11.03.1960
Efri deild: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1444 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

41. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Brtt. við 6. gr. þessa frv., er landbn. leggur hér fram, er einungis til samræmis við lagabálk um efnahagsmál, sem afgreiddur var hér á Alþingi, eftir að þetta frv. var flutt og afgr. hingað til Ed. Að þessu er vikið í nál., og tel ég því þarflaust að fara um brtt. mörgum orðum, enda er þar ekki um efnisbreytingu að ræða. Brtt. þessi liggur hér fyrir á þskj. 159.

En um frv. sjálft tel ég hlýða að segja nokkur orð. Með afgreiðslu þess, ef að lögum verður, ætti að vera lokið umræðuþætti alllöngum og nokkuð háværum, er hófst s.l. haust um landbúnaðarverðlag og verðlagningu. Margt orð hefur farið og fokið um bekki út af þessu máli og ekki öll svo næsta þarfleg. En allt er gott, þá endirinn allra beztur verður. Ber nú að fagna því, að lausn er fengin á löngu þófi og umfangsmiklu ofhitamáli. Að lausn þess hafa margir menn unnið vel og drengilega og algerlega málefnalega. Ég nefni ekki nöfn í því sambandi, en þeir eru bæði úr hópi fulltrúa neytenda, sem svo eru nefndir, þeir eru einnig úr hópi fulltrúa framleiðenda, að ógleymdum afskiptum hæstv. landbrh. af þessu máli og hæstv. ríkisstj. Ég tel, að hér hafi verið unnið að málefnalegri lausn á réttan hátt, og vil telja, að allir þessir menn eigi fyrir það traust skilið og virðingu.

Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á gömlu framleiðsluráðslögunum frá 1947, er þá voru sett til að tryggja bændum með lögum verð fyrir vöru sína, er færði þeim tekjur, er sambærilegar teldust við tekjur annarra vinnandi stétta, eins og það er orðað. Á þessari lagasetningu þá var mjög mikil nauðsyn. Nú eru gerðar nokkrar breytingar á þessum lögum frá 1947. Ég nefni aðeins þær helztu.

Fulltrúar neytenda hafa nú meiri íhlutunarrétt en áður um það, hvernig dreifingarkostnaður búvöru er fundinn og reiknaður, en það hefur áhrif með mörgu öðru á verðlagsgrundvöll landbúnaðarafurða. Breyt. er nú gerð í þá átt, að breyta má verði landbúnaðarvöru oftar en áður var, eða ársfjórðungslega. En áður var hún verðlögð aðallega í eitt skipti fyrir árið, frá 1. sept. til 31. ágúst. Fram er nú tekið, að halli, sem kann að verða af því fyrir framleiðendur, að úr landi verði að flytja eitthvað af vörum þeirra og selja þar fyrir verð, sem er undir framleiðslukostnaði, skuli ekki lagður ofan á innanlandsverðið, en þetta var talið heimilt að gera eftir eldri lögum og olli að vonum óánægju í hópi neytenda, sem berlegast kom fram á s.l. ári, eftir að dómar höfðu fjallað um þetta atriði, og mun þetta hafa valdið mjög miklu um, að allt samkomulag í sex manna nefnd fór út um þúfur í fyrra og fulltrúar neytenda voru kvaddir heim. Sem afleiðing af þessari breytingu koma nú inn skýr ákvæði um það, að bændur fái að vissu marki greiddan halla, ef hann verður á útfluttum landbúnaðarvörum, úr ríkissjóði. Sumir eru smeykir við þetta ákvæði og telja, að það geti orðið nokkuð dýrt fyrir ríkið. Að sjálfsögðu væri æskilegast fyrirkomulag allra þessara verðlagsmála, að bændur verðlegðu vöru sína sjálfir á innlendum markaði og bæru þá halla af því, sem út væri flutt, ef það gefur minna verð. En þá yrði varan of dýr í landinu, eins og sakir standa hjá okkur þessi árin. En við lægra verð en bændur fá nú fyrir sína vöru geta þeir ekki búið og framleitt. Hin frjálsa verðlagning er því ekki tímabær, og við Íslendingar erum síður en svo einir um þann vanda að þurfa að greiða niður landbúnaðarvörur.

Allir menn munu viðurkenna, að vörur þessar megi með engu móti vanta í þjóðarbúið. Nú hin síðustu ár sýnist mér næstum augljóst, að fremur verði skortur á flestum eða öllum landbúnaðarvörum hér hjá okkur en að um offramleiðslu verði að ræða. Þegar bezt hefur gert nú hin síðustu ár, hefur landbúnaðarframleiðslan í heild verið aðeins örfáum prósentum fram yfir neyzluna í landinu. Í lakari árum hefur orðið skortur, t.d. nú í vetur á smjöri, svo að flytja varð inn allmikið magn af dönsku smjöri. Árlega vantar mikið magn af kartöflum. Hins vegar hefur verið flutt út dálítið af kindakjöti, en nú eru horfur á, að sá útflutningur verði það sæmilegur, að erlendi markaðurinn gefi viðlíka verð og innanlandssalan fyrir kjötið.

Um þetta mál má að sjálfsögðu margt segja, en helzt af öllu ekki allt of mikið af fúkyrðum, sem einungis spilla samkomulagi milli stétta. En verðlagslögin eða sexmannanefndarlögin frá 1947, sem nú hafa verið endurskoðuð og umbætt, eru merkileg að því leyti, að þau eiga að byggjast á samkomulagi, skilningi og þekkingu til beggja hliða, og hefur þetta gefizt býsna vel hér til. Aðalatriði þessa máls eru: Þjóðin verður að framleiða landbúnaðarvörur, sem nægja henni sjálfri til fæðu, a.m.k. það. Það er það allra minnsta. Og þessa fæðu má hún ekki spara um of. Nú fækkar þeim einstaklingum hér, sem í flestum öðrum löndum, látlaust, sem fást til að stunda landbúnað. Þetta getur komið til með að verða alvarlegt áhyggjuefni, sem þá verður að ráða bót á, þegar þar að kemur. Og til þess er aðelns ein leið, sú að skapa betri skilyrði fyrir það fólk, sem stundar þau störf, sem of margir vilja nú sniðganga.

Samfara þessari fækkun á grasrótinni fjölgar hinum í stórum stíl. Eftirspurn og þörf fyrir landbúnaðarvörur vex hröðum skrefum og mun vaxa. Það er útilokað, að nægilegt magn af þeim verði unnið úr skauti jarðar, nema sú stétt manna, er að því vinnur, hafi hliðstæð kjör og aðrar stéttir. Mín skoðun er sú, að ákvæði 9. gr. þessa frv. muni ekki leiða til mikilla útgjalda fyrir ríkið, og ég óttast miklu meira, að landbúnaðarframleiðsla í þessu landi verði of lítil en of mikil. Þrátt fyrir stórkostlegar umbætur og mjög bætt kjör sveitafólks nú hina síðustu áratugi er það sannleikur, að víða eru þau þó allt of tæp. Ofmati á einni framleiðslugrein og vanmati á annarri er um of á lofti haldið hér á landi, og veldur það einnig fráhvarfi margra manna, sem uppaldir eru við sveitastörf og vilja máske gjarnan gera þau að ævistarfi, ef viðunandi skilyrði væru fyrir hendi. Einn merkur bóndi hefur sagt réttilega: Ef hér væri ekki mold og landbúnaðarframleiðsla, þá væri hér engin þjóð.

Ég legg til, að frv. þetta verði samþ. með þeirri einu breyt. við 6. gr., er landbn. flytur á þskj. 159.