30.11.1959
Efri deild: 5. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 33 í B-deild Alþingistíðinda. (34)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) að bera fram brtt. við það frv., sem hér er til umr., og vil ég gera nokkra frekari grein fyrir þeirri brtt.

Það er nokkurn veginn ljóst, að hæstv. ríkisstj. ætlar nú á óvenjulegan hátt að fresta fundum Alþingis af einhverjum annarlegum ástæðum, sem hafa ekki þegar fengizt upplýstar. Hinir nýkjörnu hv. þm. eru að dómi hæstv. ríkisstj. og hennar aðstandenda eða stuðningsflokka kjörnir eftir miklu réttlátari leiðum en nokkru sinni hefur áður þekkzt við kosningar í landi voru, eftir því sem prédikað hefur verið á undanförnum mánuðum. Og þetta Alþingi er að þeirra hinna sömu manna dómi einnig talið gefa miklu réttarí mynd af þjóðarviljanum en nokkurt Alþingi, er saman hefur komið til þessa, að því er mér hefur skilizt. En undarlegir hlutir hafa skeð. Nú vill hæstv. ríkisstj. keppast við að senda þetta réttláta þing heim og gefa því frí frá störfum, og það er nokkurn veginn sama og hæstv. ríkisstj. segði: Mig varðar ekkert um þjóðarviljann. Ég geri eingöngu það, sem mér sýnist.

Það hefur margt skeð einkennilegt í stjórnmálum á þessu ári, og hæstv. fyrrv. ríkisstj. gaf út hin svokölluðu brbl. um landbúnaðarverðið þann 19. sept. s.l., og vil ég gera nokkra grein fyrir þeim lögum, til þess að menn geti áttað sig á því, hvernig þau í raun og veru eru. Þar segir í úrskurði forseta Íslands, með leyfi hæstv. forseta:

„Landbúnaðarráðherra hefur tjáð mér, að vegna sérstaks ágreinings fulltrúa neytenda og framleiðenda hafi ekki tekizt að ákveða söluverð landbúnaðarafurða á innlendum markaði á þann hátt, sem lög nr. 94/1947, um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl., gera ráð fyrir. Landbrh. hefur enn fremur tjáð mér, að til þess að tryggja efnahagsjafnvægi og atvinnuöryggi í landinu, þangað til Alþingi getur fjallað um þessi mál að afstöðnum kosningum þeim, sem fram eiga að fara 25. og 26. okt. n.k., og meðan kaupgjald í landinu helzt óbreytt, sé nauðsynlegt, að verð landbúnaðarafurða hækki ekki. Fyrir því eru hér með sett brbl., samkv. 28. gr. stjórnarskrárinnar, á þessa leið:

1. gr. Heildsölu- og smásöluverð það á sauðfjárafurðum, mjólk og mjólkurvörum, nautgripakjöti og hrossakjöti, sem kom til framkvæmda 1. marz 1959 samkv. auglýsingu framleiðsluráðs landbúnaðarins 28. febr. 1959, skal gilda óbreytt á tímabilinu 1. sept. til 15. des. 1959.

Sumarverð á kartöflum skal niður falla eigi síðar en 25. sept. 1959. Á tímabilinu frá því að niðurfelling sumarverðs á sér stað og til 15. des. 1959 skal gilda óbreytt heildsölu- og smásöluverð það á kartöflum, er kom til framkvæmda 1. marz 1959, samkv. auglýsingu framleiðsluráðs landbúnaðarins 28. febr. 1959.

Sumarverð á gulrófum skal niður falla eigi síðar en 25. sept. 1959. Á tímabilinu frá því að niðurfelling á sér stað og til 15. des. 1959 skal gilda óbreytt heildsölu- og smásöluverð það á gulrófum, er kom til framkvæmda 22. sept. 1958, samkv. auglýsingu framleiðsluráðs landbúnaðarins 21. sept. 1958.

Heildsölu- og smásöluverð það á eggjum, er kom til framkvæmda 1. apríl 1959 samkvæmt auglýsingu framleiðsluráðs landbúnaðarins 31. marz 1959, skal gilda óbreytt á tímabilinu 1. sept. til 15. des. 1959.

Útsöluverð mjólkur í pappaumbúðum má vera 20 aurum hærra hver lítri heldur en útsöluverð mjólkur á flösku.

2. gr. Fara skal með mál út af brotum gegn lögum þessum að hætti opinberra mála, og varða brot sektum allt að kr. 500 000,00, nema þyngri refsing liggi við samkv. öðrum lögum.

3. gr. Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Eins og ég las upp áðan og fram kemur í úrskurði frá forseta Íslands, þá segir, að Alþingi hið nýja, sem saman komi eftir kosningarnar 25. og 26. okt., skuli fjalla um þessi mál. En enn þá hefur ekki bólað nokkurn hlut á þessari löggjöf og hún ekki verið lögð fyrir Alþingi. Það er því mjög trúlegt, að þingmönnum gefist ekki kostur þess að segja sitt álit um þessi lög nú fyrir þingfrestun, sem þegar virðist ákveðin. Það er því eitt af því, sem mælir með því, að sú brtt., sem ég flyt hér, sé lögð fram og þingmönnum gefist kostur á þann hátt að taka afstöðu til málsins. En svo segir í lögum um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu, verðmiðlun og sölu á landbúnaðarvörum o.fl., með leyfi hæstv. forseta, það er 4. gr. eða II, kafli, um verðskráningu:

„Söluverð á innlendum markaði skal miðast við það, að heildartekjur þeirra, er landbúnað stunda, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. — Hagstofu Íslands er skylt að afla nauðsynlegra gagna fyrir 1. júlí ár hvert um framleiðslukostnað landbúnaðarvara og tekjur annarra vinnandi stétta á sama tíma.

5. gr. Við útreikning framleiðslukostnaðar og verðlagningu á söluvörum landbúnaðarins á innlendum markaði í heildsölu og smásölu skal samkvæmt ákvæðum 4. gr. byggt á verðgrundvelli, sem fenginn er með samkomulagi milli þriggja fulltrúa, sem tilnefndir eru af stjórn Stéttarsambands bænda, og þriggja fulltrúa frá þessum félagssamtökum neytenda: Alþýðusambandi Íslands, Landssambandi iðnaðarmanna, Sjómannafélagi Reykjavíkur. — Nefndinni til aðstoðar eru hagstofustjóri og formaður búreikningaskrifstofu landbúnaðarins. — Verði samkomulag með öllum nm., er það bindandi. — Nú næst ekki samkomulag um einhver atriði snertandi útreikning framleiðslukostnaðar eða verðlagningu landbúnaðarvara, og skal þá vísa þeim atriðum, er ágreiningi valda, til sérstakrar yfirnefndar. Yfirnefnd þessi skal skipuð 3 mönnum, einum tilnefndum af fulltrúum Stéttarsambands bænda, öðrum af fulltrúum neytenda og hagstofustjóra sem oddamanni. — Fellir hún fullnaðarúrskurð um ágreiningsmálið. — Ákvæðin um yfirnefnd gilda, á meðan greitt er niður með ríkisfé verð landbúnaðarafurða eða ef útflutningsuppbætur eru greiddar á þær.

