04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í D-deild Alþingistíðinda. (3164)

903. mál, framlag til byggingarsjóðs

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Ég er nú ekki undirbúinn undir að svara þessari spurningu hv. 4. þm. Reykn. (JSk), en ég ætla þó, að venjulegir tekjustofnar húsnæðismálasjóðsins, sem — eins og hann tók réttilega fram — eiga náttúrlega að koma til útlána ásamt þessum nýju lánsútvegunum, verði ekki mjög ósvipaðir því, sem verið hefur, nema hvað mér er tjáð, að skyldusparnaðurinn hafi eitthvað dregizt saman. Hversu mikið það er og hvað það muni nema miklu, get ég ekki sagt á þessari stundu, því að ég hef ekki um það neinar tölur og veit einu sinni ekki, hvort þær liggja fyrir. En í heildinni ætla ég, að með þessum nýju framlögum, sem húsnæðismálastjórn eru fengin, muni vera nokkuð nærri því að vera möguleiki fyrir því, að útlánamöguleikar sjóðsins tvöfaldist, miðað við það, sem orðið hefði, ef ekki hefði verið til þessara nýju úrræða gripið.