01.02.1960
Neðri deild: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1431 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

41. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Eysteinn Jónsson:

Hæstv. landbrh. sagði, að þegar efnahagsmálafrv. ríkisstjórnarinnar kæmi fram, yrði framleiðsluráði falið að reikna, hvað útflutningsuppbætur þyrftu að vera samkv. samkomulagi, sem gert var og staðfest verður í 9. gr. þessara laga, ef þau verða samþ. hér á hv. Alþingi, og siðan mundi nauðsynleg fjárhæð verða sett á fjárlögin. Þessa yfirlýsingu tel ég alveg fullnægjandi af hendi hæstv. ráðh. og vil ekki segja neitt orð í þá átt að gera ráð fyrir því, að meiningin sé að skjóta sér undan berum lagaákvæðum, enda mætti nú fyrr rota en dauðrota. Og við ýmsu gætu menn nú búizt, en tæplega því. Skal ég því ekki vera að finna að þessu, þó að það sé dálítið einkennilegt, að efnahagsmálafrv. þurfi endilega að koma fram, til þess að þessi liður sé reiknaður, því að vitanlega lætur hæstv. ríkisstj. reikna alla hugsanlega liði, á meðan á sjálfum undirbúningnum stendur. Og mér þykir ólíklegt annað en hæstv. landbrh. sé búinn að láta reikna þetta dæmi eins og öll önnur dæmi, sem eru vitanlega reiknuð vikum saman, á meðan verið er að skoða þessi mál, af trúnaðarmönnum ríkisstj. En hann um það auðvitað, hvenær hann vill segja frá því, hver niðurstaðan er í þessu, og er ekki ástæða til að eyða fleiri orðum að því. Ég vildi aðeins fá það hreint fram, að hæstv. ráðherra myndi fullkomlega eftir þessu ákvæði og það yrði tekið með í reikninginn.

Þá sagði hæstv. ráðh., að það væri leiðinlegt að heyra, að ég væri að tala um þennan nýja anda, sem hefði hafið sig á loft í landbúnaðarmálum, þegar núv. valdasamsteypa kom til greina, og einkennilegt, að ég skyldi kjósa að ræða þessi mál, þar sem þetta hefði allt verið í ólestri, þegar Framsfl. hefði haft aðalábyrgð á málefnum bændastéttarinnar, og var ráðh. meira en að gefa í skyn, jafnvel fullyrða, að nú ætti að ganga haganlegar frá ýmsu en þá hefði verið gert, bændanna vegna, og það væri fyrir áhrif frá honum og öðrum, sem slíkt yrði. Sérstaklega nefndi hann, að nú væri gert ráð fyrir því að endurskoða fjórum sinnum á ári landbúnaðarverðlagið að takmörkuðu leyti a.m.k., en það hefði ekki áður verið. Ég vil svara hæstv. landbrh. með því að minna hann á þá staðreynd, að þegar fyrrv. ríkisstj., — þar með á ég ekki við Alþfl: stjórnina, því að mér er nú tamt að lita á hana sem eins konar lið í þessari stjórn, sem núna er, og finnst tæpast taka því að tala um hana sem sérstaka ríkisstj., þó verður kannske að gera það, og þá verður að segja, að þegar næstsiðasta ríkisstjórn beitti sér fyrir efnahagslöggjöf 1958, var hún borin undir Stéttarsamband bænda, og sá vitnisburður var gefinn löggjöfinni af hendi stjórnar Stéttarsambands bænda, þ. á m, af sjálfstæðismanni, að í þeirri löggjöf væri alveg hliðstætt búið að bændum og öðrum stéttum í landinu. Sá vitnisburður kom þá, og hann er býsna þýðingarmikill í þessum málum öllum, sá vitnisburður, því að hann sýnir nokkuð, hvernig framsóknarmenn vinna að þessum málum. En þegar efnahagsmálafrv. nýju valdasamsteypunnar í fyrravetur var borið undir Stéttarsambandið, varð það að taka upp harðsnúna baráttu, vegna þess að í því frv. var bændum ætlaður í þremur atriðum a.m.k. annar og minni réttur en öðrum stéttum. Það var þessi munur. Það var þannig, sem hinn nýi andi hafði komið fram .í því frv. Og eitt atriðið var, að þá var tekinn upp sá háttur, sem alls ekki hafði áður verið, að framleiðendur víð sjóinn fengju leiðréttingu á verðlagi sínu, ef vísitala hækkaði, en landbúnaðarframleiðendum var alls ekki ætlaður hliðstæður réttur í frv. En það var fyrir baráttu Stéttarsambandsins og Framsfl., að þetta var nokkuð leiðrétt, þó að ekki fengist full leiðrétting í þessu efni í þeirri löggjöf.

