01.02.1960
Neðri deild: 20. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1437 í B-deild Alþingistíðinda. (334)

41. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem við höfum verið að ræða í dag, er byggt á samkomulagi og ekki síður 3. mgr. 3. gr. laganna. Það er þess vegna engin ástæða til þess að ætla, að fulltrúar bænda eða fulltrúar neytenda neiti því að þessu sinni að skipa yfirdóminn, því að ef það væri, yrði samkomulagið brotið.

Um það, hvort ríkisstj. hefði heimild til þess að skipa menn í dóminn, ef annaðhvort fulltrúar bænda eða fulltrúar neytenda neituðu að skipa hann, vil ég aðeins upplýsa það, að þetta frv. hér gefur ekki heimild til þess, og tel ég það mjög óæskilegt, ef til þess þyrfti að grípa að verðleggja landbúnaðarvörurnar með þeim hætti, vegna þess að þá væri það ekki byggt á samkomulagsgrundvelli. En að þessu sinni er hreinn óþarfi að gera ráð fyrir því, að annar hvor aðilinn neiti að skipa mann í dóminn, vegna þess að málið er byggt á samkomulagi, — samkomulagi, sem engin ástæða er til þess að ætla að ekki verði haldið.