27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í D-deild Alþingistíðinda. (3249)

167. mál, endurskoðun laga um verkamannabústaði

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Það mun vera almennt viðurkennt um alllangt skeið, að núgildandi lög um verkamannabústaði séu orðin úrelt og nái ekki þeim tilgangi, sem upphaflega var með þeirri löggjöf. Ýmislegt mætti benda á í sambandi við þessi l., sem þarf að breyta, og skal ég láta nægja að benda á eitt höfuðatriði, en það er annars vegar það tekjutakmark, sem l. setja í sambandi við þá, sem falla undir þau, og hins vegar þær háu útborganir, sem eru nú á verkamannabústaðabyggingum. Þetta hefur þær afleiðingar víða um land, að verkamenn ráða illa við að eignast slíkar íbúðir sem þessar.

Vegna þess, hve augljóst er, að þessari löggjöf þarf að breyta, skipaði fyrrv. hæstv. félmrh. nefnd til að endurskoða lögin um þessi mál 20. des. 1958. Nú er liðið hálft annað ár, síðan þessi nefnd var skipuð, og opinberlega hefur ekkert heyrzt af hennar störfum. Þess vegna er það, sem ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. félmrh., hvað liði störfum þessarar nefndar og þar með hvað liði endurskoðun laganna um verkamannabústaði.