16.02.1960
Neðri deild: 32. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1440 í B-deild Alþingistíðinda. (339)

41. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það kom til tals, þegar verið var að gefa út þessi brbl., að það færi betur á því að fella þau inn í framleiðsluráðslögin, og það var einnig um það talað, að það mætti vel gerast hér í hv. Alþingi undir meðferð málsins. Og það er rétt, sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér áðan, að það færi betur á því, lögin væru betri í sniðum með því að fella þetta saman án þess að breyta þar nokkru að efni, og hv. landbn. hefur enn tækifæri til þess að gera þetta, ef samkomulag verður um það. Ég vil aðeins benda á, að ég get tekið undir það, sem síðasti ræðumaður sagði, að þessu leyti, að þetta færi betur í sniðum, ef það væri fellt þannig saman.