af ræðu hæstv. menntmrh. kvaddi ég mér hljóðs.

Ég vil því í sambandi við það, sem hann sagði hér síðast, segja, að það er meginbreyting í þessu máli. Ég álít, að meðan sá ráðuneytisstjóri, sem nú er orðinn, var ráðinn sem ráðunautur ríkisstj., þá hafi hans staða verið þannig, að ríkisstj., sem við tók, gat sagt honum upp starfinu. Það hefði ekki skapað neinn skaðabótarétt hjá ríkinu. Ráðning hans var með þeim hætti. Það hafa verið kallaðir hingað heim fleiri sérfræðingar, fengið góð vottorð, og þeir eru samt ekki hér á dagskrá nú. Það var út af þessu vottorði, sem er sýknt og heilagt verið að gefa þessum ágæta ráðuneytisstjóra, sem ég ætla ekkert illt um að segja. Þó vil ég segja það, að þegar umræða var um ræðu hans hér um daginn, þá var það ekki talið eðlilegt að vera að ræða sérstaklega um manninn. Ég álít, að sama máli gegni núna. Þegar hæstv. menntmrh. var að lýsa hans ágætu kostum hér áðan og sagði, að hann væri færasti sérfræðingur hér á landi, a.m.k. á Norðurlöndum og jafnvel þótt víðar væri leitað, þá datt mér í hug saga ein, þegar séra Árni klerkur Þórarinsson var að lýsa konu einni, sem honum þótti mjög fögur. Hann komst þá m.a. svo að orði: Hún er beinlínis vansköpuð af fegurð. Hún er fallegasta kona á jörðinni og þó að víðar væri leitað, það er ég viss um. — Það er þetta sem mér datt í hug. (Gripið fram í.) Nei, það verður ekki borið á hæstv. ríkisstj., að hún sé fallegasta ríkisstjórn á jörðinni, það er ég sannfærður um. Þessi ummæli komu mér í hug, út af lýsingu hæstv. ráðh. á ráðuneytisstjóranum.

En af hverju er verið að lýsa ráðuneytisstjóranum hér í þessum umræðum? Fyrirspyrjandinn gaf nefnilega ekkert tilefni til þess. Maðurinn er ekki hér á dagskrá. Það er aðeins verið að ræða um það, hvernig embættið sé til orðið. Og hvað sem um það verður sagt í þessum umræðum, þá bar þetta rangt að, þetta var afturfótafæðing, og hæstv. ríkisstj. hefði getað komið málinu fyrir á skikkanlegan hátt. En það er verið að ræða um ráðuneytisstjórann, hvíla hann hér vegna þess, sem á eftir á að koma. Hæstv. ríkisstj. ætlar að nota ráðuneytisstjórann til þess að skýla sér á bak við, þegar umræður koma um stærri mál, og þess vegna er byrjað á því að hæla honum nú.