6. gr. Verðlagsgrundvöllur sá, er um ræðir í 4.–5. gr., svo og verðlagning söluvaranna, skal ákveðinn í fyrsta skipti fyrir 1. ágúst 1947 og gildir eftir það, þar til annar verðlagsgrundvöllur er fundinn. Fulltrúar framleiðenda og neytenda geta hvor um sig óskað endurskoðunar á verðlagsgrundvellinum. Ef ósk fulltrúa um endurskoðun er komin til gagnaðila fyrir lök febrúarmánaðar það ár, sem óskað er eftir að endurskoðun verði látin fara fram, skal hún þegar tekin til greina. Við endurskoðun þessa skal fylgja fyrirmælum 4. og 5, gr., og skal henni lokið svo tímanlega, að söluverð á landbúnaðarvörum verði ákveðið í samræmi við hana fyrir 1. ágúst sama ár. — Hagstofa Íslands reiknar árlega framleiðslukostnað landbúnaðarvara eða vísitölu hans á grundvelli áðurgreinds samkomulags eða tillagna yfirnefndar, sbr. 5. gr., og skal framleiðsluráð miða verðlagning á landbúnaðarvörum árlega við þann útreikning. — Hið nýja verðlag tekur gildi 1. ágúst ár hvert. Enginn má kaupa eða selja búfjárafurðir eða garðávexti, sem verðskráðir eru samkv. lögum þessum, fyrir annað verð en það, sem ákveðið er á hverjum stað og tíma.“

Frá því að þessi lög öðluðust gildi árið 1947, hefur verðskráning farið fram samkv. þeim, og hafi ekki náðst samkomulag, þá hefur gerðardómur skorið úr, en það hefur komið fyrir einstaka sinnum. Stundum hefur hvorugur samningsaðila kært sig um að segja upp samningum, og hefur þá gamli grundvöllurinn gilt áfram með þeim breytingum einum, sem orðið hafa út frá útreikningi hagstofunnar samkvæmt breytingum á verðlagi almennt í landinu.

Árið 1958 sögðu samningsaðilar upp verðlagsgrundvelli þeim, sem gilti fyrir verðlagsárið 1958—59. Samkomulag náðist um verðlagsgrundvöllinn haustið 1958, en um þann grundvöll segir formaður Stéttarsambands bænda, Sverrir Gíslason, í búnaðarblaðinu Frey fyrir októbermánuð árið 1958, með leyfi hæstv. forseta, — þ.e. þegar verið var að ræða um grundvöllinn og verðákvörðunina:

„Á fyrstu fundum nefndarinnar lagði hagstofustjóri, Klemenz Tryggvason, fram verðlagsgrundvöll fyrra árs með þeim verðbreytingum, sem orðið höfðu á verðlagsárinu, frá 1. sept. 1957 til 1. sept. 1958, og hafði verðlagsgrundvöllurinn þá hækkað um 10.535%. Þá var og lögð fram skýrsla um tekjur hinna annarra vinnandi stétta. Skýrslan ber með sér, að tekjur hafa aðeins lækkað í Reykjavík, en hækkað í kaupstöðum og kauptúnum um 5.3–7.8%. Hagstofustjóri lagði og fram skýrslu um fjórar mismunandi stærðir búa, fundna eftir sömu reglu og 1957, þ.e. um framleiðslu og tilkostnað hjá búum af ákveðinni stærð, í 20 hreppum á mjólkurframleiðslusvæðum frá 768 bændum og 20 hreppum á kjötframleiðslusvæðum frá 595 bændum. Skýrslnanna verður nánar getið siðar.

Eftir gildistöku laga um útflutningssjóð o.fl. var verð mjólkur hækkað um rúma 11 aura til bóndans, og var það afleiðing af 5% kauphækkuninni, og rúma 8 aura fyrir auknum kostnaði, eða um 20 aura alls, til þess að mæta þeim kostnaði, sem leiddi af 5% kauphækkunum verkamanna, sem lögin heimiluðu.

Þegar samningar hófust um verðlagsgrundvöllinn, höfðu ýmsar stéttir verkamanna fengið kauphækkanir umfram þá 5% launahækkun, sem lögin um útflutningssjóð gerðu ráð fyrir. Var sú hækkun víðast hvar um 6%. Það var því fyrsta krafa fulltrúa framleiðenda, að kaupliður verðlagsgrundvallarins fengi þessa hækkun. Fulltrúar neytenda buðu hins vegar upp á 6% hækkun á tekjum bóndans og vildu um leið hækka kjötþungann á kind í 15 kg úr 14.40 kg á kind. Fulltrúar framleiðenda gerðu þá kröfu til þess, að fyrning véla væri hækkuð, að vextir hækkuðu og að kaupliðurinn allur hækkaði um 6%. Að lokum varð það að samkomulagi, að kaupliður verðlagsgrundvallarins hækkaði um 6% auk þeirra 5%, sem áður getur, og að kjötmagnið væri aukið úr 14.4 kg á fóðraða kind í 14.68, en það er þriggja ára meðaltalskjötþungi. Hafði þá verðlagsgrundvöllurinn hækkað um rúm 13%.“

Eins og þegar hefur verið lýst og ég hef lesið, var samkomulag um verðlagsgrundvöllinn haustið 1958, og fór því verðskráning fram samkv. þeim hækkunum, sem áður greinir þar. En nokkru eftir að samningar höfðu tekizt um verðlagsgrundvöll landbúnaðarafurða, hófust samningar við þau verkalýðsfélög í landinu, sem höfðu sagt upp samningum og áttu þá ósamið um kaup sitt. Og samkv. þeim samningum fengu t.d. Dagsbrúnarverkamenn í Reykjavík 9.5% hækkun, en í verðlagsgrundvelli landbúnaðarins var reiknað með, að þeir fengju aðeins 6% kauphækkun, svo að þarna skapaðist ósamræmi um 3.5%, sem þeir, er landbúnað stunduðu, fengu minna í kaup fyrir vinnu sína en hinir, sem aðra vinnu stunduðu í landinu.

