01.02.1960
Neðri deild: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1435 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

41. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nokkuð erfitt að skilja hugsanagang hv. 1. þm. Austf. (EystJ), því að framkoma hans og sumra hans hv. flokksmanna hér í þinginu fyrir þingfrestunina gaf það beinlínis til kynna, að það, sem hann nú var að segja, og það, sem hann nú var að lýsa, er algerlega rangt. Það þarf ekki að setja sig svo mjög inn í hugsunarferli þessa manns, a.m.k. ekki fyrir þá, sem hafa hann fyrir framan sig. Það er hægt að sjá á svipnum, hvað hann ætlar sér, og ég er dálítið hissa á því, að þessi hv. þm. skuli vera að reyna að afsaka það hér og telja hv. þingheimi trú um, að Framsfl. hér á þingi hafi fagnað því, að ríkisstj. tókst að leysa þennan hnút, sem virtist vera torleysanlegur og gat valdið ósamkomulagi innan stjórnarinnar. Það er ekki eðlilegt að vitna í einkasamtöl, og það skal ég ekki gera. En það er enginn vafi á því, að það væri hægt að leiða fram vitni að því, hvernig sumum hv. Framsóknarforingjunum varð við, þegar vonin brást um það, að brbl. yrðu stjórninni að fótakefli.

Það er alveg ástæðulaust fyrir hv. þm. að vera hér með þetta hræsnistal. Það má vera, að honum finnist það eitthvað áhrifaríkara að láta það, sem hann hefur talað hér, koma í Tímanum heldur en skrifa það sérstaklega. Ég efast ekki um, að þessu tali hans hér er sérstaklega ætlað að verða birt í Tímanum og fá einhverja af lesendum blaðsins til þess að trúa því, að hér hafi alltaf verið um einlægni að ræða af hendi Framsfl.

Hv. þm. talar um það, að Sjálfstfl. hafi ætlað að svíkja bændur, — Sjálfstfl, ætlaði að svíkja bændur, og það er reynslan af þessum flokki á undanförnum árum, sem hefur sannfært mig um það, — að hann segir. Það væri þá ekki nema eðlilegt að fletta, þó að ekki væri nema fáum blöðum upp í sögunni, sem sýna reynsluna, og þarf ekki að nefna mörg dæmi, sem afsanna það, sem hv. þm. fullyrti hér áðan, að Sjálfstfl. hafi oftast eða jafnan unnið gegn hagsmunum bænda.

Ég held, að það þurfi ekki að vera fróðir menn í þingsögunni, sem geta sannað það, að bændum hefur jafnan vegnað vel, þegar áhrifa Sjálfstfl. hefur gætt. En áhrifa Sjálfstfl. hefur jafnan gætt mest, þegar hann hefur verið í stjórn. Hv. 1. þm. Austf. heldur því hins vegar fram, að Framsfl. sé áhrifaríkastur, þegar hann er ekki í stjórn, og það er þess vegna, sem hann leitast við að þakka Framsfl. það, sem gert er fyrir atbeina Sjálfstfl., þegar Framsfl. er utan stjórnar, en Sjálfstfl. við völd. Ég hef t.d. heyrt framsóknarmenn þakka sér það, þegar verðlagning landbúnaðarvaranna var leiðrétt á árinu 1942, þegar Framsfl. var utan stjórnar. Ég hef heyrt framsóknarmenn þakka sér það, þegar raforkulögin voru sett á árinu 1946, og þakka sér það sérstaklega vegna þess, að þeir voru þá utan stjórnar. Ég hef einnig heyrt sömu menn þakka Framsfl. fyrir lögin um landnám, nýbýli og endurbyggingar í sveitum, sem sett voru á árinu 1946, lög, sem hafa tryggt landbúnaðinum þær framkvæmdir, sem orðið hafa síðan, og eru undirstaðan að framförum í sveitum, bæði í ræktun og byggingum. Þeir hafa sérstaklega þakkað sér þessi lög, m.a. vegna þess, að þeir voru utan stjórnar, þegar þau voru sett. Og nú er ég ekki í nokkrum vafa um það, enda máttum við gjarnan heyra það á mæli hv. 1. þm. Austf. hér áðan, að hann mun þakka sér og sinum flokki það, að bændur fá útflutningsuppbætur á landbúnaðarvörurnar, þannig að þeir þurfi nú ekki lengur að bera hallann af útflutningnum. En það hafa þeir gert, þegar Framsfl. hefur verið í stjórn, og þá hefur Framsfl. aldrei imprað á því, að þetta þyrfti að lagfæra. Ekki er ég í nokkrum vafa um það, að hv. 1. þm. Austf. og framsóknarmenn munu þakka sér það, þegar nú verður sett í löggjöf, að hækkun á rekstrarvörum landbúnaðarvara skuli koma inn í grundvöllinn jafnóðum, þótt þeir, á meðan þeir fóru með völd, liðu það, að bændur fengju enga hækkun af þessum ástæðum nema einu sinni á ári. Þeir munu þakka sér þetta núna vegna þess, að þeir eru ekki í stjórn og að það eru aðrir, sem setja þetta ákvæði inn í lögin. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, að þeir munu með miklum hávaða og stærilæti þakka sér það, að nú er komið í lög, að það má hækka verðlag landbúnaðarvara ársfjórðungslega, ef grunnkaup hækkar og vísitalan hækkar. Þetta ákvæði var sett í lög, þegar framsóknarmenn voru ekki lengur í stjórn, en á meðan þeir voru í stjórn, létu þeir sér nægja, að það væri ekki tekið tillit til þessara hækkana nema einu sinni á ári.

Þannig er nú málflutningur þessara manna, og það er ætlazt til, að þeir, sem á hlýða, taki þetta alvarlega. Það er mikið traust á dómgreindarleysi þeirra, sem lesa Tímann, ef ætlazt er til, að þeir sjái ekki í gegnum þetta, því að þeir munu vera fáir, sem trúa því, að um leið og einn flokkur fer frá völdum, fái hann fyrst aðstöðu til þess að koma málum fram, áhugamálum og hagsmunamálum þeirra, sem flokkurinn telur sig vilja berjast fyrir. En það eru þessi öfugmæli, sem við höfum oft orðið að hlusta á hjá hv. 1. þm. Austf. og ýmsum fleiri hv. framsóknarmönnum hér í þinginu.

Ég held, að það sé ekki ástæða til að vera að nefna fleiri dæmi um þessi öfugmæli, og ég get þess vegna látíð máli mínu lokið. En ég vil að lokum aðeins minna á það, að framsóknarmenn vildu ekki, að þinginu yrði frestað fyrir 15. des., vegna þess að þeir töldu nokkurn veginn öruggt, að ef þingið sætí, mundi ekki nást samkomulag um þessi mál, að þá gætu þeir þvælzt fyrir og komið í veg fyrir samkomulag. Það getur vel verið, að þetta sé beiskur sannleikur fyrir hv. 1. þm. Austf. að hlusta á, en þeir munu vera fáir, sem vita það ekki, að þetta er þannig, þetta er nú svona, og það er ekki hægt að bæta úr því með því að setja hér upp einhvern hræsnis- og sakleysissvip og segja: Við fögnuðum því mjög, að þessir erfiðleikar stjórnarfiokkanna voru leystir og að þeir eru úr sögunni.