Þannig snýr hæstv. landbrh. þessu alveg við. Bændur bjuggu við sama rétt og aðrir áður, en undireins og hin nýja valdasamsteypa tók við, var farið að snúa við blaðinu, og þetta átti vitanlega alls ekki að vera nema byrjunin, því að næsta skrefið átti að vera það að stöðva verðlag á landbúnaðarafurðum, þó að annað hækkaði, og halda bændum niðri. Það átti að taka upp, eins og einn ágætur maður hefur sagt í blaðagrein, nýlendustefnu gagnvart landbúnaðinum, og brbl. voru þannig hugsuð.

Nú er hæstv. landbrh. að finna að því, að ég segi, að núv. valdasamsteypa hafi guggnað á brbl. og þeirri stefnu, sem þar kom fram, og fleygt henni á haug fyrir baráttu Framsfl. og Stéttarsambandsins. Og lætur ráðherra í það skina, að þetta séu getsakir einar, að það séu afleiðingar eða uppskera af þessari baráttu, og að þeir hafi ekki treyst sér til þess að halda þessari stefnu til streitu. En ég segi: Hver efast um, að þannig er þessu varið, þó að hæstv. landbrh. sé að gefa svona alveg marklausar yfirlýsingar í aðra átt? Hverjum dettur það í hug, að Sjálfstfl. hefði ekki sagt það skýrt og skorinort fyrir mörgum mánuðum, að hann ætlaði að standa á þeirri stefnu í verðlagsmálum landbúnaðarins, sem var í framleiðsluráðslögunum, ef hann hefði þá verið búinn að hugsa sér að gera það? Vitanlega hefði flokkurinn sagt það strax, og hann hefði lýst því greinilega yfir allan tímann, að það væri þetta, sem hann ætlaði að standa á, og hann ætlaði að standa með Stéttarsambandinu í þessu tilliti. En það gerði Sjálfstfl. ekki, og hann tók á sig ámæli og máske nokkurt tjón, vegna þess að hann sagði þetta ekki. Og af hverju sagði hann það ekki? Af því að hann ætlaði sér ekki að gera það. Hann var að þreifa fyrir sér, hvað óhætt væri að fara, og ætlaði sér ekki að innleiða á nýjan leik sama hátt í verðlagningarmálum og áður var, áður en brbl. komu til greina. Ef hann hefði ætlað sér það, hefði hann vitaskuld lýst því hreinlega yfir. En það kom aldrei neitt meira en aðeins það eitt lengst, að hann væri á móti brbl. Hver efast um þetta samhengi? Enginn auðvitað, sem hugleiðir þessi mál. Þess vegna er það vitanlega sízt ofsagt, að sá árangur, sem þarna hefur náðst, er hreinlega ávöxtur af þeirri baráttu, sem háð hefur verið, sumpart af Stéttarsambandinu og sumpart af Framsfl. Um það efast heldur enginn maður, sem þessum málum er kunnugur.

Þá kom hæstv. ráðh. loks með það atriði, að Framsfl. hefði viljað spilla því, að efnislegt samkomulag næðist á þá lund, sem hér liggur fyrir, og sagði, að fulltrúar bænda í framleiðsluráði og samningamennirnir hefðu orðið fyrir ónæði af framsóknarmönnum, sennilega „svokölluðum“ leiðtogum Framsfl., í sambandi við þessi mál. Þeir hefðu verið áð vinna að því öllum árum, að því er manni skildist, að koma í veg fyrir það, að samkomulag gæti náðst. Vitanlega veit hæstv, landbrh., að þetta er hreinn tilbúningur, uppspuni frá rótum. En hvað varðar hann um það? Hvaða máli skiptir það fyrir hann? Hann þarf að koma því áleiðis, ef einhver skyldi trúa því, að leiðtogar Framsfl, hafi verið að reyna að vinna á móti því, að samkomulag næðist í þessum efnum, en síðan snúið við blaðinu, þegar þeir sáu, að ekki var hægt að standa á móti því, að það yrði samkomulag. Þá varðar hann ekkert um það; þó að þetta sé algerlega tilhæfulaust.

En hæstv. landbrh, er kannske að einu leyti nokkur vorkunn, og það er vegna þess, að hann á heima í húsi sjálfstæðismanna, hann er í Sjálfstfl., og við vitum svo sem hér um bil, hvernig Sjálfstfl. hefði unnið að þessum málum, ef hann hefði haft stöðu Framsfl. Sjálfstfl. hefði náttúrlega ekki kunnað neina aðra leið en þá að láta blaðakost sinn reyna af öllum mætti að koma í veg fyrir samkomulag, þegar verið var að semja. Og leiðtogar Sjálfstfl. hefðu sennilega lítið annað gert en að reyna að spilla samkomulagi, ef draga má ályktanir af þeirri reynslu um Sjálfstfl., sem kunn varð, þegar hann var í stjórnarandstöðu. Þá kunni hann engar aðrar leiðir en þessar, engar aðrar leiðir en þær að reyna að halda uppi sem mestum illindum og ófriði í þjóðfélaginu, alveg gersamlega án tillits til þess, hvort hann var með því að vinna í rétta stefnu málefnalega eða ranga stefnu málefnalega. Það skipti engu máli. Það var bara eitt, sem skipti máli, og það var, að ekki gæti orðið lag á neinu, að efnahagsmálaráðstafanir gætu farið úr böndunum og ófriður gæti orðið sem mestur og allt í sem mestum ólestri. Þetta var sjónarmið Sjálfstfl., og út frá þessu sjónarmiði var unnið. Þess vegna var það t.d., að þeir unnu að því af öllum kröftum að reyna að koma úr böndunum efnahagslöggjöfinni 1958 með því að ganga svo langt að láta t.d. atvinnurekendur, sem þeir réðu yfir, bjóða fram kauphækkanir, ef ekki náðist nógu skjótur árangur í einstökum samtökum með því að láta handlangara flokksins í félögunum tala fyrir hækkunarbaráttunni. Það voru þessar starfsaðferðir, sem Sjálfstfl. notaði, og þetta eru einu starfsaðferðirnar, sem Sjálfstfl. kann í stjórnarandstöðu. En þetta eru starfsaðferðir, sem Framsfl. hefur aldrei tamið sér og mun aldrei temja sér.