Síðan leið nokkur tími, og ný ríkisstj. tók til starfa á degi heilags Þorláks fyrir tæpu ári. Þetta var minnihlutastjórn Alþfl., sem í öllum aðalmálum naut trausts, virðingar og ráðlegginga stærsta þingflokksins, Sjálfstfl. Þessi ríkisstj. boðaði einkum þrjú mál, sem hún taldi þjóðarnauðsyn að leysa fljótt af hendi, en þau voru: 1) að breyta kjördæmaskipun landsins, 2) að afgreiða hallalaus fjárlög og 3) að stöðva dýrtíðina í landinu.

Eitt af þessum þremur málum stóð hæstv. ríkisstj. við, og það var kjördæmabreytingin. En sannar fregnir hafa ekki enn þá fengizt, hvernig hin málin kunna að standa, þar sem engar upplýsingar hafa verið gefnar um þau, síðan Alþingi kom saman, og er óverjandi að senda þingið heim, án þess að slík skýrsla verði lögð fyrir Alþingi, eftir því sem hæstv. ríkisstj. kann bezt að vita um þessi mál. En sannleikurinn er sá, að lengi verður þjóðin ekki dulin efndanna á þessum tveim loforðum hæstv. fyrrv. ríkisstj., og hljóta þau að koma í dagsins ljós, áður en margir mánuðir líða, þó að reynt verði að dylja þau í fyrstu.

Nokkru eftir að þessi hæstv. ríkisstj. Emils Jónssonar tók til starfa, lagði ríkisstj. fram frv. á Alþingi um niðurfærslu verðlags, launa o.fl. Í sambandi við þá löggjöf fóru fram viðræður um verðlagsmál landbúnaðarins á milli framleiðsluráðsins og ríkisstj., og í grein, sem formaður Stéttarsambands bænda ritaði í aprílmánuði s.l., segir hann m.a., með leyfi hæstv. forseta, um þessi efni, — greinin skýrir þessar viðræður mjög vel:

„Framleiðsluráðsmenn töldu sig ekki hafa ástæðu til þess að bregða fæti fyrir þessa ráðstöfun ríkisstj., en bentu á, hvort ekki væri hægt að dreifa niðurgreiðslum á fleiri vöruflokka, og þá sérstaklega að athuga frekari möguleika á niðurgreiðslu á smjöri, sem væri dýr vara og óseljanleg úr landi. Þá lét ríkisstj. þess getið, að hún hefði fyrirhugað frekari aðgerðir í dýrtíðarmálunum, sem mundu koma landbúnaðinum við, þær lækkanir, sem mundu þýða 5.4% lækkun á kaupgjaldsliðverðlagsgrundvallarins. Þýðir það 3.3% lækkun á verðlagsgrundvellinum í heild. Framleiðsluráðsmenn bentu þegar á það, að við síðustu samninga um verðlagsgrundvöllinn, s.l. haust, hefði verið búizt við, að Dagsbrúnarverkamenn, sem þá áttu ósamið um kaup, mundu fá 6% kauphækkun, og var því samíð um þá hækkun á kaupgjaldslið verðlagsgrundvallarins, en endirinn var sá, að Dagsbrúnarverkamaðurinn fékk 9.5% hækkun. Það var því fyrsta krafa framleiðsluráðsmanna, að kaupliðurinn yrði hækkaður um 3.5%, svo að jöfnuður yrði á kaupi bænda og verkamanna. Að því loknu mundi framleiðsluráðið geta samþykkt samsvarandi lækkun á kaupgjaldsliðnum og kaupgjaldslækkun verkamanna.

Í sambandi við umr. um kaupgjaldsliðinn var rætt um að verðleggja landbúnaðarvörur oftar á ári eftir breytingum á vísítölu, t.d. þrisvar sinnum. Bændur og forsvarsmenn þeirra höfðu oft fundið til þess og enda kvartað undan því, að það væri ekki við það unandi, að þegar öll laun hækkuðu á þriggja mánaða fresti, eins og stundum hafði átt sér stað, þá stæðu laun bænda í stað. Enn fremur ræddu fulltrúar framleiðsluráðs um það, að þegar grunnkaupshækkanir ættu sér stað, ef til vill á miðju ári, yrðu bændur að bíða þeirrar hækkunar oft og tíðum í fleiri mánuði. Um þessi þrjú atriði urðu nokkrar umræður þá þegar við ríkisstj., og kom þá strax í ljós, að talin voru öll tormerki á að umreikna vinnuliðinn, en hins vegar mundi ríkisstj. fús til þess að athuga verðlagningu oftar á ári, enda hliðstæð ákvæði komin inn í samninga bátasjómanna og útgerðarmanna.

Framleiðsluráð tók mál þetta til meðferðar á allmörgum fundum á tímabilinu frá 10–30. janúar.

Þegar framleiðsluráðið hafði fengið frv. ríkisstj. til athugunar, þar sem m.a. var gert ráð fyrir lækkun á kaupgjaldslið verðlagsgrundvallarins, sem mundi nema um 5.4%, kom framleiðsluráð sér saman um að gera kröfu til þess, að þær breytingar yrðu gerðar á frv., sem felast í eftirfarandi ályktun í þrem liðum:

Framleiðsluráðið befur enn tekið til athugunar frv. ríkisstj. um niðurfærslu verðlags, launa o.fl. Eru það einkum eftirfarandi atriði, sem ráðið vill benda ríkisstj. og Alþingi á og það óskar að fáist leiðrétt á frv.:

1) Áður en ákveðin er niðurfærsla á verði landbúnaðarafurða, verði reiknað með þeirri grunnkaupshækkun, sem varð á hinu almenna verkamannakaupi í Reykjavík á s.l. hausti umfram það, sem gert var ráð fyrir í verðlagsgrundvellinum, þ.e. 9.5% í stað 6% á launaliði grundvallarins, sem er um 2% á grundvellinum í heild.

2) Ef sú regla yrði látin gilda yfirleitt, að kaupgjald og afurðaverð (sjávarafurðir, landbúnaðarafurðir) breytist ekki vegna vísitölubreytinga, nema vísitalan hækki eða lækki um 2 stig eða meira í stað 5 stiga, gæti framleiðsluráð fallizt á það fyrir sitt leyti, að öðrum kosti verði engar slíkar takmarkanir settar á breytingar afurðaverðs.

3) Breyta skuli verði landbúnaðarvara ársfjórðungslega til samræmis, ef breytingar eiga sér stað á grunnkaupi almennra verkamanna í Reykjavík.

Eru þessar ábendingar um breytingar í samræmi við viðtöl þau, sem framleiðsluráð og fulltrúar þess hafa átt við ríkisstj. að undanförnu. Þó skal á það bent, að því er varðar 2. tölulið, að í frv. er gert ráð fyrir útreikningi á vísitölu út frá öðrum grunni en framleiðsluráði var kunnugt um, þegar það ræddi við ríkisstj.

