10.02.1960
Sameinað þing: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í D-deild Alþingistíðinda. (3108)

47. mál, rekstrarfé fyrir iðnaðinn

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hinn 29. sept. s.l. skipaði viðskmrh., sem þá var einnig iðnmrh., nefnd þriggja manna til þess að athuga lánamál iðnfyrirtækja og sérstaklega endurkaup seðlabankans á víxlum með tryggingu í iðnaðarvörum, eins og það var orðað í skipunarbréfi. Í nefndina voru skipaðir dr. Jóhannes Nordal bankastjóri, formaður, Sveinn Valfells forstjóri, Gunnar Vagnsson fulltrúi í iðnmrn. Síðan var Landssambandi iðnaðarmanna að tilmælum þess gefinn kostur á að eiga fulltrúa í nefndinni, og tilnefndi það Braga Hannesson skrifstofustjóra. Nefndin hefur hafið störf sín og ráðið Þorvarð Alfonsson hagfræðing, starfsmann hagfræðideildar Landsbankans, sem ritara.

Með bréfi, dags. 5. þ. m., hefur iðnmrh. falið nefndinni til viðbótar því verkefni, sem áður getur, að gera till. um öflun tekna til handa iðnlánasjóði, og er svo til ætlazt, að bankastjóri Iðnaðarbankans, Guðmundur Ólafs, starfi með n. að því er varðar þann hluta verkefnis hennar, er iðnlánasjóðinn snertir.

Þetta er yfirlit um það, sem gerzt hefur og skýrsla er um í iðnmrn., og staðfestir það, sem hv. fyrirspyrjandi sagði, að enn er málið algerlega á athugunarstigi. Nefnd til að kanna framkvæmdamöguleika á ályktun Alþ. frá vorinu 1958 var ekki skipuð fyrr en haustið 1959, og miðað við þann tíma, sem síðan er liðinn, er sjálfsagt ekki við því að búast, að lausn sé fengin á þessu máli. Hvað sem líður því, hvort fært þykir, sem ég skal ekki dæma um á þessu stigi, að kveða á um slíkan endurkauparétt sem fólst í ályktun Alþingis frá vorinu 1958, þá er það ljóst, eins og einnig kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, að iðnaðurinn hefur orðið mjög afskiptur varðandi stofnlánasjóði. Ég tel, að á þessu þurfi að verða gagnger breyting. Ég hef talið, að það væri eðlilegast að leita fyrst samráðs við fulltrúa iðnaðarmanna sjálfra um tekjuöflun í þessu skyni og þá bankastjóra Iðnaðarbankans, sem jafnframt er framkvæmdastjóri iðnlánasjóðs, og þess vegna fól ég n. þetta viðbótarverkefni, sem ákveðið var með bréfinu 5. febr. Og það var borið undir fulltrúa þessara samtaka áður, hvort þeir teldu þá skipun eðlilega eða ekki, og virtist þeim það vera skynsamlegasti mátinn til þess að taka málið upp á.

Meira get ég ekki um málið sagt á þessu stigi. En allir hljóta að viðurkenna, að iðnaðurinn hefur hér verið mjög settur til hliðar, og gagnger breyting þarf að verða á þessum málum, svo fljótt sem við verður komið.