27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í D-deild Alþingistíðinda. (3251)

167. mál, endurskoðun laga um verkamannabústaði

Fyrirspyrjandi (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svörin, en verð þó að lýsa vonbrigðum mínum yfir því, að þessi n. skuli augsýnilega lítið sem ekkert hafa starfað. Ég skil það á svari hæstv. ráðh., að það sé rétt, sem mér hafði raunar borizt til eyrna, að þessi n. hafi aldrei komið saman í eitt og hálft ár og að þessi söfnun á gögnum, sem hæstv. ráðh. skýrði frá, hafi átt sér stað, án þess að nefndarmenn hafi komið saman.

Ég vil því vænta þess, að hæstv. ráðh. sjáí til þess á einn eða annan hátt, annaðhvort að þessi n. starfi og vinni það hlutverk, sem henni er ætlað, eða endurskoðun laganna um verkamannabústaði verði undirbúin á annan hátt. Það er ekki hægt að una við, að þessari löggjöf verði ekki breytt þannig, að hún nái hinum upprunalega tilgangi sínum, að það verði verkamenn og aðrir láglaunamenn í þessu landi, sem njóti þeirra hlunninda, sem framkvæmd þessara l. getur veitt.