Nokkrir menn úr framleiðsluráði munu hafa rætt við ríkisstj. um þessar till., og að þeim viðræðum loknum voru till. sendar til fjhn. Nd. Afdrif till. á Alþingi urðu þau, að fyrsti liður þeirra var felldur í Nd. af stjórnarliðinu og Alþb., en hinir liðirnir báðir samþ. í aðalatriðum, og í Ed. féll fyrsti liðurinn með jöfnum atkv.

Það er ástæða til þess líka að skýra frekar frá þátttöku og áliti Stéttarsambands bænda og framleiðsluráðsins í þessum málum og hvað framleiðsluráðið og stjórn Stéttarsambands bænda hafa lagt fyrir þá ríkisstj., sem að völdum sat þar til nú fyrir skömmu.

Þegar hið nýja vísitölukerfi öðlaðist gildi hinn 1. marz s.l., ritaði framleiðsluráðið ríkisstj. svo hljóðandi bréf, með leyfi hæstv. forseta:

„Í tilefni af því, að ríkisstj. hefur enn á ný ákveðið auknar niðurgreiðslur á kjöti og mjólk frá 1. marz n.k., vill framleiðsluráð taka fram, að það telur frá sjónarmiði framleiðenda mjög varhugavert, hve langt er gengið í tiltölulega einhliða niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum, er orðið geti landbúnaðinum hættulegt síðar, þegar að því kemur, að dregið yrði úr þeim að meira eða minna leyti, og það torveldað sölu varanna innanlands. Einnig bendir framleiðsluráðið á það, að með niðurgreiðslum, eins og þeim er fyrir komið, orsaka þær stórfellt misræmi á útsöluverði hinna ýmsu tegunda landbúnaðarvara, þ.e., að óniðurgreiddar vörur verða óeðlilega dýrar, svo sem stórgripakjöt, slátur, svið, egg o.fl., móts við kindakjöt, svo og ýmsar mjólkurvörur, t.d. ostur, þurrmjólk o.fl., samanborið við nýmjólk.

Framleiðsluráðið telur sér skylt að taka þetta fram og væntir þess jafnframt að mæta skilningi ríkisstj., ef vanda ber að höndum með sölu þeirra landbúnaðarvara, sem ekki eru greiddar niður.

Þá vill framleiðsluráðið benda á það, að hinar miklu niðurgreiðslur á kjöti og mjólk valda því, að útsöluverð þeirra vara er komið niður fyrir framleiðsluverðið, t.d. á mjólk um 84 aura á lítra, og verða því vörur þessar bændum almennt dýrari til neyzlu en öðrum landsmönnum, a.m.k. þar til endurskoðun á verðlagsgrundvellinum hefur farið fram.“

Ég vil líka benda á það í þessu sambandi, að þegar verið var að ræða frv. um niðurfærslu verðlags o.fl., þá lýsti frsm. meiri hl. fjhn. Nd., Jóhann Hafstein, yfir eftirfarandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Til umræddrar hækkunar eiga bændur rétt, en ekki fyrr en á næsta hausti. Við sjálfstæðismenn styðjum heils hugar málstað bænda til jafns við aðrar stéttir. Þetta er verðhækkunin, sem bændur eiga tvímælalausan rétt til að óbreyttum lögum. Hins vegar mundi hún ekkí koma inn í verðlagsgrundvöll þeirra fyrr en 1. sept. á þessu hausti.“

En hvað var það, sem kom 1. sept.? Kom þessi lofaða hækkun á kaupgjaldslið bænda inn í verðlagsgrundvöllinn? Nei, það, sem kom í staðinn, voru brbl. hæstv. ríkisstj. og þeirrar stjórnar, sem Sjálfstfl. hafði heitið að firra vantrausti. Þarna stóðu sjálfstæðismenn sannarlega ekki við gefin fyrirheit.

Það var nokkurn veginn vitað á s.l. sumri, að breytingar mundu verða allmiklar eða nokkrar á verðlagi landbúnaðarafurða, og af þeim ástæðum flutti ég ásamt fleiri þm. þáltill. varðandi niðurgreiðslurnar á sumarþinginu í sumar sem leið. Þessi þáltill. hljóðaði þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að auka ekki niðurgreiðslur á aðalframleiðsluvörum landbúnaðarins nema hafa áður haft um það samráð við framleiðsluráð landbúnaðarins og taka fullt tillit til tillagna þess.“

Enn fremur segir í grg. fyrir þessari till.: „Till. þessi til þál. er fram borin vegna þeirrar hættu, sem flutningsmönnum sýnist vera fyrir hendi, ef niðurgreiðslur væru auknar frá því, sem nú er, á landbúnaðarvörum. Eins og nú er komið þróun þessara niðurgreiðslumála, þá er útsöluverð landbúnaðarvara komið niður fyrir framleiðsluverð, t.d. á mjólk um 84 aura á mjólkurlítra og á dilkakjöti um rúmar 4 kr. á kg, miðað við heildsöluverð. Eru vörur þessar nú þegar orðnar framleiðendum almennt dýrari til neyzlu en öðrum landsmönnum, og hinar miklu niðurgreiðslur hafa því skert tekjur bænda frá því, sem var gert ráð fyrir við verðlagningu á s.l. hausti. Þá hefur þessi þróun valdið stórfelldu misræmi á útsöluverði hinna ýmsu tegunda landbúnaðarvara. Það verður að teljast frá sjónarmiði framleiðenda mjög varhugavert, hve langt er gengið í tiltölulega einhliða niðurgreiðslum á landbúnaðarvörum, er orðið getur landbúnaðinum hættulegt síðar, þegar að því kemur, að dregið yrði úr þeim að meira eða minna leyti, og þá torveldað söluna innanlands.

Þegar niðurgreiðslur voru stórkostlega auknar á s.l. vetri, voru þær m.a. rökstuddar með því, að neyzla niðurgreiðsluvaranna mundi mjög aukast. Allt bendir hins vegar til þess nú, að svo hafi ekki orðið.

