27.05.1960
Sameinað þing: 54. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (3260)

914. mál, skaðabótakröfur á hendur ríkissjóði

Eysteinn Jónsson:

Eins og allir hv. þm. hafa sjálfsagt áttað sig á, fór ég alveg rétt með það, sem hv. fyrirspyrjandi sagði. En það var þetta: að það væri engin trygging fyrir því, að það hefði orðið sama niðurstaða, ef málið hefði gengið fyrir tvö dómstig og hæstiréttur verið fullskipaður, byggði það á því, að þegar málið færi fyrir tvö dómstig, eins og ætlazt er til um þess konar mál, þá væri aukin trygging fyrir því, að öll atriði kæmu fram, sem máli skiptu í því sambandi. Þetta eru einfaldlega rökin fyrir því, að dómstigin í landinu eru höfð tvö. Rökin eru þau, að málin fái betri athugun og meiri athugun. Það voru þessi almennu rök fyrir því, að á Íslandi eru tvö dómstig, sem hæstv. ráðh. leyfði sér að leggja út sem svívirðingar í garð þriggja gerðardómsmanna. Og hann kemst engan veginn út úr því, að vilji hann standa við gífuryrði sín í þessu sambandi, þá er það sama og yfirlýsing um, að það sé algerlega ófyrirsynju að hafa tvö dómstig.