11.05.1960
Sameinað þing: 48. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í D-deild Alþingistíðinda. (3226)

912. mál, fræðsla í þjóðfélagsfræðum

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hinn 22. marz 1956 var samþ. á Alþ. till. um skipun nefndar, sem gera skyldi till. um aukna fræðslu fyrir almenning í þjóðfélags- og þjóðhagsfræðum. Áttu ýmsir aðilar að tilnefna menn í þessa nefnd. Hinn 15. júní 1956 óskaði menntmrn. eftir tilnefningu í n, frá þeim aðilum sem nefndir voru í sjálfri till. Tók nokkurn tíma að fá tilnefningu frá öllum aðilunum, en þær voru komnar allar 26. marz 1957, og hinn 9. apríl sama árs skipaði rn. þannig nefndina, að í henni áttu sæti þessir menn:

Hannibal Valdimarsson þáverandi félmrh., tilnefndur af Alþýðusambandi Íslands, Finnbogi Guðmundsson útgerðarmaður, tilnefndur af Landssambandi ísl. útvegsmanna, Þorgils Guðmundsson fulltrúi, tilnefndur af Stéttarsambandi bænda, Páll S. Pálsson héraðsdómslögmaður, tilnefndur af Iðnaðarmálastofnun Íslands, og Theódór B. Líndal prófessor, tilnefndur af Háskóla Íslands, og var hann jafnframt kjörinn formaður nefndarinnar.

Nefndin skilaði álitsgerð til rn. 11. des. 1959. Till. nefndarinnar eru þessar:

„1) A. Fella ber inn í skyldunámið á seinasta ári þess kennslu í þjóðfélagsfræðum, helzt eigi minna en 75 stundir samtals á vetri. Leggja ber höfuðáherzlu á meginatriðin í byggingu þjóðfélagsins og rétt og skyldur íslenzkra þjóðfélagsþegna.

B. Rækilegri fræðslu í þjóðfélags- og þjóðhagsfræðum ber að veita í framhaldsskólum, sem hið opinbera starfrækir eða styrkir. Æskilegt er, að slík fræðsla sé eigi veitt skemur en 60 stundir á síðari hluta námstímans.

2) Fræðslumálastjórn beiti sér fyrir:

A. Að einkaskólar, hvort heldur einstakra manna, félaga eða stofnana, samtök eða hópar áhugamanna um fræðslu fyrir almenning eða aðrir aðilar, er áhuga hafa á fræðslu fyrir almenning að skyldunámi loknu, hafi samvinnu sín á milli um leiðbeiningarstarf og fyrirlestra á sviði þjóðfélags- og þjóðhagsmála, enda sé leitað samvinnu við ríkisútvarpið.

B. Að ríkið og eftir atvikum aðrir opinberir aðilar styrki þá starfsemi, sem rætt er um í A-lið, með fjárframlögum og á annan hátt, t.d. útvegun hæfra leiðbeinenda og fyrirlesara, útvegun námsbóka og tækja, fyrirgreiðslu um húsnæði og því um líkt.

3) Leitað sé samvinnu við háskólann og stofnanir honum tengdar til þess að koma á fræðslu og leiðbeiningastarfi um tiltekna þætti þjóðfélags- og þjóðhagsmála:

A. Fyrir opinbera starfsmenn.

B. Fyrir hópa áhugamanna, sem vilja búa sig undir stjórnsýslustörf, enda fái þeir skírteini um, að þeir hafi fengið slíka fræðslu og stundað hana af kostgæfni, ef því er til að dreifa.

C. Fyrir hópa áhugamanna, sem óska aukinnar fræðslu á nánar tilteknum sérsviðum þjóðfélags- og þjóðhagsmála. “

Þetta voru till. nefndarinnar, sem, eins og ég sagði áðan, bárust rn. 11. des, s.l.

Undanfarin ár hefur verið unnið að samningu nýrrar námsskrár fyrir skyldunámið allt. Er því verki nú nýlokið, og vona ég, að það verði talið hið merkasta. Menntmrn. mun nú í sumar gefa þessa nýju námsskrá út, og byrjað mun verða að starfa eftir henni í öllum skólum landsins næsta haust. Verður þá um margar endurbætur og ýmsar nýjungar að ræða í námsefni og starfi skólanna. Ein nýjungin verður einmitt sú, að kennsla í þjóðfélagsfræði verður aukin og endurbætt. Fyrsta atriðinu í till. n. hefur því þegar verið fullnægt. Um hin atriðin er það að segja, að nú í sumar munu fara fram viðræður við forstöðumenn framhaldsskóla landsins og háskólans um hugsanlega fræðslu um þjóðfélagsmál í þeim skólum.