Stjórn Stéttarsambands bænda og framleiðsluráð landbúnaðarins eru fulltrúar bænda í þessum málum, og fer þáltill. þessi fram á, að ríkisstj. geri ekkert í verðlagsmálum landbúnaðarins öðruvísi en að taka fullt tillit til vilja þessara aðila.“

Umr. um þessa till. fóru fram eina kvöldstund og var þá langt frá því lokið. En það kom greinilega í ljós eftir málflutningi þáv. hæstv. viðskmrh., Gylfa Þ. Gíslasonar, að ríkisstj. vildi hafa algerlega óbundnar hendur með niðurgreiðslur og verðlagsmál landbúnaðarins yfirleitt. Þetta kom berlega í ljós. Og áfram leið tíminn. Þegar aðalfundur Stéttarsambands bænda var haldinn í Bjarkarlundi dagana 7. og 8. sept. s.l., var upplýst, að viðræður væru hafnar milli samningsáðila um verðlagsgrundvöll landbúnaðarins. En þessum grundvelli hafði verið sagt upp á tilskildum tíma s.l. vetur, enda mátti þá sannarlega segja, að ýmsar blikur væru á lofti í verðlags- og kaupgjaldsmálum landsmanna almennt. En aðalfundurinn, sem haldinn var að Bjarkarlundi, gerði eftirfarandi ályktun almennt um verðlagsmál landbúnaðarins og út frá þeim viðhorfum, sem þá var vitað um í þeim málum, og hljóða þessar ályktanir eða tillögur stéttarsambandsfundarins á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Aðalfundur Stéttarsambands bænda, haldinn í Bjarkarlundi 7. og 8. sept. 1959, leggur áherzlu á, að stjórn sambandsins fylgi eftir kröfu verðlagsnefndar um hækkun á verðlagsgrundvellinum 1959—60 til samræmis við hækkun á ýmsum liðum rekstrarkostnaðar og hækkað grunnkaup frá samningu fyrra verðlagsgrundvallar. Fundurinn gerir kröfu til þess, að til viðbótar þessu verði viðhaldskostnaður véla hækkaður í verðlagsgrundvellinum, þar sem vélum fjölgar árlega og vélar verða miklu viðhaldsfrekari, eftir því sem þær eldast. Þá telur fundurinn óhjákvæmilegt, að bændur fái leiðréttingu vegna þess, að niðurgreiðsla ríkissjóðs á verði landbúnaðarvara er komin niður fyrir grundvallarverð. Mismunur þessi, miðað við neyzlu þá á þessum vörum, sem tekin er í vísitölu framfærslukostnaðar, verði talinn bændum til frádráttar tekjum við gerð grundvallarins. Einnig telur fundurinn nauðsyn á, að aðkeypt vinna í verðlagsgrundvellinum verði hækkuð með tilliti til þess, að fjölskylduvinna er oft vantalin í útgjöldum búsins, og nú er viðurkennt í skattalögum, að húsfreyjan eigi rétt á kaupi vegna framleiðslustarfa í þágu búsins.“

Þessar till. voru samþ. með atkv. allra fundarmanna, sem þarna voru, og hygg ég, að þar hafi allir verið mættir, sem lög stóðu til.

Nú biðu menn þess með eftirvæntingu að vita, hver niðurstaða verðlagsmála yrði á s.l. hausti, enda ræddust samningsaðilar við þar til 17. sept., að samtök þau, sem standa að tilnefningu fulltrúa neytenda í verðlagsnefnd landbúnaðarafurða, stjórnir eftirgreindra aðila: Alþýðusambands Íslands, Sjómannafélags Reykjavíkur og Landssambands iðnaðarmanna, lögðu fyrir fulltrúa þessara samtaka að taka ekki þátt í frekari samningum að svo stöddu. Fulltrúar neytenda sögðu sig úr verðlagsnefndinni, vildu ekki taka þátt þar í frekari störfum. Bréf frá þessum aðilum ásamt grg. fyrir því, að þeir vildu ekki taka þátt í frekari störfum, var birt í blöðum þann 17. sept. og var undirritað af hálfu Alþýðusambands Íslands af Óskari Hallgrímssyni, fyrir hönd

Sjómannafélags Reykjavíkur af Sigfúsi Bjarnasyni og fyrir hönd Landssambands iðnaðarmanna af Braga Hannessyni. En bréfið, sem þessi launþegasamtök sendu til ráðuneytisins, hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Svo sem ráðuneytinu mun kunnugt, hefur um eins árs skeið verið uppi ágreiningur milli fulltrúa neytenda og fulltrúa framleiðenda í verðlagsnefnd landbúnaðarafurða um valdsvið framleiðsluráðs landbúnaðarins. Málavextir eru í stuttu máli þeir, sem nú skal greina:

Eftir að verðlagsnefndin hafði á s.l. ári gengið frá verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða fyrir verðlagsárið 1/9 1958— 31/8 1959, gerðist það, að framleiðsluráð landbúnaðarins bætti á heildsöluverð dilkakjöts í 1. verðflokki verðjöfnunargjaldi, kr. 0.85 pr. kg, til jöfnunar milli kjöts selds á innlendum markaði og þess kjöts, sem áætlað var að selja erlendis. Þessu mótmæltu fulltrúar neytenda sem óheimilu og kröfðust þess, að verðjöfnunargjald þetta yrði fellt niður. Þar sem framleiðsluráðið hafði mótmæli þessi að engu, höfðuðu fulltrúar neytenda í samráði við samtök þau, er að tilnefningu þeirra standa, mál á hendur framleiðsluráði landbúnaðarins með stefnu útgefinni 11/11 1958 og kröfðust þess, að viðurkennt yrði með dómi, að framleiðsluráðinu væri óheimilt að leggja umrætt verðjöfnunargjald á. Með dómi upp kveðnum í bæjarþingi Reykjavíkur hinn 18. ágúst s.l. var framleiðsluráð sýknað af þessari kröfu. Fulltrúar neytenda ákváðu þegar í stað að áfrýja dómi þessum til hæstaréttar, og er málið þar nú til meðferðar. Samtök vor líta svo á, að með dómi þessum, ef staðfestur verður, sé grundvelli þeim, sem þátttaka fulltrúa neytenda í verðlagsnefnd landbúnaðarafurða hefur byggzt á, gersamlega burt svipt og að ókleift sé fyrir fulltrúa neytenda, meðan undirréttardómi þeim, er að framan getur, ekki er hrundið, að taka þátt í störfum verðlagsnefndarinnar. Vér höfum því í dag lagt fyrir fulltrúa vorn í verðlagsnefnd landbúnaðarafurða að taka eigi frekari þátt í störfum n. að svo stöddu. Ákvörðun þessa munum vér taka til nýrrar yfirvegunar, þegar fyrir liggur niðurstaða hæstaréttar í umræddu máli.“

Þannig hljóðaði grg. fulltrúa af hálfu neytenda til ráðuneytisins.

Ég vil geta þess til skýringar, að þessir umræddu 85 aurar, sem lagðir voru ofan á kjötverðið á innlendum markaði, voru aðeins tilfærsla á milli vörutegunda, þ.e. á milli kjöts og ullar, í verðlagsgrundvellinum og orsökuðu enga hækkun á útsöluverði kjöts, miðað við þá verðlagningaraðferð, sem notuð hafði verið áður og var látin óátalin af fulltrúum neytenda alltaf áður.

