04.05.1960
Sameinað þing: 46. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í D-deild Alþingistíðinda. (3197)

909. mál, stofnlánasjóðir Búnaðarbankans

Fyrirspyrjandi (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég hef leyft mér hér ásamt hv. 5. þm. Austf. að bera fram fsp. varðandi stofnlánasjóði Búnaðarbankans. Það er í fyrsta lagi: „Hefur byggingarsjóði sveitabæja verið útvegað fjármagn til útlána á þessu ári, og ef svo er, hve mikið?“

Í öðru lagi: „Hvenær verða afgreidd lán úr sjóðnum út á íbúðarhús þeirra bænda, sem samkvæmt reglum bankans gátu fengið fyrstu útborgun lána á árinu 1959, en hafa ekki fengið hana enn þá?

Í þriðja lagi: „Verður veðdeild Búnaðarbankans útvegað fjármagn til útlána á þessu ári, og ef svo er, hve mikið?“

Í fjórða lagi: „Hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að ræktunarsjóður geti veitt lán út á þær framkvæmdir ársins 1959, sem enn hafa ekki verið veitt lán út á, og út á framkvæmdir ársins 1960?“

Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. geti svarað þessum fyrirspurnum nú.