11.03.1960
Efri deild: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1453 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

41. mál, framleiðsluráð landbúnaðarins

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Brtt. hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB) og hv. 5. þm. Austf. (PÞ) við 8. gr. þessa frv. mun vera fram komin vegna atburða í haust, er sex manna nefnd varð óstarfhæf og yfirnefnd var ekki heldur skipuð.

Að sjálfsögðu hafa allir, er um þessi mál haga hugsað og fjallað, hugleitt þetta atriði og velt því fyrir sér á ýmsa lund og rætt það á því umræðu- og samningastigi, sem þetta mál var á langan tíma í haust og vetur.

Nú hafa framleiðsluráðslögin verið við lýði í 12 ár eða þar um bil, en þetta öryggisleysi sem talið er að liggi í því, að ekki séu ákvæði um það, hvernig yfirnefnd verði skipuð, ef fulltrúar neytenda neita að taka þátt í henni, hefur ekki komið að sök fyrr en á s.l. hausti, að þessar nefndir yrðu ekki starfhæfar. Að þessu leyti er fengin þó nokkur reynsla fyrir því, að ekki eru líkur til, að oft muni þurfa að taka til þess að skipa yfirnefnd, eins og lagt er til í þessari brtt. Þó tel ég, að í sjálfu sér væri fremur gott, að ákvæði væri um þetta í frv. En eins og hæstv. landbrh. vék hér að áðan, er þetta frv. algerlega byggt á samkomulagi á milli fulltrúa framleiðenda og neytenda. Ég leit því svo á, þegar þetta atriði var til umræðu í landbn., að landbn. sem slík eða Alþingi ætti ekki að fara að brjóta niður þetta samkomulag fulltrúa neytenda og framleiðenda með neinum breytingum á þessu frv., sem mættu teljast verulegar efnisbreytingar. Þess vegna varð aðeins samkomulag um eina breyt. í landbn., þá sem lögð er hér fram og ekki hefur verið ágreiningur um, hvorki í nefnd né hér í hv. deild.

Það má náttúrlega margt um það segja, hvort þetta mundi verða til mikilla bóta, að gefa landbrh. vald til þess að skipa slíka yfirnefnd eða slíkan yfirdóm, til þess að valdið sé hjá honum. Enda þótt hæstiréttur tilnefndi máske mann í hana, yrði valdið hjá honum, því að ekki er við því að búast, að í hæstarétti séu menn, sem hafa nokkra sérþekkingu á þessum málum, verðlagningu landbúnaðarafurða. En ég geri ráð fyrir því samt, að fulltrúar bænda og bændur yfirleitt gætu sætt sig við það, að þetta vald væri í höndum landbrh, með það fyrir augum, að þeir byggjust við því, að landbrh. væri frekar þeim megin í deilu um þetta en að hann styddi neytendur. En það liggur aftur á móti alls ekkert fyrir um það, að neytendur sætti sig við þetta, enda liggur þetta algerlega utan við það samkomulag, sem margsinnis er búið að lýsa að hafi orðið í þessu máll. Þess vegna tel ég, að Alþingi eigi ekki að samþ. þetta, nema þá ef menn vilja skjóta málinu enn á frest, eins og hæstv. landbrh. stakk upp á, og leita eftir samkomulagi við neytendur um þetta, ef mönnum þykir það verulegu máli skipta. Ég fyrir mitt leyti álít, að þetta skipti ekki verulegu máli, vegna þess að eins og þetta lagafrv. er nú orðið, eru numdir í burt þeir helztu agnúar, sem áður voru á þessum lögum og ollu því s.l. haust, að sex manna nefndin varð ekki starfhæf, og það hygg ég að hafi aðallega legið til grundvallar þar í gömlu lögunum, að heimilt var talið að leggja ofan á innanlandsverðið þann halla, sem framleiðendur biðu af því að flytja út landbúnaðarvörur, og um þetta gengu dómar, sem studdu þetta. Út af þessu álit ég, að sex manna nefndin hafi aðallega sprungið. Og með því góða samkomulagi, sem nú hefur tekizt milli fulltrúa þessara hópa, framleiðenda og neytenda, er ég ekki mikið hræddur um, að til þess komi, að það þurfi að vera tiltæk slík yfirnefnd sem lagt er til í þessum brtt.

Viðvíkjandi öðrum brtt., sem hér hafa komið fram frá hv. 9. landsk. (JÞ), vil ég líka segja það, að þótt hitt og annað sé í þeim athyglisvert máske, ganga þær einnig út á það að breyta því samkomulagi, sem orðið var um þetta mál, og ég held þær séu ekki svo mikilsverðar, að það sé ástæða til að fara að taka málið upp að nýju sem samkomulagsmál af hálfu ríkisstj. eða að neytendur og framleiðendur fari enn að semja um þessi mál. En það tel ég óhjákvæmilegt, ef Alþingi gerir verulegar efnisbreytingar á frv.