23.03.1960
Sameinað þing: 28. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í D-deild Alþingistíðinda. (3135)

96. mál, niðurgreiðsla fóðurbætis

Fyrirspyrjandi (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Eins og kunnugt er, hafa innfluttar vörur hækkað allmikið í verði við þá gengisbreytingu, sem hefur orðið á þessu ári, og þar á meðal innfluttur fóðurbætir og áburður.

Ég hygg, að það muni láta nokkuð nærri, að innfluttar fóðurvörur hafi hækkað allt frá 43% og upp í nálægt 70%, og miði maður við útsöluverð á áburði í fyrra og það kostnaðarverð, sem ég hygg nú vera, mun hækkunin á honum vera nálægt 60%.

Nú hefur hæstv. landbrh. látið orð falla um Það, að innfluttur áburður og innfluttur fóðurbætir mundi verða greiddur niður, og ég vil því leyfa mér að spyrja hæstv. ráðh. að því í fyrsta lagi, hvað mikið fóðurbætirinn verður greiddur niður, og í öðru lagi, hvað mikið áburðurinn verður greiddur niður.