11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í D-deild Alþingistíðinda. (3199)

909. mál, stofnlánasjóðir Búnaðarbankans

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því, að það hafi ekki verið löng framsöguræða í sambandi við þessar fsp. og aðeins árétting á því, sem spurt er um, og get ég þess vegna svarað fsp. án þess að hafa heyrt framsöguræðuna.

Ég vil þá byrja á því að svara 2. fsp.: Hvenær verða afgreidd lán úr sjóðunum“, þ.e. byggingarsjóði og ræktunarsjóði, „út á íbúðarhús þeirra bænda, sem samkvæmt reglum bankans gátu fengið fyrstu útborgun lána á árinu 1959, en hafa ekki fengið hana enn þá?“ Það er aðeins eitt stutt svar við þessu, og það er, að þessi lán hafa verið veitt. Þetta mál hefur verið afgreitt.

Þá vil ég svara 4. spurningunni: „Hafa verið gerðar ráðstafanir til þess, að ræktunarsjóður geti veitt lán út á þær framkvæmdir ársins 1959, sem enn hafa ekki verið veitt lán út á, og út á framkvæmdir ársins 1960?“ Ég vil þá fyrst svara fyrri liðnum, og það er stutt svar, að það hefur verið lánað út á þær beiðnir, sem liggja fyrir vegna framkvæmda ársins 1959. En um seinni hluta spurningarinnar er það að segja, að ekki hefur enn verið útvegað fé til framkvæmda á þessu ári, enda koma ekki til greina lánveitingar út á þær framkvæmdir fyrr en í haust eða væntanlega í desembermánuði n. k. Og í sambandi við það er fróðlegt að gera sér grein fyrir því, hver fjárþörf ræktunarsjóðs er á þessu ári, og hefur það verið gert í lausum dráttum. Það er vitanlega aldrei hægt að áætla það alveg nákvæmlega, en fjárþörfin virðist vera eitthvað á þessa leið:

Það þarf að greiða skuld við seðlabankann, bráðabirgðalán, sem reyndar er orðið nú næstum þriggja ára gamalt. Það eru 5 millj. kr. Það eru framkvæmdalán gjaldfallin fyrir 1. júlí þ. á., sem nú hafa verið veitt, 11 millj. kr. Það er í Framkvæmdabanka Íslands, afborgun og vextir af lánum, sem gjaldfalla fyrir 1. júlí, 12.4 millj. Það eru önnur lán, sem gjaldfalla 1. júlí til 31. des., 8 millj. Og rekstrarkostnaður er 3–4 millj. Útlán haustið 1960 45 millj., sem er vitanlega áætlun. Með þessu virðist fjárþörf ræktunarsjóðs vera á þessu ári 85.4 millj. Tekjuáætlun: Tillag ríkissjóðs 1.6 millj. Árgjöld af útlánum 19.2 millj. Lán frá Framkvæmdabanka 25 millj., sem gæti eins orðið allt að 30 millj., en hér er áætlað 25 millj. Þetta eru samtals 45.8 millj., sem virðast vera nokkuð öruggar tekjur. En til þess að ná jöfnuði vantar 39.6 millj., sem þarf að útvega fyrir haustið, Og nú er eðlilegt, að spurt sé: Verður þetta lán útvegað? Reyndar er sú spurning ekki eðlileg, vegna þess að þetta lán hlýtur að verða útvegað nú eins og áður, því að engum hefur komið til hugar, að ræktunarsjóður hætti starfsemi sinni. Það, sem ég vil þess vegna segja, er það, að fyrir haustið mun ræktunarsjóði verða útveguð þessi upphæð eða sem næst því.

