01.02.1960
Neðri deild: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1428 í B-deild Alþingistíðinda. (330)

41. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru þessar spurningar, sem ég vil svara í stuttu máli.

Hversu útflutningsuppbæturnar muni verða miklar á þessu ári eða hvort það hafi verið r eiknað út, þá er því til að svara, að framleiðsluráð mun reikna út og gera áætlun um það, eftir að kunnugt er um efnahagsráðstafanir ríkisstj. Það er ekki unnt að biðja framleiðsluráð um að gera slíka áætlun, á meðan því er ókunnugt um, hvað fram kemur. Ég get þó sagt hv. 1. þm. Austf. (EystJ), að til þessara hluta mun verða ætlað fé eftir því, sem gert er ráð fyrir að þurfi í samræmi við það frv., sem nú er verið að ræða. Mætti ætla til þess í óvissum útgjöldum á fjárlögum.

Þá var það, að ég talaði um, að ef bændur ættu að fá laun í samræmi við það, sem ætlazt er til samkv. 1. gr. þessa frv., þarf að taka inn í grundvöllinn verðhækkanir á rekstrarvörum, ekki einu sinni á ári, eins og verið hefur, heldur jafnóðum og þær koma. Ég talaði um það áðan, að einmitt þetta ákvæði mundi koma fram í öðru frv. í samræmi og sambandi við þær efnahagsráðstafanir, sem nú er verið að gera.

En það væri kannske ómaksins vert að minna á, að hv. 1, þm. Austf. hefur staðið að efnahagsráðstöfunum oft undanfarið, sem leitt hafa til hækkunar á rekstrarvörum landbúnaðarins, og hann hefur ekki fyrr en nú, eftir að ég hef minnt á það hér í minni frumræðu, talið ástæðu til að breyta lögum um framleiðsluráð þannig, að bændur gætu fengið hækkun á grundvellinum oftar en einu sinni á ári. Það er sérstök ástæða til þess að minna á þetta, þegar þessi hv. þm. gerist svo djarfur að tala um það, að þegar hin nýja valdasamsteypa, eins og hann orðaði það, hafi verið mynduð hér á Alþingi, hafi komið nýr andi og svifið yfir vötnunum, andi, sem virtist spilla fyrir afkomu bænda. Heldur þessi hv. þm., að bændur og þeir, sem eru kunnugir þeirra högum, viti ekki, hvernig að þeim var búið, t.d. í vinstri stjórninni? Var ekki jólagjöfin lögð á 1956 án þess að gera ráðstafanir til, að sú verðhækkun, sem varð á rekstrarvörunum, kæmi inn í verðgrundvöllinn? Ekki fengu bændur það bætt fyrr en haustíð 1957. Og hvaða ráðstafanir gerði þessi hv. þm. í sambandi við bjargráðalögin 1958? Gerði hann ráðstafanir til þess að tryggja það, að verðhækkun rekstrarvaranna kæmi fyrr inn í grundvöllinn en um haustíð? Var hann ekki sæmilega ánægður með það, að bændur væru snuðaðir, á meðan hann stjórnaði þessum málum? Hvað gerði þessi hv. þm. til þess að breyta l. um framleiðsluráð þannig, að bændur fengju hækkun á landbúnaðarvörum, ef kaupgjald hækkaði, grunnkaup eða vísitala? Hvernig stendur á því, að sú leiðrétting fékkst ekki fyrr en eftir að framsóknarmenn voru farnir úr stjórn og höfðu misst völdin? En eins og kunnugt er, var lögum um framleiðsluráð breytt á s.l. ári þannig, að í stað þess að grunnkaupshækkun og vísitöluhækkun var tekin aðeins einu sinni til greina í sambandi við verðlagningu landbúnaðarvara, einu sinni á árí, þá er samkv. þessum lögum ætlazt til, að verðlagningunni sé breytt ársfjórðungslega, ef grunnkaupið hækkar eða vísitalan yfir 2 stig. Og svo kemur þessi hv. þm. og talar hér næstum dólgslega um, að það hafi orðið stefnubreyting til hins verra fyrir bændur, þegar hann fór frá völdum. Þetta er kokhreysti, þegar hann er að tala hér við menn, sem hafa fylgzt með og þekkja öll þessi mál.

Það er enginn vafi á því, að bændur gerðu sér ljóst, hvernig hag þeirra var komið í desembermánuði 1958. Verðlagið hækkaði stöðugt, kaupgjaldið hækkaði, en þeir áttu eftir nótum Framsfl. að búa við óbreytt verðlag frá haustinu 1958 til haustsins 1959. Þótt vísitalan hefði haustíð 1959 í ágústmánuði verið komin upp í 270 stig, hefðu bændur alls ekki fengið hækkun á vörum sinum. Hv. 1. þm. Austf. var ekkert að hugsa um það þá, að það þyrfti að breyta lögunum um framleiðsluráð og verðlagningu landbúnaðarvara.

