27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 493 í D-deild Alþingistíðinda. (3257)

914. mál, skaðabótakröfur á hendur ríkissjóði

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Í þessum ummælum hv. þm. kom ekki fram neitt nýtt, sem í rauninni þurfi að svara. En það varpar nokkru ljósi á hugsunarhátt hans, að nú á gerðardómsmeðferð að vera alröng og háskaleg, þó að í þeim tíu dæmum, sem ég nefndi hér og öll hafa gerzt á undanförnum áratug, hafi ekkert gagnrýnisorð komið fram á þá málsmeðferð, og hefur þó í mörgum þeirra mála verið um stórfelldar fjárupphæðir að ræða og prinsippmál. En þessum hv. þm. hefur ekki dottið í hug að koma fram með eina aths. eða eitt gagnrýnisorð, þegar fyrrv. ráðh., í flestum tilfellum flokksbræður hans, hafa samið um að ganga fram hjá dómstólum og fara gerðardómsleiðina. Það er mín skoðun, að í þessum tilfellum hafi yfirleitt verið farið rétt að, þeim tilfellum, sem ég hér nefndi, og gagnrýni það ekki. Ég tel, að í mörgum tilfellum sé hagkvæmara fyrir ríkissjóðinn sjálfan að semja um gerðardómsmeðferðina.

Það er annað atriði sem hér kom fram hjá hv. þm., sem veldur nokkurri furðu. Látum það vera, þó að þessi hv. þm. og málgagn hans reyni að nota hvert tækifæri, m.a. þetta, til þess að kasta hnútum að pólitískum andstæðingum sínum og gera það allt sem tortryggilegast, sem þeir gera. Ég hefði þó sannast sagna, ekki búizt við hinu, að hann leyfði sér á Alþingi að vera með önnur eins ummæli í garð hinna þriggja hæstaréttardómara og lesa mátti út úr hans ræðu. Hann gefur fyllilega í skyn, að þessir þrír hæstaréttardómarar hafi alls ekki kynnt sér málið nógu vel eða til fullnustu, áður en þeir kváðu upp sinn dóm, og þess vegna sé viðbúið eða jafnvel líklegt, að niðurstaðan hefði orðið allt önnur, ef málið hefði fengið nægilega athugun. Ég vil telja þessi ummæli svo fyrir neðan allar hellur, að það er furðulegt jafnvel, að þessi þm. skuli láta sér sæma slík ummæli. Það vita allir, að hæstaréttardómararnir á Íslandi njóta alveg óvenjulegs trausts fyrir sakir hæfileika, heiðarleika, réttdæmis og reynslu sinnar sem dómendur. Og þó að menn einstaka sinnum af pólitískum ástæðum í ómerkilegum blöðum telji sér sæma til þess að reyna að ná sér niðri á pólitískum andstæðingum að láta þá hæstaréttardómarana fá einhverjar hnútur í leiðinni, þá finnst mér það fyrir neðan virðingu Alþingis, að þm. skuli leyfa sér slíkt eins og þessi þm. hefur gert hér, og mótmæli því algerlega.