Þá skeður það, að tveim dögum síðar, þann 19. sept., gaf fyrrv. ríkisstj. út brbl., sem ég hef lýst hér áður. En daginn áður en þessi lög voru gefin út, sendi stjórn Stéttarsambands bænda forsrh., Emil Jónssyni, svo hljóðandi bréf, með leyfi hæstv. forseta, — bréfið er ritað 18. sept. 1959.

„Herra forsrh. Emil Jónsson, Reykjavík.

Eins og yður er kunnugt, hæstv. forsrh., hafa samtök verkamanna, sjómanna og iðnaðarmanna lagt fyrir fulltrúa sína í sexmannanefnd að hætta þar störfum. Þar með var ekki unnt að ljúka á löglegan hátt við samningu verðlagsgrundvallarlandbúnaðarafurða, hvorki með samkomulagi né úrskurði yfirnefndar, sbr. 59. gr. laga nr. 94 frá 1947, þar sem neytendur fengust ekki til að tilnefna fulltrúa í hana. Stjórn Stéttarsambandsins og framleiðsluráð fóru þess á leit við ríkisstj., að hún skipaði mann í yfirnefndina, en á það hefur stjórnin ekki fallizt hingað til. Hins vegar mun hún hafa horfið að því ráði að gefa út brbl., er feli í sér, að verðlag á landbúnaðarvörum skuli standa óbreytt, þrátt fyrir það að útreikningar hagstofunnar sýni 3.18% hækkun frá síðasta verðlagsgrundvelli. Stjórn Stéttarsambandsins getur ekki unað þessum ráðstöfunum ríkisstj. og krefst þess enn á ný, að hún hlutist til um, að yfirnefndin verði fullskipuð, til þess að hægt sé að byggja upp verðlagsgrundvöllinn á löglegan hátt og verðleggja búvörur samkvæmt honum. Á það skal minnt, að fulltrúar bænda skildu ríkisstj. svo s.l. vetur, þegar lögin um niðurfærslu verðlags og kaupgjalds voru sett, að bændur fengju á næsta haustí leiðréttingu á kaupgjaldslið verðlagsgrundvallarins. En með brbl., ef sett verða, verða þeir sviptir þeirri leiðréttingu.

Þessum aðförum mótmælir stjórn Stéttarsambandsins harðlega og mun hafa samráð við fulltrúa bændasamtaka víðs vegar um landið um það, hvernig við skuli bregðast, ef svo freklega verður gengið á rétt bændastéttarinnar eins og nú horfir.

Virðingarfyllst,

Sverrir Gíslason, Jón Sigurðsson,

Páll Metúsalemsson, Einar Ólafsson,

Bjarni Bjarnason.“

Þetta var bréf Stéttarsambands bænda til hæstv. ríkisstj. á s.l. hausti.

Á sama tíma sem þetta bréf er ritað birtist einnig aths. frá framleiðsluráði landbúnaðarins vegna brottfarar fulltrúa neytenda úr sexmannanefndinni, og hljóðar sú aths. þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Í tilefni af bréfi því og tilkynningu, sem stjórnir Alþýðusambands Íslands, Sjómannafélags Reykjavíkur og Landssambands iðnaðarmanna fengu birta í dagblöðunum í dag um verðlagningu landbúnaðarvara, þykir framleiðsluráði landbúnaðarins rétt að skýra mál þetta í stuttu máli út frá sjónarmiði framleiðsluráðs.

Verkefni sexmannanefndarinnar er samkv. lögum að finna grundvöll, sem feli í sér, að bændur hafi sambærilegar tekjur við aðrar vinnandi stéttir, og verðlagning í heildsölu og smásölu geti hvílt á. Þessi grundvöllur er í rauninni reikningur yfir gjöld og tekjur bús af ákveðinni stærð. Er þetta undirstaðan að verðlagningunni. Hins vegar ber framleiðsluráði landbúnaðarins að ákveða heildsölu- og smásöluverð á landbúnaðarvörum í samræmi við þennan grundvöll.

Þessi lagafyrirmæli hafa veríð í gildi frá árinu 1947, og allan þann tíma, sem liðinn er síðan, hefur sexmannanefndin starfað samkv. þeim. Fulltrúar neytenda í nefndinni hafa öll þessi ár unnið að þessum málum í anda laganna, þar til haustið 1958, að þeir vildu einnig hafa afskipti af störfum framleiðsluráðs hvað verðlagninguna snerti. Það virðist vera, að fulltrúar neytenda í nefndinni hafi haustið 1958 lagt annan skilning í hlutverk sitt í sexmannanefndinni en áður, þannig að þeim bæri einnig að hafa áhrif á ákvörðun framleiðsluráðs um heildsölu- og smásölukostnað.

Í áðurnefndri tilkynningu frá stjórnum nefndra samtaka kemur fram, að þær láta fulltrúa sína í sexmannanefndinni hætta störfum, m.a. vegna þess, að framleiðsluráð hafi á s.l. hausti bætt 85 aurum ofan á hvert kg dilkakjöts, sem selt var á innlendum markaði, til þess að standa straum af útflutningi á dilkakjöti. Framleiðsluráð hefur þó verið sýknað í undirrétti í málí þessu. Út af þessu vill framleiðsluráð taka fram, að vegna tilfærslu verðs milli búvara leiddi þetta ekki til neinnar hækkunar á útsöluverði kjötsins og var í fullu samræmi við grundvöllinn. Framleiðsluráðið getur því ekki fundið réttmætt tilefni hjá samtökunum til þess að láta fulltrúa sína hætta störfum í sexmannanefndinni og lítur fyrst og fremst á það sem tilraun til að gera merka löggjöf um samstarf framleiðenda og neytenda í þessum málum óvirka.“

Þetta bréf eða þessi aths. er undirrituð af Sverri Gíslasyni, Jóni Sigurðssyni, Einari Ólafssyni, Páli Metúsalemssyni, Bjarna Bjarnasyni, Helga Péturssyni, Pétri Ottesen, Sveinbirni Högnasyni og Jóni Gauta Péturssyni.

