10.02.1960
Sameinað þing: 15. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í D-deild Alþingistíðinda. (3123)

902. mál, skattfríðindi við störf í þjónustu útflutningsframleiðslunnar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Um það er nú enginn vafi, að það er ágreiningur um, hvernig skilja beri það ákvæði l., hvenær eru gerðar skattfrjálsar þær tekjur, sem hér um ræðir. Eðlilegast er, að um þetta falli úrskurður frá fjmrn., Það er venjulegt, þegar um svona ágreining er að ræða. Falli sá úrskurður þannig, að þetta skuli taka til tekna ársins 1959, þá er engin hætta á því, að viðkomandi launþegar áfrýi þeim úrskurði. Falli úrskurðurinn gagnstætt, hafa þeir rétt til að áfrýja úrskurðinum og fá dómsniðurstöðu um það atriði. En það er ég alveg viss um, að hvað sem líður endurskoðun skattalaganna og þeim till., sem þar verða samþykktar, þá fær hver þegn í þjóðfélaginu sér dæmdan rétt til þessara fríðinda, sem hér um ræðir, ef það á að taka gildi 1. jan. 1960, þ.e.a.s. gilda einnig fyrir tekjurnar frá 1959, því að hvorki till. frá nefnd né lög, sem síðar yrðu samþ., gætu tekið þennan rétt af viðkomandi aðilum. Frá því sjónarmiði sé ég ekki, að það sé neinu spillt í þessu máli. Það hefur hver þegn ástæðu til þess að geta kært sína skatta, bæði útsvör og tekjuskatta, ef ekki hefur verið tekið tillit til þeirra fríðinda, sem hér um ræðir, svo framarlega sem þau skulu gilda fyrir tekjurnar frá 1959, og hann getur þar af leiðandi komið öllum sínum rétti fram, hvað sem líður útgáfu reglugerðarinnar. — Þetta vildi ég láta koma fram á þessu stigi málsins.