Framsfl. álítur það í þessu falli t.d. algerlega mál Stéttarsambandsins, en ekki Framsfl. neitt viðkomandi, hvað Stéttarsambandið telur heppilegt að fallast á vegna bændastéttarinnar. Það álítum við, að sé Framsfl. gersamlega óviðkomandi með öllu. En á hinn bóginn mundum við telja, að Framsfl. hefði talsvert mikla skyldu til þess að standa með sanngjarnri afstöðu Stéttarsambandsins. En okkur hefur aldrei komið það til hugar að reyna að ráða fyrir forráðamönnum Stéttarsambandsins í þessu efni eða dæma fyrir þá, hvað væri heppilegt fyrir bændastéttina að fallast á og hvað heppilegt að fallast ekki á. Þennan hugsunarhátt skilur hæstv. landbrh. sennilega alls ekki. Ég býst við, að hann skilji alls ekki þennan hugsunarhátt, það sé honum gersamlega framandi, að svona hugsunarháttur sé til. En hér er líka um alveg gerólík sjónarmið að ræða, alveg gerólík þjóðfélagsviðhorf. Að baki afstöðu okkar í Framsfl. býr sá skilningur, að í stéttarfélögunum, bæði launþegasamtökunum og þar, sem framleiðendur koma saman, eigi að afgreiða málin, ekki frá pólitísku sjónarmiði, heldur frá stéttarlegu sjónarmiði, reyna að finna, hvað hagfelldast er frá stéttarlegu sjónarmiði. Og þessi skoðun byggist á þeim skilningi, að þegar til lengdar lætur, muni það fara svo, ef af viðsýni er á málin litíð í stéttarsamtökunum, að það, sem er bezt fyrir stéttirnar, verði, þegar til lengdar lætur, líka bezt fyrir þjóðfélagið, ef málin eru skoðuð með hófsemi og víðsýni í þessum samtökum.

Út frá þessu sjónarmiði og þessum skilningi, sem ég var nú að skýra, hafði Framsfl. engin afskipti af þessum samningum, og ég lýsi það tilhæfulaust með öllu, sem hæstv. landbrh. sagði hér um það efni. Þvert á móti vil ég lýsa því hér yfir, að það gladdi mig alveg sérstaklega, að það skyldi nást þetta samkomulag, sem varð. Og það var af tveimur ástæðum: Annars vegar vegna þess, að þetta samkomulag er sigur fyrir bændastéttina og henni í hag og auk þess gott neytendum. Hins vegar vegna þess, að með þessu guggnaði ríkisstj. og valdasamsteypan, sem að baki henni stendur, guggnaði á ofsóknarstefnunni gagnvart landbúnaðinum, — það er enginn smáræðissigur, sem í því felst, — og á hinn bóginn náðist samkomulag á milli neytenda og framleiðenda, og það er heldur ekkert smámál, að þannig skyldi fara. Það er þess vegna alveg sérstök ástæða til þess að fagna yfir því, að þessi niðurstaða skyldi verða. En hún hefði vitaskuld aldrei orðið nema fyrir harða baráttu. Það sjáum við gleggst á því, hvernig viðhorf sjálfstæðismanna, sem þarna segja nú lokaorðið, hefur verið að smábreytast í þessu máli. Þeir hafa í raun og veru hörfað undan stig af stigi, unz þessi árangur náðist, sem nú liggur fyrir.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta frekar. En ég vildi aðeins leiðrétta það, sem kom fram hjá hæstv. landbrh., og ég vil vænta þess, að það, sem hann sagði um þetta, sé að verulegu leyti byggt á því, að hann skilji ekki þann hugsunarhátt, sem liggur að baki afstöðu okkar framsóknarmanna í þessu efni.

En hann verður að reyna að skilja, að það hugsa ekki allir menn um þessi efni eins og sjálfstæðismenn gera og hafa gert, og það hafa ekki heldur allir menn í hyggju að vinna eins og þeir hafa unnið að þessum málum — og ég segi: sem betur fer.