Um þessar mundir lýsti hæstv. forsrh., Emil Jónsson, því yfir, að hann hefði gefið út brbl. með samþykki Sjálfstfl.-manna. Þessu andmæltu sjálfstæðismenn og gáfu út eftirfarandi yfirlýsingu. Mér þykir rétt, að þetta komi allt hér fram, til þess að það sé vitað mál, hvort ríkisstj. hafi haft meirihlutavald að baki sér til þess að gefa út brbl. eða ekki, og meining mín er sú, að það fáist úr því skorið með þessari brtt., hvort svo hafi verið eða ekki. Ég hygg, að hún hafi ekki haft meirihlutavald að baki sér til þess. Í Morgunblaðinu 19. sept. 1959 kemur yfirlýsing þingflokks og miðstjórnar Sjálfstfl., sem mun hafa verið gerð þann 18. sept. og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Vegna þeirrar deilu, sem upp er komin um verðlagningu landbúnaðarafurða, gerði miðstjórn og þingflokkur Sjálfstfl. eftirfarandi samþykkt á fundi sinum í gær:

Sjálfstæðisflokkurinn telur stöðvun verðbólgu og jafnvægi í efnahagsmálum vera höfuðnauðsyn. Í þessum efnum hefur þegar mikið áunnizt frá því, sem var í des. s.l. öllum er þó ljóst, að ráðstafanir þær, sem enn hafa verið gerðar, eru einungis til bráðabirgða og skapa þarf öruggari grundvöll til að tryggja framfarir og atvinnu handa öllum landsmönnum. Þess vegna verður ekki hjá því komizt að taka allt efnahagskerfið til endurskoðunar, þegar nýtt Alþingi, skipað í samræmi við vilja þjóðarinnar, tekur til starfa að afloknum kosningum.

Vegna ósamkomulags hefur að þessu sinni ekki reynzt kleift að ákveða verð landbúnaðarafurða lögum samkvæmt. Ekki skal um það dæmt, hverjum það er að kenna, en á það bent, að æskilegast hefði verið, að úr því hefði fengizt bætt. Það hefur ekki tekizt, og er því, þangað til annað reynist réttara, ekki við annað að miða en þann verðlagsgrundvöll, sem verið hefur í gildi. Samkv. þeim grundvelli hefði verðlag landbúnaðarafurða nú átt að hækka um 3.18%. Sú hækkun er hliðstæð því, eins og ef kaup launþega hækkaði vegna hækkunar vísitölu fyrir verðlagshækkanir, og þess vegna annars eðlis en beinar grunnkaupshækkanir. Hækkun landbúnaðarafurða nú mundi aftur á móti skapa hættu á nýrri verðhækkunarskriðu. Í samræmi við aðrar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið eftir setningu stöðvunarlaganna í vetur, hefði verið sanngjarnt að greiða þessar verðhækkanir niður, þangað til Alþingi hefur gefizt kostur á að taka ákvarðanir um efnahagsmálin í heild. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ekki fallizt á þá lausn, heldur ákveðið að banna verðhækkanir með lögum.

Af framangreindum ástæðum lýsir Sjálfstfl. yfir því, að hann mun á Alþingi leggja til, að bændum verði bætt upp það tjón, sem þeir af þessum sökum verða fyrir.“

Þetta er því skýlaus yfirlýsing Sjálfstfl. um það, að hann muni verða með þeirri brtt., sem við flm. flytjum hér.

Ég vil líka minna á það, að á þeim fundum, a.m.k. sem ég mætti á í haust og þar sem sjálfstæðismenn voru mættir, þá ítrekuðu þeir þessa yfirlýsingu á hverjum einasta fundi og við hvern einasta mann, sem þeir töldu að það mundi bera nokkurn árangur, að þeir mundu strax á haustþinginu beita sér fyrir því að bæta bændum upp þessi 3,18%. Og ég vil ekki að óreyndu ætla stærsta þingflokki þjóðarinnar, sem nú í fyrsta skipti í sögu hennar er skipaður eftir réttlátri skipan og í samræmi við þjóðarviljann, að hann á því fyrsta þingi bregðist að efna þau loforð, sem hann hefur áður gefið. Ég ætla honum það alls ekki, og það jafnvel þó að þarna sé um smámuni að ræða, eins og sumir hv. þm., sem nú eru, og frambjóðendur Sjálfstfl. kölluðu, þegar verið var að ræða þessi mál. Þeir töldu, að hér væri um smámuni að ræða. En vonandi ráða ekki nein smámunasjónarmið hjá Sjálfstfl. í afstöðu þeirra nú til þessa máls.

Þegar hér var komið sögu, sá stjórn Stéttarsambands bænda sig knúða til að kalla saman aukafulltrúafund, og var hann haldinn í Mjólkurstöðinni í Reykjavík 30. sept. Þar voru verðlagsmálin tekin til rækilegrar umræðu og svofelld till. samþ. með atkv. allra fulltrúa, er á fundi voru, en þeir voru alls 42 af 47, sem sæti eiga á stéttarsambandsfundum. En till., sem samþykkt var á þessum fundi, hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Aukafundur í Stéttarsambandi bænda, haldinn í Reykjavík 30. sept. 1959, mótmælir harðlega því gerræði gagnvart bændastéttinni að ákveða með bráðabirgðalögum verðlag landbúnaðarafurða og svipta bændur á þann hátt lögvernduðum samningsrétti þeirra og málskotsrétti til yfirdóms varðandi kaup þeirra og kjör.

Fundurinn krefst þess, að ríkisstj. hlutist til um, að yfirnefnd sú, sem um ræðir í 5. gr. laga um framleiðsluráð landbúnaðarins, verði nú þegar gerð starfhæf, svo að fundinn verði nýr grundvöllur til að byggja verðlagningu á.

Fundurinn viðurkennir nauðsyn þess, að dregið sé úr verðþenslu, en neitar því, að það þurfi að leiða til aukinnar verðbólgu, þó að bændur fái þá verðhækkun, sem aðrar stéttir fengu fyrir ári. Þó getur hann eftir atvikum fallizt á, að frestað verði til 15. des. n.k. að láta koma til framkvæmda þá hækkun á verði landbúnaðarafurða, sem bændum ber til samræmis við kauphækkun annarra stétta og vegna hækkaðs rekstrarkostnaðar síðan verðlag var ákveðið 15. sept. 1958.

Að sjálfsögðu krefst fundurinn þess, að bændur fái fullar bætur frá ríkissjóði vegna þess mismunar á verðinu, sem fram kann að koma við úrskurð yfirdóms þann tíma, sem frestun verðhækkunarinnar gildir.

Verði ekki framangreindum kröfum fundarins fullnægt, felur fundurinn stjórn Stéttarsambands bænda að undirbúa sölustöðvun á landbúnaðarvörum til að mótmæla þeirri réttarskerðingu, sem bændastéttin og félagasamtök hennar eru beitt með þessum aðgerðum, og freista þess að fá henni hrundið á þann hátt.“

Ég vil minna á það, að þann sama dag, sem aukafundurinn var haldinn, felldi hæstiréttur dóm í máli því, sem neytendur töldu sig þurfa að vita um, þegar þeir gengu úr verðlagsnefndinni. — Mér finnst nauðsynlegt, að það komi fram hér í þessum umr., að hæstiréttur hefur þegar fellt dóm í þessu máli og það liggur ljóslega fyrir, að lagaákvæðin í þessum efnum varðandi aðgerðir framleiðsluráðs voru ótvíræð, því að sami úrskurður var felldur bæði í undirrétti og hæstarétti í máli þessu. Þetta er endurrit af dómabók hæstaréttar í málinu nr. 149 1959, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndarhluti neytenda í verðlagsnefnd landbúnaðarafurða gegn framleiðsluráði landbúnaðarins og gagnsókn.

