03.02.1960
Sameinað þing: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í D-deild Alþingistíðinda. (3104)

901. mál, efnahagsmálaráðuneyti og iðnaðarmálaráðuneyti

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Við skulum alveg láta það liggja ljóst fyrir, að ráðuneytisstjóri og aðrir sérfræðingar eru ekki til að búa til stefnu fyrir neina stjórn eða til að bera ábyrgð á stefnu fyrir neina stjórn. Engin stjórn getur skotið sér bak við sérfræðing hvað þetta áhrærir. En sérhverri stjórn er það auðvitað stoð að geta haft menntaða og gáfaða menn í sinni þjónustu, fengið upplýsingar frá þeim og mat þeirra á því, hvernig málin liggja fyrir. En sá, sem tekur ákvörðun um það og ber ábyrgð á þeirri ákvörðun, það er auðvitað valdhafinn, það er ríkisstj. og þeir flokkar, sem standa að baki henni, og svo Alþingi að lokum, sem leggur blessun sína yfir það eða fellir það. Þetta er efni málsins.

Ég tel, að hér hafi komið fram mikill misskilningur um eðli þessa máls, einnig frá hendi hv. 7. þm. Reykv. Ég tel, eins og ég segi, að þessi umræddi maður eigi að vera, — ja, samlíkingin er kannske ekki rétt, — eins konar radar, sem stjórnin getur gáð í gegnum, svo að strandkapteinn lendi ekki í ógæfu, — ég á við formann vinstri stjórnarinnar og engan annan! Strandkapteinar verða að hafa góðan radar og geta horft í gegnum hann, og þá er skútunni betur borgið. Það er þetta, sem fyrir okkur eða a.m.k. mér vakir. Ég tel ekki, að stjórnmálaskoðun slíks manns komi mér neitt við. Mér þykir vænt um, að hæstv. menntmrh. upplýsti, að ég sé ekki alveg vonlaus um fylgi hans. Ég geng auðvitað á það lagið, því að mér mundi þykja sómi að því, að slíkur maður fylgdi Sjálfstfl. og stefnu hans í öllum höfuðefnum.

Ég tel þetta ekkert atriði. Ég veit heldur ekkert um hagstofustjóra, þann ágæta embættismann, eða fleiri sérfræðinga, sem þarna hafa verið með okkur. Aðalatriðið er, finnst mér, að það sé farsælt, að þessir viti bornu og sérfróðu menn, eins og sumir aðrir menn í þjóðfélaginu, hafi sig tiltölulega lítið í frammi í stjórnmálum. Það er ekki hægt að ætlast til þess, að vitrir menn hafi ekki skoðanir, greiði ekki einum flokki atkvæði o.s.frv. frekar en öðrum, og þeir hafa auðvitað líka leyfi, eins og fyrirspyrjandinn, prófessorinn í lögum, og margir aðrir mætir menn, til að láta upp allar sínar skoðanir. En ég efast ekkert um, að það er hugsanlegt, að einstaka lærlingur mundi hafa meira gaman af miklum kunnugleika og menntun fyrirspyrjandans í lögfræði, — væri kannske að einhverju leyti geðþekkara að hlusta á hann, — ef hann ekki væri að vafrast hér á þingi. En það er auðvitað réttur hvers manns að vera það, nái hann kosningu. En það eru sérstakir menn, sem ég tel að öðrum fremur sé heppilegt að láta ekki mikið uppi um sínar skoðanir, og það eru þeir, sem hæstv. menntmrh. var að lýsa, að verða á hverjum tíma að geta verið nauðsynleg aðstoð sérhverri ríkisstj„ sem með völdin fer, án hliðsjónar af, hvaða pólitískan blæ hún ber.