Tel ég þá, að 2. og 4. spurningunni sé svarað. Ég vil þá svara 1. spurningunni: „Hefur byggingarsjóði sveitabæja verið útvegað fjármagn til útlána á þessu ári, og ef svo er, hve mikið?“ Það er fljótt að svara því, að byggingarsjóði sveitabæja hefur ekki enn verið útvegað fjármagn til að lána út á framkvæmdir þessa árs. Það hefur ekki verið gert. Það hefur verið útvegað fé til þess að ljúka við að lána út á það, sem var gjaldfallið frá fyrra ári. En vitanlega þarf að útvega byggingarsjóðnum fjármagn, til þess að hann geti starfað á svipaðan hátt og áður, og það er enn nauðsynlegra en nokkru sinni fyrr, ef möguleiki væri á því að hækka lánin úr 75 þús. kr. Eins og kunnugt er, er heimild í lögum að lána allt að 75% af byggingarkostnaði sveitabæja, en lánin hafa verið bundin við 75 þús. kr. á hús, enda þótt húsið hafi kostað 300–400 þús. kr. Þegar byggingarkostnaðurinn hækkaði verulega á árinu 1958, var lán byggingarsjóðsins ekki hækkað, enda þótt þörfin væri þá brýn. Ég segi nú: Það er brýn nauðsyn á að hækka þessi lán úr 75 þús. kr., og verði það gert, vex vitanlega þörf byggingarsjóðsins.

Hér hefur verið gerð lausleg áætlun um fjárþörf byggingarsjóðs á þessu ári en þá er miðað við 75 þús. kr. lán. Þá er gert ráð fyrir að greiða skuld við seðlabankann, sem nú er að verða þriggja ára gömul, 7.5 millj. kr., skuld við sparisjóðsdeild Búnaðarbankans 1 millj. kr., lánsumsóknir fyrir 1959 5.3 millj., sem búið er að lána, og til viðbótar 5 millj., sem gjaldfalla hinn 31. des., það eru hús, sem eru þegar í smíðum. Þetta er samtals 10.3 millj. Svo eru vextir og afborganir lána 7 millj., rekstrarkostnaður 1½–2 millj. og áætluð lán haustið 1960 10 millj. Fjárþörfin er því, ef á að gera skil á skuldum við seðlabankann, sparisjóðsdeild Búnaðarbankans og standa í skilum við Framkvæmdabankann, 37.8 millj. Og þá er eðlilegt að gera sér grein fyrir því, hvernig á að afla þessa fjár. Tillag ríkissjóðs er ekki mikið, það er 2.5 millj., og árgjöld eldri lána aðeins 4.5 millj., eða 7 millj. Það, sem vantar á, til þess að byggingarsjóðurinn geti þá fullnægt því, sem óskað er eftir, eru 30.8 millj. Þessa fjár hefur ekki enn verið aflað, en mun verða aflað fyrir haustið, svo að sjóðurinn geti starfað á líkan hátt og áður. Ég ætla ekki að þessu sinni að segja meira um það, hvernig að því verður farið. Ég hygg, að hv. alþm. sé nægjanlegt að vita, að ríkisstj. ætlar sér að skaffa þetta fé.

Þá er það 3. spurningin: „Verður veðdeild Búnaðarbankans útvegað fjármagn til útlána á þessu ári, og ef svo er, hve mikið?“ Ég mundi segja, að það væri ákaflega mikil þörf á því að útvega veðdeild Búnaðarbankans fé til útlána á þessu ári, en sú raunasaga er, sem flestir þekkja, að veðdeild Búnaðarbankans hefur haft ákaflega lítið fjármagn til útlána á undanförnum árum. Vissulega væri æskilegt að bæta úr því. Búnaðarþing samþykkti í vetur ályktun í þessu efni og benti á nauðsynina, og hér í Alþingi er till. til umr. og athugunar, sem sjálfstæðismenn hafa flutt varðandi veðdeildina. Ég verð að segja, að enn hefur ekki verið útvegað fé handa veðdeildinni, en ég vil bæta því við, að ríkisstj. hefur fullan hug á því að bæta úr fjárþörf veðdeildarinnar.