Árið 1959, miðvikudaginn 30. sept., var í hæstarétti í máli nr. 149 1959: Nefndarhluti neytenda í verðlagsnefnd landbúnaðarafurða gegn framleiðsluráði landbúnaðarins og gagnsókn, upp kveðinn svo hljóðandi dómur:

Aðaláfrýjandi hefur skotið máli þessu til hæstaréttar með stefnu 29. ágúst þ. á. Krefst hann þess, að ákveðið verði með dómi, að gagnáfrýjanda hafi verið óheimilt að hækka með auglýsingu sinni 18. sept. 1958 heildsöluverð á 1. verðflokki dilkakjöts um kr. 0,58 pr. kg og smásöluverð hlutfallslega frá þeim verðlagsgrundvelli, er verðlagsnefnd landbúnaðarins lagði á fundi sinum 6. sept. 1958. Þá krefst aðaláfrýjandi og málskostnaðar úr hendi gagnáfrýjanda í héraði og fyrir hæstarétti eftir mati dómsins. Gagnáfrýjandi hefur áfrýjað málinu með stefnu 14. sept. þ.á. Krefst hann sýknu af kröfum aðaláfrýjanda í málinu og málskostnaðar í héraði og hér fyrir dómi eftir mati hæstaréttar.

Í lögum nr. 94 5. júní 1947 eru ákvæði um verðlagningu landbúnaðarafurða á innlendum markaði. Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur samkv. 1. gr. á hendi aðalframkvæmd laganna, og í 8. tölul. 2. gr. er því sérstaklega falið það hlutverk að verðskrá landbúnaðarvörur í samræmi við vísitölu hagstofunnar, sbr. 2. mgr. 6. gr. og 7. gr. Verðskráning takmarkast við það, sem mælt er í 4. gr. laganna, að söluverðið skal miðast við það, að heildartekjur þeirra, er landbúnað stunda, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. Til þess að ná þeim tilgangi er ákveðið í 5. gr., að við útreikning framleiðslukostnaðar og verðlagningu á söluvörum landbúnaðarins á innlendum markaði í heildsölu og smásölu skal samkv. ákvæðum 4. gr. byggt á verðlagsgrundvelli, sem fenginn er með samkomulagi milli þriggja fulltrúa, sem tilnefndir eru af stjórn Stéttarsambands bænda, og þriggja fulltrúa frá þessum félagssamtökum neytenda: Alþýðusambandi Íslands, Landssambandi iðnaðarmanna, Sjómannafélagi Reykjavíkur. Hefur þessi n. fulltrúa framleiðenda og neytenda starfað undir nafninu verðlagsnefnd landbúnaðarafurða.

Samkv. því, sem fram hefur komið í málinu, hefur starfsskipting með framleiðsluráði og verðlagsnefnd orðið á þann veg í framkvæmdinni, að verðlagsn. hefur fyrst áætlað kostnað við rekstur bús af ákveðinni stærð, þar með taldar tekjur bónda af vinnu hans sjálfs, og jafnframt áætlað heildarmagn þeirra afurðategunda, sem ráðgert er að til sölu komi. Eftir að þessi verðlagsgrundvöllur hefur verið fundinn, hefur svo framleiðsluráð verðskráð hinar einstöku vörutegundir til sölu á innlendum markaði, þannig að tekjur þær, sem bóndinn fær í hendur, svari til þeirra heildargjalda, sem ráð var gert fyrir í verðlagsgrundvellinum. Virðist aðferð þessi og venja geta samrýmzt fyrirmælum laga um verðlagningu.

Á fundi verðlagsnefndar 5. sept. 1958 varð samkomulag um útreikning á verðlagsgrundvelli landbúnaðarafurða tímabilið 1. sept. 1958 til 31. ágúst 1959. Var framleiðsluráði síðan send skýrsla um verðlagsgrundvöllinn, þar sem heildargjöld og heildartekjur bús voru tilteknar. Voru útgjöldin sundurliðuð með tilteknum fjárhæðum, og teknamegin var einnig greint, við hvaða afurðamagn væri miðað, en látið vera í eyðu til ákvörðunar framleiðsluráðs, hvaða verð bóndinn þyrfti að fá fyrir hinar mismunandi afurðategundir, til þess að heildartekjur svöruðu til heildargjalda. Kom þá ekki heldur til þess, að útsöluverð neinnar sérstakrar vörutegundar, hvorki í heildsölu né smásölu, væri ákveðið af verðlagsnefnd.

Fulltrúar neytenda í n. létu þó bóka þá aths., að við verðlagningu í heildsölu á kindakjöti sé reiknað með slátrunarkostnaði, sem sé ekki hærri en kr. 5.50.

Eftir að framleiðsluráð fékk umgetinn verðlagsgrundvöll, ákvað það, hvaða verð bóndinn þyrfti að fá í sínar hendur fyrir hverja einstaka afurðagrein, til þess að tekjur hans samsvöruðu gjöldum þeim, sem greind voru í verðlagsgrundvellinum. M.a. var ákveðið, að greiðsla til bóndans fyrir 1. og 2. flokks dilkakjöt þyrfti að nema kr. 22.20 pr. kg. Mun þessi ákvörðun hafa verið tilkynnt verðlagsnefndinni.

Í auglýsingu framleiðsluráðs, dags. 18. sept. 1958, var heildsöluverð á kindakjöti í fyrsta verðflokki (1. og 2. fl.) ákveðið kr. 24.59 pr. kg. Fulltrúar neytenda í verðlagsnefnd töldu þessa verðlagningu of háa og brjóta í bága við verðlagsgrundvöllinn. Litu þeir svo á, að verðið bæri að ákveða þannig, miðað við kg: Til bænda kr. 22.20 og til greiðslu á slátrunarkostnaði kr. 5.50, en að frádregnu framlagi úr útflutningssjóði, kr. 3.96. Samkvæmt því mætti heildsöluverð ekki vera hærra en kr. 23.74 pr. kg og sé kjötið því of hátt verðlagt um kr. 0.85 pr. kg.“ (Forseti: Mætti ég spyrja hv. þdm., hvort hann á mikið eftir af ræðu sinni?) Já, ég á talsvert eftir. (Forseti: Væri hann þá til með að fresta henni?) Já. [Frh. — Fundarhlé.]