27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í D-deild Alþingistíðinda. (3250)

167. mál, endurskoðun laga um verkamannabústaði

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi tók fram, var skipuð n. 20. des. 1958 til að endurskoða l. um opinbera aðstoð við byggingu íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum, og voru skipaðir í n. eftirgreindir menn: Finnbogi R. Valdimarsson bankastjóri, Eggert Þorsteinsson alþm., Jóhannes Elíasson bankastjóri.

Um störf þessarar n. hefur rn. ekki borizt nein skýrsla, en við eftirgrennslan hefur komið í ljós, að rn. hefur útvegað n. skv. beiðni formannsins lög og reglur bæði frá Norðurlöndum og Englandi um húsnæðismál og opinbera aðstoð í því sambandi.

Annað og meira er mér ekki kunnugt um að n. hafi gert, og raunar virðist svo sem hennar starf hafi fram til þessa ekki verið mikið, ef marka má af fundarhaldi nefndarinnar. En ég hef eiginlega engu við þetta að bæta. Skýrsla frá n. hefur mér ekki borizt, og ég get þess vegna ekki gefið önnur svör en þessi. Hins vegar mun ég að sjálfsögðu, ef þess verður óskað, inna n. eftir því, hvenær hún treystir sér til að hafa lokið störfum, eða þá, ef hún ekki getur annazt þau eða innt þau af hendi, þá verði aðrir fengnir þar til, því að verkefnið er þannig vaxið, að það er nauðsynlegt, að málinu verði hraðað.