30.03.1960
Sameinað þing: 32. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 439 í D-deild Alþingistíðinda. (3145)

96. mál, niðurgreiðsla fóðurbætis

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég hef því miður ekki þá ánægju að geta þakkað hæstv. ráðh. fyrir þau svör, sem hann hefur hér gefið við því, sem ég spurði gagngert um, því að undan því hefur verið færzt að svara. Ráðh. sagði, að ríkisstj. hefði ákveðna fjárhæð til niðurgreiðslna og hún réði, hvernig hún verði henni. Það kann að vera, að það sé hans skilningur, en ég held, að Alþingi geti ekki fallizt á það. Upphæð til þessara niðurgreiðslna hefur verið samþykkt hér í fjárlögum endanlega í gær, en hún er af Alþingis hálfu gefin eftir alveg ákveðnum skýringum, sem ríkisstj. hefur gefið á því, hvernig eigi að verja þessu. Og það hefur hún gert í greinargerð við fjárlagafrv.

Það er rétt, að til niðurgreiðslna hefur Alþingi samþykkt að heimila ríkisstj. að verja rétt um það bil 303 millj. kr., sem er álitleg fúlga og hærri en nokkru sinni hefur verið samþykkt fyrr, eða nákvæmlega tiltekið 302.9 millj. kr. En ríkisstj. gerir þessa grein fyrir því, með leyfi hæstv. forseta, svo að ég vitni beint til grg. með fjárlagafrv.:

„Gert er ráð fyrir, að núverandi niðurgreiðslur séu óbreyttar, og er áætlað, að þær nemi 265 millj. kr. Hins vegar flytjast þær nú frá útflutningssjóði til ríkissjóðs. Bætt er við niðurgreiðslum á nokkrum vörum, sem hafa verið fluttar inn skv. lögum um útflutningssjóð o.fl. með 30% yfirfærslugjaldi, og nemur sú upphæð 37.9 millj.“

Af þessu er alveg glöggt, að það á bara að greiða niður þær vörur, sem áður hafa verið niðurgreiddar, og til viðbótar nokkrar vörur, sem hafa verið fluttar inn á 30% yfirfærslugjaldi. Nú hagar því svo til, að áburður og fóðurbætir hefur ekki verið greiddur niður áður og fellur ekki undir þann liði fjárlagaframlaginu. Þessar vörur hafa heldur ekki verið fluttar inn með 30% yfirfærslugjaldi, þær hafa verið fluttar inn með 55% yfirfærslugjaldi, og heimildin í fjárlögunum til niðurgreiðslna nær ekki til þeirra. Á hinn bóginn hefur hæstv. landbrh. boðað í ræðu á búnaðarþingi, að teknar verði upp niðurgreiðslur á þessum vörutegundum. Þess vegna áttum við alþm. von á því, að annað tveggja gerðist, þegar sérstaklega var um það spurt, að ráðh. leitaði eftir sérstakri greiðsluheimild úr ríkissjóði til þessara boðuðu niðurgreiðslna, eða hitt, að hann gerði skýrlega grein fyrir því, hvaðan það fé ætti að koma, sem til þessara niðurgreiðslna færi. Nú hef ég heyrt því fleygt, en ekki af neinum aðilum, sem á því bera ábyrgð, að hugmynd ríkisstj. sé sú að minnka niðurgreiðslur á mjólk og nota það fé, sem með því sparast, til þess að greiða niður fóðurbæti. Og nú hef ég hér spurt ráðh. að því: er þetta rétt eða er þetta ekki rétt? Og mér fyndist, að það væri ekki til allt of mikils ætlazt, þó að ráðh. svaraði þessu beint. Ég hef hér gert grein fyrir því, að fyrir þessum niðurgreiðslum er ekki ætlað fé í fjárlagafrv., og þar af leiðandi hlýtur það að vera skylda ríkisstj., sem lofar slíkum hlutum, að gera Alþingi grein fyrir því, hvaðan féð á að koma, sem til þessa er hugsað að renni.