11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í D-deild Alþingistíðinda. (3225)

912. mál, fræðsla í þjóðfélagsfræðum

Fyrirspyrjandi (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Á Alþ. 1956 var borin fram till. til þál. um aukna fræðslu fyrir almenning í þjóðfélags- og þjóðhagsfræðum og var hún samþ. þann 22. marz þ.á. Flutningsmenn þeirrar till. voru þeir Bernharð Stefánsson fyrrv. alþingisforseti og núverandi hv. 3. þm. Norðurl. e., Gísli Guðmundsson. Skömmu síðar voru nokkrir menn skipaðir í nefnd til athugunar á þessum málum, og hefur sú nefnd setið að störfum síðan.

Tilgangur minn með því að bera fram fsp. þessa er í fyrsta lagi sá, að ég tel nauðsynlegt, að Alþ. fylgist með störfum þeirra nefnda, sem skipaðar eru samkvæmt ályktunum þess, en því miður hefur oft viljað vera svo, að Alþ. verður alls ekki vart við annað viðvíkjandi störfum slíkra nefnda en að samþ. er á ríkisreikningi þóknun til þeirra allmörgum árum eftir, að þær hafa verið skipaðar. Til að fyrirbyggja misskilning skal það þó tekið fram, að mér er vel kunnugt um, að þannig er því ekki varið með þessa nefnd. Hún hefur starfað og mun þegar hafa skilað einhverri álitsgerð til stjórnarráðsins, þó að mér sé hins vegar ekki kunnugt um, hvort störfum hennar sé þar með lokið,

Í öðru lagi er hér um að ræða merkilegt málefni, sem talsverður áhugi hefur verið fyrir hér á hv. Alþ. Ég átti að vísu ekki sæti á þingi, þegar umrædd till. var borin fram og samþ., en hún mun hafa verið samþ. ágreiningslítið eða ágreiningslaust. Á næstu þingum voru einnig bornar fram till., er hnigu í svipaða átt, þó þannig, að þar var markað nokkru þrengra svið, svo sem með till., sem ég man að hv. núverandi 10. þm. Reykv. flutti á þingi 1957 eða 1958 um fræðslustofnun fyrir launþega.

Það ætti varla að vera álitamál, að aukin fræðsla almennings um þessi efni er æskileg. Í lýðræðislegu þjóðfélagi, þar sem úrslitavald í þjóðmálum er í höndum hins almenna kjósanda, hlýtur stjórnarfarið ætíð, þegar til lengdar lætur, að verða spegilmynd af þroska og þekkingu hins almenna kjósanda, þannig að hinu gamla orðtaki, að eftir höfðinu dansi limirnir, má hvað þetta snertir að vissu leyti snúa við, að höfuðið verður að dansa eftir limunum, ef það á þá ekki að detta af. Á hinn bóginn má ekki loka augunum fyrir því, að framkvæmdarörðugleikar á því að stofna til slíkrar fræðslu fyrir almenning eru miklir, og kemur þar margt til greina, m.a. það, að markalínurnar milli hlutlægrar fræðslu, er skírskotar til skynsemi manna, og áróðurs, sem skírskotar til tilfinninga manna og hvata, æðri sem lægri, eru ógleggri í þjóðfélagsfræðum en á öðrum sviðum mannlegrar þekkingar. En auðvitað er það aðeins hið fyrrnefnda, hin hlutlæga fræðsla, sem fellur undir verksvið hins opinbera. Áróðurinn hlýtur hins vegar að verða verkefni frjálsra samtaka, stjórnmálasamtaka og þess háttar. En eitt af hlutverkum n. þeirrar, er hér er um að ræða, hlýtur einmitt að hafa verið að athuga þessa hlið málsins, og er mér því nokkur forvitni á því, hvaða niðurstöðu hún kann að hafa komizt að.

Að öðru leyti var það ekki tilgangur minn með fsp. þessari að kynna hv. þingheimi mínar skoðanir á því, hvernig slíkri starfsemi ætti að haga, heldur aðeins að leita upplýsinga. En hvað persónulegt álit mitt snertir á þessum efnum vil ég aðeins taka eitt fram og það er þetta:

Það er allra góðra gjalda vert, að stofnað sé til fræðslu fyrir almenning um þessi efni í einhverri mynd. Ég tel þó, að annað, sem þessi mál snertir, sé meira aðkallandi, og það er, að hægt sé að fá áreiðanlegri tölulegar upplýsingar um grundvallaratriði þjóðarbúskaparins og þróun hans en nú er kostur á. Meðan slíkar upplýsingar eru ekki fyrir hendi, er hætt við því, að allur málflutningur í þessum efnum verði háður meira með almennum vígorðum en tölulegum staðreyndum. Það er ekki svo að skilja, að menn vilji ekki hér á hv. Alþ. rökstyðja mál sitt með tilvísun til staðreynda, ef slíks er kostur, og í umr. þeim um efnahagsmál, sem farið hafa fram á þessu þingi, hafa menn, bæði ég og aðrir, reynt að vitna í tölulegar upplýsingar um þróun þjóðarbúskaparins í heild og einstakra þátta hans, svo sem um aukningu þjóðartekna, um framleiðslu, fjárfestingu, kaupmátt launa o.fl. En því miður eru þessar upplýsingar ekki áreiðanlegri en svo, að auðvelt er að vefengja þær. Af því leiðir, að ókleift verður að færa fyrir því óvefengjanlegar sannanir, að ein skipan mála sé hagkvæmari en önnur, þannig að vígorð koma í stað raka, svo að erfitt verður fyrir hinn óháða kjósanda að dæma um, hvort einn málstaðurinn sé öðrum betri. Er þetta auðvitað ekki þannig að skilja, að umræddar upplýsingar, hversu fullkomnar sem væru, mundu geta skorið úr öllum deilum á sviði þjóðmála, en þær mundu þrengja það svið, sem ágreiningur gæti verið um, og lít ég svo á, að slíkt gæti verið mikill vinningur.

Ég tel þetta fyrsta verkefnið á umræddu sviði, sem leysa þarf, en fjölyrði annars ekki meira um það að svo stöddu.