27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í D-deild Alþingistíðinda. (3258)

914. mál, skaðabótakröfur á hendur ríkissjóði

Eysteinn Jónsson:

Það var aðeins út af þessu síðasta, sem hæstv. ráðh. sagði, sem ég vildi segja fáein orð, vegna þess að fyrirspyrjandi hefur ekki rétt til að taka til máls aftur. Þessi hæstv. ráðh. hafði sama hátt á og aðrir hans kollegar hafa stundum haft, að hann virðist ætla að notfæra sér það ósleitilega, nú síðast til að koma þeirri hugmynd inn hjá hv. alþm. og þeim, sem á hlýða, að hv. fyrirspyrjandi hafi verið með ósæmilegar dylgjur í garð þeirra hæstaréttardómara, sem voru skipaðir í gerðardóminn. En það, sem fyrirspyrjandi sagði, var, að það lægi ekkert fyrir, sem tryggði eða gerði augljóst, að það hefði orðið nákvæmlega sama niðurstaða, ef það hefði verið farin venjuleg leið, sem sé dæmdur undirréttardómur og málið sótt þar og varið og síðan dæmdur hæstaréttardómur. Hann sagði, að það væri engin ástæða til þess að slá því föstu eða það væri nokkur trygging fyrir því, að það hefði orðið sama niðurstaða með því móti. Út úr þessu snýr svo hæstv. ráðh. — lætur sér sæma að snúa þannig út úr þessu, að þetta beri að skoða sem dylgjur í garð þeirra þriggja dómara, sem voru skipaðir í gerðardóminn.

En samkvæmt þeim hugsunarhætti þessa hæstv. ráðh., ef það er alveg fullkomið réttaröryggi í því að hafa aðeins þrjá af dómurum hæstaréttar til þess að fjalla um mál og einskis annars þarf með, til þess að það sé algerlega öruggt, að með þau sé tryggilega farið, hvers vegna hafa Íslendingar þá tvö dómstig? Vill ekki hæstv. ráðh. svara því? Hvers vegna hafa Íslendingar þá tvö dómstig, og hvers vegna eru þá hafðir fimm dómarar í hæstarétti, ef það eru ósæmilegar dylgjur í garð þriggja af dómurunum, þegar þeir sitja saman, að segja, að það sé ekki tryggt, að út úr því komi undir öllum kringumstæðum hið sama og ef málið fer venjulega leið fyrir dómstólunum? Ég segi: Er það sæmilegt af hæstv. ráðh. að leyfa sér slíkan málflutning eins og þennan? Og hvernig ber að skilja svona málflutning? Það ber auðvitað helzt að skilja þetta þannig af hendi hæstv. ráðh., að það sé algerlega óþarfi að hafa tvö dómstig, það sé út í bláinn að hafa þau tvö og út í bláinn að hafa fimm dómara í hæstarétti.

En til hvers er það gert? Það er gert til þess, að málin fái ýtarlegri athugun, fram komi meiri sókn og meiri vörn fyrir tveimur dómstólum, og til þess, að fleiri menn fjalli um málin. Þetta veit hæstv. ráðh. mætavel, en samt sem áður lætur hann sér sæma að leggja orð hv. þm. út á þessa lund, sem hann gerði.

Vitanlega eru dómstigin höfð tvö til að tryggja meira réttaröryggi, til að tryggja, að málin séu betur skoðuð, og einmitt þetta, að það eru tvö dómstig, er gleggsta yfirlýsingin um, að það er ekki talið nógu öruggt að hafa eitt.

Ég skal svo ekki blanda mér að öðru leyti inn í þessar umr. og hefði ekki gert það, ef þetta tilefni hefði ekki gefizt. En ég vil svo segja, að mér koma þannig fyrir sjónir þau fordæmi, sem hæstv. ráðh. nefndi, að þar sé ekki í raun og veru fordæma að leita fyrir því, sem hér hefur átt sér stað. Get ég þó ekki fullkomlega um það dæmt, þó að ég heyri málin nefnd á þá lund, sem hæstv. ráðh. gerði. En mér heyrðust flest af þessum málum vera þannig vaxin, að þar væri um að ræða að meta upphæðir skaðabóta, flest af þeim voru þannig vaxin og svo t.d. kaupverð á togurum. Það mun hafa verið deila um, hvernig ætti að skipta heildarkaupverði heils togaraflota á einstök skip. Og er það — og sennilega flest, ef ekki allt það, sem hæstv. ráðh. þarna taldi, alls ósambærilegt við að leggja undir slíkan gerðardóm stórkostlegt prinsippmál, eins og hér hefur verið gert. En það hefði verið eðlilegra, þar sem um svo stórfellt prinsippmál var að ræða, að það hefði gengið sinn eðlilega gang.