Ég held, að bændur hafi gert sér grein fyrir því, að sú stefnubreyting, sem varð í des. 1958 um stöðvun á verðlagi og vísitölu, hafi komið þeim ekki siður til hagsbóta en öðrum landsmönnum, og það þarf ekki að spyrja að því, að ef bændur hefðu þurft að búa við óbreytt verðlag á landbúnaðarvörum til hausts 1959, en stefna vinstri stjórnarinnar verið ríkjandi áfram og allt hækkað, bæði verðlag á innfluttum vörum og kaupgjald, þá hefði mörgum bóndanum fundizt þröngt fyrir dyrum vorið 1959, þegar að því kom að draga að áburð og aðrar rekstrarvörur til búsins.

Það er óþarfi að hafa mörg orð um þetta hér, vegna þess að þetta dæmi er svo augljóst. Hitt geta svo menn deilt um, hvort lögin um verðstöðvunina voru nákvæmlega eins og bezt væri á kosið. En það geta menn ekki deilt um, að verðstöðvunin var nauðsynleg og hún var öllum til góðs, enda þótt það væri aðeins bráðabirgðaráðstöfun.

Ég hygg, að ég hafi nú svarað þeim fyrirspurnum, sem hv. þm. bar hér fram, og gert nægilegar aths. við það, sem hann var hér að ræða um áðan í sambandi við það, sem snýr að bændum og hann var ekki alls kostar ánægður með frá hendi þessarar valdablokkar, eins og hann orðaði svo. En hv. þm. vildi halda því fram, að vegna harðrar baráttu Framsfl. væri þessi valdablokk orðin allmiklu betri í garð bænda en hún hefði verið og hefði ætlað sér að vera, m.ö.o., þessi valdablokk hefði látíð undan af ótta vegna hinnar hörðu baráttu hv. 1. þm. Austf. Ég hygg, að þessar fullyrðingar séu ekki svaraverðar, og ég lít þannig á, að það sé ekki ástæða til að fara mörgum orðum um það. Mér er ljóst, að flestir hv. þm., sem hlusta á hv. 1. þm. Austf. tala hér í þessum dúr, hljóta að brosa. Menn hljóta að minnast þess, hversu þessi hv, þm. barðist hart gegn því, að þinginu væri frestað fyrir 15. des. s.l., en það var þá, sem hin fyrri brbl. gengu úr gildi. Hv. 1. þm. Austf. vildi ekki fresta þinginu fyrir 15. des. vegna þess, að hann var viss um, að ef þingið sæti, mundi ekki verða samið um að endurreisa sex manna nefndina, þá mundi ekki nást samkomulag milli fulltrúa bænda og neytenda, þá mundi hann og þingflokkurinn hafa betri aðstöðu til þess að flækjast fyrir og spilla fyrir þessu máli en ef þingið væri farið heim. Það er rétt að minnast þess, að fulltrúar bænda í framleiðsluráði höfðu ónæði af þessum hv. þm., á meðan á samningunum stóð, vegna þess að hv. 1. þm. Austf. hafði áhyggjur af því, ef samkomulag næðist. Það var ekki ástæða til þess að vera að greiða fyrir þessu samkomulagi, vegna þess að málið var erfitt innan stjórnarherbúðanna og átti að áliti 1. þm. Austf. að verða púðurtunna í stjórnarherbúðunum. Það er talsverð hreysti að koma hér nú og tala eins og þessi hv. þm. gerði hér áðan, — það er mikil hræsni.

Það hafa margir brosað að því, hversu Tíminn var fljótur að snúa við blaðinu, þegar ljóst var, að til samkomulags var að draga milli þeirra aðila, sem voru að semja um málið. Tíminn sneri við blaðinu á einni nóttu, þegar ljóst var, að það var að verða samkomulag, og þá var um að gera að þakka Framsfl., að það skyldi takast. En það brostu margir, þegar blaðinu var snúið svo snöggt við, alveg eins og þegar sama blað, Tíminn, letraði með feitri fyrirsögn: Fyrir harða baráttu Framsfl. hefur nú tekizt að útvega 15 millj. kr. í húsbyggingarsjóð ríkisins. — Ja, þeir eru valdamenn, framsóknarmenn, þegar þeir eru farnir úr valdastólunum. Þá kveður að þeim. Þá koma þeir málunum fram. En á meðan þeir sitja í valdastólunum og hafa ráðin, kveður minna að þeim. Svona framkoma er brosleg.

Ég vil enn endurtaka þakkir til þeirra allra, sem unnu að samkomulaginu, þeirra manna, sem voru í samninganefndinni, og einnig annarra manna, sem höfðu góð áhrif á samningana og unnu að því, að samkomulag náðist. Það er áreiðanlega gott spor, bæði fyrir bændur og neytendur, að það skyldi takast.