06.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í D-deild Alþingistíðinda. (3167)

904. mál, vörukaupalán í Bandaríkjunum

Fyrirspyrjandi (Eysteinn Jónsson):

Herra forseti. Fyrirspurnin er svo hljóðandi: „Hverju nemur nú samtals andvirði þeirra vara, sem keyptar hafa verið frá Bandaríkjunum skv. sérstökum vörukaupasamningum (P.L. 480)? Hve mikið af andvirðinu verður til útlána í landinu, og hve miklu hefur þegar verið ráðstafað og til hvaða framkvæmda? Hve miklar vörukaupaheimildir eru ónotaðar, og hve mikið lánsfé fellur til skv. þeim? Hefur ríkisstjórnin gert áætlanir um, hvernig því lánsfé verði varið?“

Það er ekki ástæða til að flytja neinar skýringar á þessum fsp. En ég vil aðeins minna á, að þegar farið var að gera þessa samninga við Bandaríkin um vörukaupin skv. sérstökum l. þar í landi og þar með ráðgert, að nokkur hluti af andvirðinu yrði til útlána hér innanlands, þá var gert ráð fyrir, að Sogsvirkjuninni yrði lánað talsvert mikið af því til að standa undir kostnaði við virkjunina, innlendum kostnaði, og enn fremur yrði lánað rafmagnsveitum ríkisins til þess að standa undir kostnaði við Reykjanesveitu. Mér vitanlega hafa ekki verið gerðar fleiri ákvarðanir um, hvernig þessu lánsfé verði varið. En ætlun mín með þessari fsp. var að reyna að fá yfirlit um það, hversu miklu væri óráðstafað af lánsfé þessu innanlands. Vonast ég eftir, að það komi fram með svörum hæstv. ráðh. við þessum spurningum.