18.05.1960
Sameinað þing: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í D-deild Alþingistíðinda. (3238)

160. mál, alþýðuskólar

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að þakka hæstv. menntmrh. fyrir greinargóð svör, og ég vil mjög mælast til þess, að hæstv. ráðh. láti fljótlega til skarar skríða í þessum málum, því að hér er um mjög mikið nauðsynjamál að ræða. Það má segja, að með endurskoðun fræðslulaganna og þeirri nýju löggjöf um fræðslustarfsemi í landinu, sem samþykkt var 1946, hafi hinir almennu alþýðuskólar, sem áður voru, verið teknir inn í kerfisbundið skólakerfi, sem nú er alþekkt í landinu. En þess eru dæmi í mörgum löndum og ekki sízt á Norðurlöndum, og þar hygg ég, að Danmörk muni vera einna fremst, að þar eru margir lýðháskólar, þar sem nemendur, sem ekki mega vera undir 18 ára aldri og kannske allt upp í 30 ára eða eldri, geta valið á milli námsefna. Þarna er frjálst val á námsefnum, en ekki skyldufög. Slíkir skólar eru mjög nauðsynlegir í hverju land, því að þeim aðilum, sem hafa hug á því að mennta sig sjálfstætt án þess að nema þau fög, sem þeir hafa ekki með að gera, hlýtur að verða til bóta að eiga þess kost að ganga á slíka skóla. Og þar sem alþýðuskólarnir hérna voru upphaflega frjálsir skólar, óháðir kerfisbundnu skólakerfi í landinu. þá er enn meiri þörf nú, eins og komið er, að lýðháskólar verði reistir hér á landi. Ég vil vænta þess, að hæstv. ráðh. sýni bæði metnað og dugnað sinn í því að hrinda þessu stórnauðsynlega máli í framkvæmd, á meðan hann hefur jafnmikil völd í landinu og hann nú hefur.