23.03.1960
Sameinað þing: 28. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 432 í D-deild Alþingistíðinda. (3137)

96. mál, niðurgreiðsla fóðurbætis

Fyrirspyrjandi (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, það sem þau ná, en þau voru engan veginn fullnægjandi. Ráðh. taldi, að fóðurbætir mundi aðeins hækka um 12–16%, þ.e.a.s. væri ekki orðinn hærri nú og mundi ekki hækka um meira en 14–15%, á sama tíma og fóðurbætir í innkaupi hækkar allt frá 43% og ég hygg í nálægt 70% einstakar tegundir. En hins vegar svaraði ráðh. því ekki, hvernig snúizt yrði við þessum málum, hvort þetta yrði áframhaldandi verð á fóðurbæti eða ekki, því að nú ræddi hæstv. ráðh. þarna um fóðurblöndu, sem samanstendur bæði af innlendum mjöltegundum og innfluttum mjöltegundum. En það er hugsanlegt, ég veit ekki, hvernig þau mál standa, að t.d. síldarmjöl og fiskmjöl, sem er í þessum fóðurblöndum, hækki eitthvað til útflutnings og þar af leiðandi verðið innanlands, og það kemur því til með að hækka fóðurblönduna í verði nokkuð. Er það þá meining hæstv. ríkisstj. í framtíðinni að greiða þær viðbótarhækkanir, sem kunna að verða á fóðurvörum, niður eða láta þá, sem vörurnar nota, greiða viðbótarhækkunina? Þetta er mikið atriði.

Varðandi fsp. um áburðinn gat ráðh. þess, að það væri ekki enn þá ákveðið, að mér skildist, en hann ræddi hins vegar um það, sem mér skilst, að hann vilji sjálfur fá framgengt innan ríkisstj., og skal ég engu um það spá, hver niðurstaðan kann að verða. En þar sem þessari fsp. er í raun og veru enn þá ósvarað, þá vænti ég þess, að henni verði síðar svarað og að hún verði tekin sérstaklega á dagskrá hér á næstunni, þar til henni verður svarað til fullnustu og búið að ráða þessum málum um áburðinn til lykta innan hæstv. ríkisstj.

Svo er það eitt enn þá, sem fróðlegt væri að fá frekari upplýsingar um en ég tel að hafi þegar verið gefnar í sambandi við niðurgreiðslurnar. Það mun hafa verið tekið upp í fjárlfrv., að auknar niðurgreiðslur mundu nema sem næst 38 millj. kr., og var þá reiknað með, að greiddar yrðu niður þær nauðsynjavörur, sem áður voru á 30% yfirfærslugjaldinu, þ.e. nauðsynlegustu matvörur og eitthvað af fatnaði. Vera má, að hæstv. ríkisstj. hafi þá þegar gert sér ljóst, að það þyrfti að greiða niður áburð og fóðurbæti. og hún hafi reiknað með þessu í því dæmi. En það er mér ekki ljóst, og hæstv. landbrh. er það kunnugur þessum málum, að ég veit, að hann getur upplýst um það hér nú, hvort þessi upphæð nægir fyrir auknum niðurgreiðslum eða það sé meining hæstv. ríkisstj. að hækka þessa upphæð til niðurgreiðslna nú, þegar fjárlög verða endanlega afgreidd frá Alþingi.