11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í D-deild Alþingistíðinda. (3202)

909. mál, stofnlánasjóðir Búnaðarbankans

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það var aðeins í tilefni af því, að það ætlar að verða erfitt að kenna hæstv, landbrh. að svara fsp. kurteislega og skætingslaust. Samt er það spá mín, að það muni takast að lokum, þótt það sé ekki enn þá orðið. — Hann var í sambandi við þessa fsp. að kasta nokkrum kekkjum að fyrirspyrjanda, eftir að hann hafði lokið máli sínu og gat ekki tekið til máls aftur. Einn kökkurinn var sá, að það hefði ekki bólað á áhuga hjá hv. fyrirspyrjanda fyrir málefnum landbúnaðarins, fyrr en hann hafi verið kominn í stjórnarandstöðu. Það vita allir, sem til þekkja, að þetta er mælt algerlega út í hött hjá hæstv. ráðh., því að hv. fyrirspyrjandi hefur verið, frá því að hann fyrst kom hér á þing, mestur áhugamanna á þingi fyrir öllum málefnum landbúnaðarins og manna ötulastur við að minna á þau mál og ýta á eftir þeim, hver sem í hlut hefur átt eða setið í stjórn. Hæstv. landbrh. veit vel, að þannig er þessu háttað.

Annars skal ég ekki fara að taka hér þátt í umr. um þessa fsp. að öðru leyti en í sambandi við þennan leiðinlega derring, sem kom fram hjá hæstv. ráðh. Voru þetta þó raunar ekki nema leifar af því, sem við höfum áður þekkt, en leifar þó. Ég vil taka fram, að það er engin ástæða til þess fyrir hæstv. ráðh, að vera með slíkt í sambandi við þessa fsp. af þeirri einföldu ástæðu, að það mun aldrei hafa komið fyrir fyrr — á síðari áratugum a.m.k. — að það hafi ekki verið hægt að fá byggingarsjóðslán fyrir áramót. En nú hefur þetta gengið þannig, að menn fengu ekki lánin fyrir áramót, vegna. þess að hæstv. ráðh. og hans félagar höfðu ekki getað leyst fjármál byggingarsjóðs sveitanna. Ekki var því hægt fyrir áramót að fá lán nema handa þeim, sem voru að ljúka við byggingu, en allir þeir, sem höfðu hafið byggingar, og þótt þær væru fokheldar og þeir ættu rétt á lánum, gátu ekki fengið afgreiðslu fyrir áramót og hafa beðið alveg fram á þennan dag, og það er fyrst núna þessa dagana, sem verið er að leysa úr þessu.

Hæstv. ráðh. þarf þess vegna ekkert að undrast, þó að það sé nokkuð gengið eftir þessum málum og mönnum þyki eðlilegt að spyrja, hvers þeir megi vænta um framtíðina í þessu sambandi, þegar reynslan er þessi. Og um þetta þarf því ekkert að vera að kýta. Þess vegna þarf hæstv. ráðh. ekki að vera með nein ólíkindalæti í sambandi við þetta eða telja það einhverja sérstaka goðgá, þótt um þetta sé spurt. Það er alveg eðlilegt og ætti að vera hægt að svara því án þess að hreyta nokkru að mönnum.